Færsluflokkur: Bloggar
18.5.2008 | 10:39
Sunnudagsstolt og ný vika í vændum....
Sunnudagsmorgun er runninn upp. Mikið er gott að fá smá hvíld, þó ég hafi haft nóg að gera og ekki komist lengra en eldhúsið í vorhreingerningunni minni, ennþá. Svali minn er orðinn sköllóttur, ég byrjaði á að reyta af honum feld í eins og einn og hálfan kodda á fimmtudaginn. Svo í gær áttum við tíma hjá hundasnyrtinum okkar og þar eyddum við 4 tímum í viðbót í að klára, jafna og fínisera kappann og frá féllu hár upp á annan kodda til. Þó að hann sé orðinn sköllóttur þá er hann orðinn stórglæsilegur núna. Enda var hann orðinn kafloðinn og ófrýnilegur að sjá. Núna er hann að verða klár í flugið sitt til Englands. Hann verður sýndur þar á tveimur sýningum í júní og júlí, og vona ég að honum eigi eftir að ganga mjög vel þar.
Á föstudaginn fór litli sjálfstæðismaðurinn minn á sitt fyrsta sundmót. Hann er að æfa sund. Greyið litla var bara skráður í einn riðil, sem var svo allra síðasti riðillinn þann daginn. Ég var svo stolt af honum og hversu stilltir hann og félagar hans voru að bíða rólegir allt mótið þangað til að komið var að þeim. Þeir áttu hrós skilið fyrir það. Svo keppti minn gaur í 100m skriðsundi, synti eins og herforingi og var lang fyrstur í mark. Góðvinur hans og félagi var svo í öðru sæti. Ekki leiðinlegt það. Hann uppskar þátttökupening, frisbídisk og miða í bíó í verðlaun.
Í dag fer ég svo í vinnu. Ein af frestuðu kynningunum mínum datt aftur inn, þannig að fríið mitt fer í pásu á meðan. Núna er bara að finna út úr því hvernig litli kútur kemst í bíó, og hver fer með honum, því ekki verður það ég, því miður. Í næstu viku ætla ég að taka mér smá frí líka, og halda áfram þaðan sem frá var horfið hér heima. Ekki veitir af.
Hafið það náðugt og gott um helgina
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2008 | 08:31
Time out..............
Jamms, þá er mín barasta komin í frí, langt helgarfrí, alveg óvænt. Þó að það sé ekki gott að kynningarnar mínar hafi frestast, sem búið var að bóka, þá er ég samt pínulítið fegin. Var einmitt að hugsa það í gær að mig vanti hreinlega tíma til að sinna heimili, börnum og hundum. Vorhreingerning er á dagskrá, hundasnyrtingar og þjálfun. Svo ætlum við líka að freista þess að girða garðinn og gera hann almennilega hundheldan.
Mig skortir allavega ekki verkefni. Svo get ég kannski verið duglegri hér á blogginu í leiðinni, náð að lesa meira frá ykkur hinum og kvittað, bara gaman að því. Þó að ég hafi um nóg að snúast ætla ég samt að leyfa mér að sinna sjálfri mér líka. Ná því að taka til hjá sjálfri mér og skipuleggja. Smá naflaskoðun er tímabær og sjálfsskikking og fínpússning í góðu lagi.
Tíminn hefur hlaupið frá mér í vor, einn daginn var febrúar, svo lít ég upp og það er kominn maí! Mér leið í gær eins og að ég hafi verið að eltast við skottið á sjálfri mér, en aldrei náð almennilega utan um það, fyrr en nú. Vonandi tekst mér að ná í skottendann á öllu því sem setið hefur á hakanum, núna bara.
Jæja, farin að ráðast í eldhúsið....see you later
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2008 | 09:20
Ný vika, nú birtir til......
Mér finnst kominn tími til að svartsýnis færslan mín hér á undan víki fyrir bjartsýnisfærslu. Helgin var bara góð hér, náði mér upp úr lasleika, eldaði góðan mat, fékk þó nokkrar heimsóknir og allt í lukkunnar velstandi hjá okkur í fjölskyldunni.
Í dag er elsti strákurinn minn að hefja vinnuviku nr. 2, loksins kominn í vinnu og er að standa sig ágætlega. Að því fráskildu að hann náði ekki að vakna sjálfur í morgun, en mamma bjargaði því að sjálfsögðu. Reglan er samt sú að hann eigi að vakna sjálfur, smyrja sitt eigið nesti og í raun vera alveg sjálfstæður. Það er ekki til lítils ætlast af honum, miðað við hans ofvirkni og öllum þeim pakka. En fyrsta vikan heppnaðist mjög vel og hann virðist ætla að standa sig vel í vinnunni og ég gæti ekki verið stoltari af honum þessa dagana.
Miðjustrákurinn minn var að leggja af stað í skólaferðalag í 4 daga.. Hann gleymdi að sjálfsögðu úlpunni sinni, en mundi eftir öllu hinu að ég held. Ég tók ekki eftir því að hann væri úlpulaus fyrr en við vorum rétt ókomin í skólann, og þá var enginn tími til að snúa við og sækja hana..... Markmiðið er samt að hann eigi líka að vera sjálfstæður og ábyrgur fyrir sínu lífi og þetta verður bara að skrifast á hann, mamma verður ekki endalaust til staðar til að skipuleggja og hafa yfirumsjón með öllu sem hann þarf að gera í lífinu.... Annars er hann duglegur og heill, með yndislega nærveru og er vinsæl barnapía hér í hverfinu. Honum finnst ekkert verra að geta unnið sér inn vasapeninga með því að passa, og finnst það ekki endilega vera "stelpuvinna". Ég gæti ekki verið stoltari af honum heldur.
Litli sjálfstæðismaðurinn minn er ljúfur og kátur strákur þessa dagana líka. Að vísu svolítill prakkari, en langaði að færa mömmu sinni blóm um helgina og ég get svarið það ég veit ekki úr hvaða garði hann stal þeim, því páskaliljurnar mínar eru á sínum stað í blómabeðinu okkar. Hann fékk smá ræðu áðan um að svona gerum við ekki...það er bannað að týna blóm úr beðum í görðum annarra. Annars er hann afar sæll með nýja skotboltann sinn og vildi fá að taka hann með í skólann í morgun.
Lífið er líka ljúft og ég verð stundum að líta upp og gefa mér tíma til að njóta augnabliksins því þau koma ekki endalaust aftur.
Nú er ný vika að hefjast, fundur í vinnunni á eftir og ýmislegt snatt sem þarf að klára. Ég er bara sæl með að geta skipulagt mig og gert mitt besta, einn dag í einu. Þannig að ég ætla að taka daginn með stæl og fara sæl að sofa í kvöld í þeirri fullvissu að ég gerði mitt besta í dag.
Vonandi hafið þið það sem best, og að öllum gangi vel....Knús frá mér
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.4.2008 | 20:12
Komin heim, gleðilegt sumar!!!
Jæja, þá er ég loksins að jafna mig eftir spanferðina um þvert og endilangt England og Skotland. Fyrst var ég á námskeiði í 5 daga, stíft námskeið sem byrjaði snemma og endaði seint á kvöldin. En mikið rosalega græddi ég mikið á þessu námskeiði, finnst ég orðin fær í flestan sjó bara....
Svo fórum við stöllur (vorum 2 saman) á flakk! Við vorum búnar að keyra frá Heathrow til Worcester, þar var námskeiðið. En þaðan fórum við fyrst til Manchester, svo til Morecamb og Lancaster, aftur til Manchester, Preston næst og svo Edinborg. Í Edinborg gistum við á 5 stjörnu hóteli í vellystingum og nutum þess að skoða borgina daginn eftir (við vorum reyndar búnar að gista nokkrar nætur líka í Manchester og 5 nætur í Worcester). Ég álpaðist inn í verslun sem sérhæfir sig í skotapilsum og fékk að skoða mynstrin og litina í mínum ættum. (Já, ég er hálf skosk) Fann þar afar fallega slá, sem ég sló til og keypti. Mér fannst þetta stórmerkilegt að sjá þetta og var þetta einn af hápunktum ferðarinnar fyrir mig. Annar hápunktur var líka að fá að hitta ræktendurna sem ætla að fá hann Svala minn, skoða aðstæður og þeirra hunda og fullvissa mig um að það muni fara vel um kappann hjá þeim. Ég er mjög sátt við fólkið og allt og held að honum komi bara til með að líða vel hjá þeim. Mikill léttir.
Eftir Edinborg var ferðinni heitið til Aberdeen. Við pöntuðum hótel sem átti að vera þar, en reyndist svo vera í yfir 40 mílna fjarlægð frá Aberdeen, í litlu þorpi út í afdalasveit. GPS tækið okkar vísaði okkur veginn og bara eftir þröngum hlykkjóttum sveitavegum. Ekki gaman að keyra það, öfugum megin á veginum um miðja nótt. Þegar þangað var komið fundum við ekki móttökuna, hringdum og hringdum en enginn svaraði. Römbuðum svo loks á móttökuna, dingluðum og dingluðum, en enginn kom til dyra. Þá brugðum við á það ráð að labba hringinn í kring um hótelið og fundum bar, opinn á hliðinni. Þar hjálpaði barþjónn okkur að opna aðaldyrnar, og þá tók á móti okkur hrörleg kona með úfið hár og skakkt andlit. Á eftir henni rölti svo einskonar "butler" sem var fölur og mjór. Greyið konan hafði greinilega orðið fyrir einhverjum skakkaföllum, heilablóðfall eða eitthvað álíka, var hálf lömuð í andlitinu. En herbergið okkar var fyrir fatlaða, óskiljanlega var engin lyfta fyrir farangurinn okkar (sem var mikill) og ekki hægt að læsa gluggunum heldur. Það var hægt að labba bara inn á okkur af þakinu. Þegar hér var komið við sögu vorum við orðnar svo skelkaðar að við gátum ekki hugsað okkur að gista þarna. Vorum fljótar að burðast niður aftur með allan farangurinn og út í bíl og fengum gistingu á Hilton hótelinu í Aberdeen í staðinn. Vorum komnar þangað loksins um 3 leytið um morguninn.
Aberdeen er falleg borg líka, þó ekki eins falleg og Edinborg. Við vorum þar í tæplega tær nætur og lögðum svo af stað áleiðis til London. Keyrðum það á einum degi með viðkomum á bensínstöðum, veitingastöðum, Manchester aftur og Stafford. Fórum hótelavillt þar líka, en vorum komnar upp úr miðnætti á hótelið, sársvangar og dauðþreyttar. Pöntuðum pizzu og fórum svo að sofa.
Í London eyddum við svo morgninum í að fara niður í bæ, skoða Soho hverfið og þar fann ég hárgreiðslustofu sem ég vann á fyrir mörgum árum síðan. Eigandinn var þar ennþá og það var gaman að hitta hann, spjalla við hann og knúsa eftir öll þessi ár. Engu hafði verið breytt, allt eins og það var þegar ég fór. Virkilega gaman.
Svo var ferðinni heitið á Heathrow og í flug heim.
Ég gæti skrifað heila bók um allt sem á daga okkar dreif þessa daga, allt sem ég lærði, upplifði, borðaði. Fólkið sem við hittum og töluðum við, byggingarnar sem við sáum, hótelin sem við gistum á og allt niður í beygingar radíusinn á bílnum sem við leigðum, Tom Tom gps tækið með kostum sínum og göllum, og allt hvaðeina. En ég ætla að láta þetta duga í bili. Ég er bara fegin að vera komin heim í faðm fjölskyldunnar og hundanna, og ég get svarið það hér er ég vöktuð, knúsuð og elskuð út í hið óendanlega. Hundarnir mega ekki af mér sjá á salernið einu sinni. Öll strollan liggur fyrir utan þegar ég kem fram á ganginn aftur.
Já, það er gott að vera elskuð, stundum........Gleðilegt sumar góðir hálsar og hafið það sem best
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.4.2008 | 21:14
Gredduraunir og England.....
Jæja, loksins gef ég mér smá tíma til að skella inn eins og einni færslu. Uss, ég veit upp á mig skömmina með að hafa ekki gert neitt hér inni í háa herrans tíð. En það hefur ekki verið flóafriður hér undanfarið og vinnan hefur líka tekið sinn toll á tíma mínum.
En gredduraunir Svala fara senn að ljúka. Þ.e.a.s. það er búið að vera lóðarí hér á bæ undanfarnar vikur og rakkinn skynjaði komandi tíð löngu áður en það byrjaði. Báðar tíkurnar lóðuðu á sama tíma, stilla sig saman þessar elskur. Eru svo tillitsamar að gera þetta samtímis þannig að ég þurfi ekki að standa oft í þessu á hverju ári. En um leið og þetta var í vændum fór það strax að hafa áhrif á Svala greyið. Ég er svo fegin að hann er að fara út, og þá líka hans vegna. Því þetta tekur svo svakalegan toll af honum og hans ástand er viðvarandi allan tímann í þessar 3 vikur sem þetta varir. Hann sefur ekki, borðar ekki og eirir sér engan veginn, hormónarnir hans taka völdin og greddan ætlar yfir allt að keyra. Hann er með endalausa, áríðandi og brýna þörf fyrir að gera do do, og það strax og ekki seinna en núna, allan tímann. Lætur Afríku ekki í friði eina einustu stund og svo horast hann niður fyrir vikið og líður sennilega ekki vel. Hann er bara eitt testosteron sterabúnt og vöðvafjall í ham! Það þýðir ekkert að fjarlægja hann frá henni þar sem hann fer sér að voða og hurðir, innréttingar og húsgögn eiga sér ekki viðreisnarvon ef hann ætlar í gegn um þau. Hér hefur ekki verið svefnfriður á nóttunni heldur í nokkrar vikur, spangól, gelt og væl alla nóttina. En sem betur fer er þetta að vera búið núna.
Við erum búin að fara ófáar ferðirnar til dýralæknis, í allskonar tékk og aðstoð til að ná að para þau á akkúrat réttum tímapunkti. Blóðprufur, sæðisprufur, strok og meiri blóðprufur hafa verið framkvæmdar og í það minnsta er sæðið hans Svala í toppstandi. Vonandi tókst okkur núna að hitta rétt á og að í vændum séu hvolpar af Giant Schnauzer kyni. Þetta var síðasti sjéns okkar til þess og eftir þetta er ég hætt að reyna. Það er dýrt spaug að ætla sér að vera í hundarækt, svo mikið er víst. Fyrir utan heilsuna og geðheilsuna, sem þetta hefur líka áhrif á, þá er þetta svo dýrt í peningum að þetta borgar sig engan veginn heldur.
En eftir tvær svefnlausar vikur, brjálað að gera í vinnunni líka og allt þetta hundastand er ég á leið til Englands eftir helgina. Nú fer ég á námskeið og svo í könnunarleiðangur til að kanna hvar ég vil lenda, ef ég tek þá ákvörðun að gerast umboðsaðili fyrir fyrirtækið, þar. Spennandi og gaman, ég get ekki neitað því. Ég get hreinlega ekki beðið og hlakka svo til.
Vonandi hafið þið það sem best. Meira seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.3.2008 | 17:34
Brjáluð? Ævintýramennska???...
Jæja, þá er mín farin að velta fyrir sér að fara út fyrir landssteinana. Er maður orðinn klikk? Málið er að ég hef val, val um að standa í stað og sætta mig við það sem er. Ekki alslæm staða, alls ekki, en vil ég meira?
Til að útskýra á einfaldan hátt, þá snýst málið um að flytja erlendis vegna vinnunnar. Hér er ekki pláss til að færa sig upp á skaftið, ef svo má að orði komast, en erlendis, nánar tiltekið á Englandi, er gnægðarpláss í geiranum fyrir mig, og marga fleiri. Auðvitað er þetta ekki auðveld ákvörðun, þar sem ég myndi skilja fjölskylduna eftir hér, allavega til að byrja með. Sú tilhugsun er erfið fyrir mig, enda er ég móðir. En, valið snýst um að láta sig hafa það tímabundið og þegar hlutirnir eru komnir á skrið þá að fjölskyldan fylgi á eftir. Valið snýst um að standa í stað, eða ná að vinna sig upp og eiga möguleika á að komast á "græna grein" fyrir rest, upp á framtíðina?
Annars gengur vel hér eins og er. Nóg að gera og í raun brjálað að gera, ég hef ekki haft tíma fyrir bloggið undanfarið og mun sennilega hafa mjög takmarkaðan tíma á næstunni líka. En það er gaman þegar vel gengur, því er ekki að neita.
Strákarnir mínir eru fullir stuðnings með útflutninginn, vilja í raun bara flytja strax á morgun. Úff, ég veit samt af eigin reynslu að þetta er ekki svo einfalt fyrir þá. Ég hef sjálf flutt landa á milli oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í mínum uppvexti og veit að það tekur meira á en þeim órar fyrir. Þetta verður enginn dans á rósum svo mikið er víst.
En núna kemst lítið annað að hjá mér en þessar pælingar og vinnan, börnin mín koma svo fast á eftir í forgangsröðinni og svo hundarnir. Aldrei lognmolla í mínu lífi, svo mikið er víst. Ekkert limbó í boði hér, bara fjör og læti. Sjáum til....kannski er þetta bara loftbóla, kannski er þetta raunhæft, kemur í ljós.
Af bensínævintýrinu mínu er þetta að frétta. Ég kláraði að athuga hvað bíllinn minn eyðir án þeirra fyrst. Meðaltalið hjá honum var um 10 ltr á 100 km. Á öðrum tankinum eftir að ég setti töflurnar í bílinn fór eyðslan niður í 9,3 ltr á 100km. En það sem ég tók strax eftir var að bíllinn varð mun kraft meiri, bifvélavirkinn minn tók líka eftir því og hann segir að hann komist lengra á tankinum hjá sér líka, þó að ég hafi gleymt að fá að vita nákvæmar tölur. En mér skilst að það verður ekki komin hámarkssparnaður fyrr en á 3 - 4 tank með töflunum. Kemur í ljós, þetta er spennandi. Fyrir þá sem vilja prófa er ekkert mál að panta á netinu, slóðin er: www.bensinplus.myffi.biz eða hafa bara samband við mig beint, ekkert mál.
Hafið það sem best elskurnar, ég reyni að kíkja við við hvert tækifæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
2.3.2008 | 21:24
Gleðidagur!
Já, það kom að því að við áttum gleðilegan dag! Litli sjálfstæðismaðurinn minn er búinn að vera lasinn alla vikuna og á föstudaginn hringdi bráðamóttöku læknir í mig til að láta mig vita að það hafi komið í ljós streptókokkasýking úr ræktun frá honum síðustu helgi. Hann er kominn á sýklalyf við því og vonandi nær hann að mæta í skólann, eitthvað í næstu viku.
Í dag var hundasýning HRFÍ í reiðhöll Fáks í Víðidalnum. Svali var sýndur í meistaraflokki og fékk fyrstu einkunn, fyrsta sæti, verðugur meistari og alþjóðlegt meistarastig og framhald í tegundarhóp 2. Þar fékk hann ekki sæti, en Standard Schnauzer tík fékk 3 sætið í tegundarhópnum. Glæsilegur árangur samt.
Hvolpurinn hún African Sauda var sýnd í hvolpaflokki og fékk fyrstu einkunn, fyrsta sæti, heiðursverðlaun og framhald í besta hvolp. Þar fékk hún heldur ekki sæti, en ég get svarið það að þegar ég sá hana fara stóra hringinn og sá hvernig hún hreyfir sig sá ég bara Svala fyrir mér í smækkaðri mynd. Hún er stórglæsileg skvísan!!
Ég gæti ekki verið meira stolt af mínum hundi og hvolpinum undan henni en ég er. Sýnendur þeirra beggja stóðu sig með glæsibrag, þrátt fyrir að skuggi hafi hangið yfir mínum sýnanda í dag. Málið er að á föstudaginn fauk upp hurð heima hjá henni og hennar hundar komust út. Þegar hún kom heim biðu tveir þeirra fyrir utan eftir henni, en nýji Poodle hvolpurinn hennar horfinn með öllu. Var hún búin að gera dauðaleit að honum síðan, ásamt því að hringja í lögregluna og í alla sem henni datt í hug að hafa samband við í von um að hann fyndist. Í dag, var hann enn ófundinn, litla skottið og stóð hún samt sína pligt á sýningunni, bæði í gær og í dag. Stóð við það að sýna alla hundana sem hún var búin að skuldbinda sig til að gera, og allir náðu glæsilegum árangri.
Sem betur fer kom hvolpurinn í leitirnar í kvöld, þá hafði hann verið undir góðu yfirlæti í heimahúsi í nágrenninu, búinn að fá að borða kjöt í karrý, og líka hundamat og var hinn kátasti. Ekki kaldur og hrakinn eins og verstu áhyggjur höfðu hvílt á henni og í raun öllum sem vissu. En allt er gott sem endar vel og vissulega var þetta frábær endir á góðum degi.
Nú ætla ég að fara inn í næstu viku, bjartsýn og kát.........ætla að gera góða hluti og ná að vinna eitthvað í leiðinni líka. Hafið það gott kæru vinir og farið vel með ykkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.2.2008 | 14:48
Árshátíð, skemmtun og áfall.....
Já, það var gaman á Hótel Rangá um helgina, góður matur (þó hann hafi verið af skornum skammti), góður félagsskapur og skemmtilegur trúbador að skemmta okkur um kvöldið. Ég dansaði og söng og skemmti mér konunglega með vinnufélögum mínum.
En morguninn eftir vaknaði ég við vondan draum. Eldri strákarnir mínir hringdu í mig í ofboði, litli sjálfstæðismaðurinn minn var í andnauð og gat ekki talað. Ég sagði þeim að hringja í neyðarlínuna, sem þeir gerðu, og svo var ég bara í ástandi það sem eftir var dagsins, í símanum að fá fréttir, að reyna að koma mér sem fyrst í bæinn og ég verð að viðurkenna að allir stóðu með mér í því að flýta fyrir rútunni að sækja okkur og gerðu allt sem í sínu valdi stóð til að aðstoða. Þetta er yndislegasta fyrirtæki allir sem einn, get ekki annað en hrósað þeim fyrir stuðninginn. Komst ég í bæinn allavega klukkutíma fyrr en áætlað hafði verið.
Sjúkrabíllinn og lögreglan komu og reyndu fyrst að hjálpa drengnum að ná andanum, gáfu honum adrenalín, ventólín og súrefni. Brunuðu með hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þar stumruðu yfir honum læknar og hjúkrunarfræðingar. Ég gat gefið þeim grunnupplýsingar símleiðis, og útilokað var bráðaofnæmi, o.fl. Þegar hann hafði fengið stera í æð og bólgueyðandi, var hann farinn að ná andanum betur, og tekin var sú ákvörðun að senda hann með sjúkrabílnum, með sírenur vælandi, á bráðamóttöku barna. Þar fékk hann sýklalyf í æð, og fleiri stera og meiri lyf og var hann ótrúlega fljótur að jafna sig drengurinn. Blóðprufur gáfu ekki annað til kynna en að um vírus væri að ræða. Var sjúkdómsgreiningin þá andnauð af völdum bráðabarkabólgu, af völdum vírussýkingar. Héldu þau honum á spítalanum fram eftir degi og var hann stabíll þegar ég kom loksins á spítalann til hans. Þar var ég hjá honum, ásamt elsta syni mínum þangað til að hann fékk síðasta sýklalyfjaskammtinn í æð og hann útskrifaðist með 3 daga sterakúr um kvöldið.
Ég get svarið það að strákarnir mínir eru mér allt, þeir eru hetjur að bregðast svona hratt og rétt við og ég gæti ekki afborið það ef það hefði farið á verri veg en gerði.
Núna er litli sjálfstæðismaðurinn minn, 7 ára, fúll afþví hann fékk ekki að fara í skólann í morgun og þó að sólin skíni úti þá fær hann ekki að fara út að leika sér. Um leið og það er bannað finnst honum ekkert gaman að hanga heima. Ég þarf að leggja hausinn í bleyti til að finna dundur sem hann getur skemmt sér við næstu daga.
Ég ætla að reyna að jafna mig á taugatitringnum, enda sjaldgæft að ég skreppi frá í heilan sólarhring og þetta var í fyrsta skiptið þar sem enginn fullorðinn var til að líta eftir þeim á meðan. Spurning hvort að ég leggi í það aftur nokkurn tímann, það er heila spurningin. Mér finnst þetta hafa verið alveg týpísk uppákoma og alveg eftir bókinni að gefa mér vænt samviskubit yfir að hafa farið að skemmta mér.......yfir heila nótt....
Farið vel með ykkur og passið ykkur á þessum skæðu vírusum sem eru í gangi þessa dagana, þeir eru grimmir svo mikið er víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þar sem nokkurrar forvitni gætir langaði mig að setja inn smávegis uppýsingar um tækifærið sem mér gafst í ferðinni til London um helgina. Við nánari athugun er ég bara rosalega spennt fyrir þessu og finnst að allir ættu að vita um þetta! Það er líka hægt að afla sér upplýsinga á slóðinni: www.bensinplus.myffi.biz ( á ensku) og svo má alltaf hafa samband við mig ef nánari útskýringa er þörf á íslensku. Netfangið mitt er: bjarndis@simnet.is
Endilega að skoða, þetta er snilld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.2.2008 | 14:03
London, fjör og hvolpaskott....
Góðan daginn góðir hálsar.
Þá er ég að lenda loksins eftir helgarferðina til London. Þar var sko fjör. Við íslendingarnir hirtum öll verðlaunin og viðurkenningarnar á ráðstefnunni, hinir fengu líka smá, en samt....
Þetta varð til þess að enginn gat farið neitt frá hópnum, skroppið á snyrtinguna eða á barinn, því þá var maður gripinn og spurður spjörunum úr næsta hálftímann í það minnsta. Það er alveg hægt að verða hrokafullur við svona móttökum, en við erum sem betur fer flest bara gott fólk og gáfum af okkur vel og víða. Enda okkar hópur allur bara gott fólk og elskulegt. Annað dugar ekki til.
Þetta var gaman og fórum við stelpurnar á laugardagskvöldinu inn í miðborgina, út að borða og löbbuðum um svæðið í smá tíma. Æðislegt! Ég fékk náttúrulega bara svona nostalgíu kast, þar sem ég bjó í London og vann í miðborginni þegar ég var ung. Löng saga...........
Svo kom ég heim, einu viðskiptatækifærinu ríkari líka........Hehe, nóg að gera og gaman að því. Segi kannski nánar frá því í annari færslu, þetta er allavega spennandi vara og tækifæri, ég þarf að kynna mér það aðeins betur áður en ég fer að blasta því á netið.....
Ég náði að sofa í allt um 6 klt frá nóttinni áður en ég fór út, þangað til ég kom heim mánudagsmorguninn. Ég get svarið það að ég ætlaði ekki að geta vaknað til að mæta á fund í gærmorgun! Sama sagan í morgun þegar ég átti að vakna til að koma strákunum í skólann, ég hreinlega svaf yfir mig!
Tröllatrúar Balí Blaka kom til baka til okkar á föstudagskvöldinu, (ég var komin út) og í gærkvöldi fékk hún nýtt heimili hjá yndislegri konu sem missti hundinn sinn fyrir rúmri viku síðan. Mikið skil ég hana vel að geta ekki hugsað sér lífið hundlaust. Vona ég að núna sé Balí lent á sínu framtíðarheimili og að þær eigi eftir að eiga góðar stundir saman. Hún er allavega hjá drauma eigandanum, ég gat ekki fundið neinn ókost við konuna, bara jákvæða punkta og hún smellpassaði við lýsinguna á óskaeigandanum fyrir dömuna, samkvæmt hvolpaskapgerðarmatinu. Þetta verður bara lúxuslíf á stelpunni. Vil ég óska þeim báðum til hamingju með hvora aðra.
Jæja, nú þarf ég að fara að taka upp úr töskunum, bóka mig, skipuleggja mig og kynna mér betur nýja tækifærið, ásamt því að kíkja bloggrúntinn allavega smátt og smátt eftir tíma og getu.
Vonandi hafið þið það sem best elskurnar
Peace
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 34035
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar