Færsluflokkur: Bloggar
1.8.2008 | 21:21
Fer ekki fet um vitlausramannahelgina!
Ég fer ekki fet, svo mikið er víst, þessa helgi. Fríða Feykirófa, sefur hér með kollinn sinn tylltan upp á hendinni og hristist á meðan ég pikka inn þessa færslu. Hún vill bara lúlla hjá mér. Eltir mig á röndum og vill fá að komast í fangið mitt. Sofa bara og sofa. Mér finnst hún ekki borða nóg, er að reyna að koma næringu ofan í hana, og finnst ekki nóg að hafa þyngst um 30 gr. síðan hún kom til okkar. Hún er ekki nema rétt rúmt kíló, en hún borðar samt eitthvað, drekkur líka og pissar og kúkar, oftast úti.
Ég reyndi að fara með hana til dýralæknis í gær, til að athuga með dömuna, en doksi var lasin og ekki við. Ég veit að ég er kannski einum of stressuð. Það er ekkert að, hún er ekki veik. Hún er bara svo lítil að það þarf svo lítið til með svona lítinn kropp. Ég er þó minna stressuð í dag, en í gær og er viss um að þetta fer allt að koma bara. Hún er hress Feykirófan, finnst voða gaman að eltast við Afríku og er ekki hrædd við hina hundana. Þær eru allar mjög góðar við hana og alveg til í að leika. Chiquitu finnst voða gaman að fá hana í eltingarleik og reipitog og stríðir henni með bangsanum hennar.
Við fjölskyldan förum ekki neitt þessa helgi, erum ekki vön því og Verslunarmannahelgin er oft kölluð "vitlausramannahelgin" hér á bæ. Okkur finnst ekkert spennandi að vera í útilegu á útihátíð, innan um fólk sem er ýmist ofurölvi eða á hinum ýmsu stigum áfengisneyslu. Ég er ekki til í að gefa börnum mínum þau skilaboð að slíkt sé í góðu lagi. Svo finnst mér svo öfugsnúið að verslunarfólk fær fæst frí, akkúrat þessa helgi. Ég hélt að þessir frídagar væru fyrir það, ekki alla hina. En svona er þetta. Við höfum skapað hefð fyrir því að leigja myndir þessa helgi og halda okkar árlegu vídeósukkhelgi, heima í faðmi fjölskyldunnar. Kannski skrepp ég á leiguna á eftir, ef ég nenni.
Já, ég held að ég sé bara orðin boring og leiðinleg í ellinni, svei mér þá. Að vísu dettur mínum strákum ekki í hug að biðja um að fara á útihátíð þessa helgi. Mér finnst ég hafa sloppið ótrúlega vel í gegn um tíðina með það.
Ég vona að þið hafið það sem best kæru vinir. Njótið ykkar og haldið heilsu.
Góða skemmtun....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2008 | 12:19
Eiturgræn Nornasúpa....glútenfrí, fitusnauð og algjört sælgæti!
Ég varð bara að skíra þessa súpu eitthvað svona, hún er svo svakalega græn á litinn að litlir, stoltir, grænmetisræktendur verða að fá á tilfinninguna að súpan úr grænmetinu þeirra er algjört dúndur og leyndarmál skoh....
En litli sjálfstæðismaðurinn minn kom heim úr skólagörðunum með fyrstu sendinguna úr reitnum sínum áðan. Hann var stoltur þegar hann færði mömmu sinni tvö brokkólí búnt og fjögur stór grænkálsblöð. Ég varð að skella þessu í pott í hvelli!
En í súpuna fór eftirfarandi:
1,5 l vatn (ca)
2 súputeningar, ég notaði kjúklinga en grænmetisteningar eru í fínu lagi líka
2 afhýddar kartöflur, skornar í teninga (til að þykkja súpuna)
2 brokkóli hausar (eitt stórt búnt úr búðinni er líka nóg)
2 væn grænkálsblöð, rifin niður.
Ferskt kóríander skorið smátt, stönglarnir með, smá chilipipar, sítrónupipar, hvítlaukssalt og Maldon salt. Allt eftir smekk.
Ég lét vatnið með teningunum ná suðu, setti kartöflurnar út í og leyfði þeim að malla í smástund. Svo skellti ég brokkólíinu og grænkálinu út í, leyfði því að krauma örstutt og notaði svo töfrasprota til að mixa þessu í mauk. Kóríander og kryddin ráku lestina og súpan er þvílíkt sælgæti að það hálfa væri hellingur.
Liturinn er bara svo eiturgrænn að það er hægt að segja hvað sem er um þessa súpu. Litla manninum fannst mest spennandi þegar ég sagði að þetta væri sko Nornasúpan góða, innihaldið væri leyndarmál, (fyrir utan grænmetið hans) en hann fengi ofurkrafta ef hann borðaði vel af þessari súpu. Vini hans leist að vísu ekkert á blikuna og neitaði að smakka, ég skil ekki afhverju?? Sérstaklega þegar ég sagði að tennurnar þeirra yrðu loðnar og krullaðar við neyslu þessarar súpu og að þeir fengu ofurkrafta. Nei, nei, svo smakkaði hann líka og fannst hún bara góð þrátt fyrir allt.
Jæja, best að fara að gera eitthvað, þarf að skreppa í bæinn að hundastússast eitthvað smá. Hafið það gott í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.7.2008 | 12:02
Fríða Feykirófa.....
Mun hún vera af tegundinni Griffon Belge, stríhærð, skeggjuð og sæt. Allt hefur verið til fyrirmyndar með hana, það fylgdi meira að segja trygging fyrsta árið sem ég átti ekki von á. Hún fékk með sér vænan fylgipakka, sem við erum afar þakklát fyrir. Fyrst ber að nefna teppi og bangsa með "heimalykt" í, til að hún finni fyrir öryggi á nýja staðnum. Mat, ól, og meira að segja bók um hunda.
Þegar heim var komið voru stelpurnar sem fyrir eru á heimilinu hinar prúðustu. Eðlilega voru þær forvitnar um dömuna, en héldu aftur að sér og voru ekki með mikinn yfirgang og engin læti. Þær eru enn að leyfa Fríðu að kynnast sér á rólegu nótunum, en daman sækir mikið í að kúra bara í hálsakoti, svona fyrst um sinn. Nóttin gekk vel og svaf hún á teppinu sínu á kodda.
Eðlilega er hún pínu smeyk, en er öll að koma til og skoða sig rólega um, og þessa stóru hunda, svo framarlega sem hún hefur mennskan fót til að halda sér nærri.
Við erum alsæl með dömuna og fallegri hvolp er erfitt að finna, ber hún ekki nafn með rentu? við erum á bleiku skýji núna og Fríða er að stríða Evu Maríu í skrifuðum orðum. Öll að verða brattari og kjarkaðri.
Það er svo yndislegt að fylgjast með hinum líka, leggjast niður fyrir hana, fara ofur rólega að henni, en ekki ógnandi, á undirgefinn hátt. En allar vilja vernda hana fyrir "hinum" og passa. Ótrúlegt en satt, þá hefur samt ekki slettst upp á vinskapinn þeirra á milli. Þær eru bara að sýna á sér sínar bestu hliðar, og Fríða verður kjarkaðri með hverri mínútunni.......
Þetta er svooo gaman....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2008 | 13:22
Helgin fór í hundana.........................!
Já, hér var fjör um helgina. African Sauda kom til okkar í snyrtingu. Hún kom á föstudagskvöldið og fór svo heim í gær. Ég þurfti að fá smá tíma með henni, bæði til að dást að henni og svo til að reyta hana niður, almennilega og vel.
Fyrst þegar hún kom, brást Afríka við eins og um Svala væri að ræða, Svala í "gredduham". Enda stúlkan eins og snýtt úr nös á pabba sínum, nema bara aðeins minni, og með flottara skegg og topplínu. Hún er algjörlega foreldrabetrungur, svo mikið er víst. En hreyfingarnar, skapgerðin, stælarnir og andardrátturinn eru bara alveg eins og hjá Svala, það vantar bara tippi og pung og þá er hann mættur ljóslifandi!
Á laugardaginn kom vinkona mín og sýnandinn minn hún Dóra, og eyddi með okkur 5 klukkutímum í að snyrta, reyta og snurfusa dömuna. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Schnauzer tegund sem þarf að reyta niður, til að fá fram flottan, stríðan, sýningarfeld. Ef þetta er ekki gert verður feldgerðin of mjúk og hefur áhrif á sýningarhæfi tegundarinnar. Feldhirðan er því mjög mikilvæg.
Ég get svarið það að augað hennar Dóru fyrir Schnauzer snyrtingu er frábært. Hún hefur ekki "sérhæft" sig í akkúrat þessari snyrtingu, en hefur unnið á stofu áður og er ný búin að hefja störf hjá K9 hér í Keflavík, í hundasnyrtingum. Hún hefur að vísu alveg reytt áður, líka Snásann, en lét það út úr sér að hún "treystir" sér ekki til að "sýningarsnyrta" tegundina alveg strax. Ég held að hún vanmeti sig svolítið, því hún hefur allan grunninn, og frábært auga fyrir smáatriðunum, forminu öllu og vandvirkari manneskju er erfitt að finna. Svo kann hún svo vel tökin á hundinum sjálfum líka, sem er ekki verra.
En Sauda varð svooo fín, nánast sýningarhæf, nema bara að núna þarf stríði feldurinn að vaxa fram fyrir næstu sýningu. Ég hefði alls ekki náð að gera þetta svona vel, ein og Dóra á mínar bestu þakkir skilið fyrir hjálpina.
Fyrsta myndin hér fyrir ofan er af Saudu, fyrir snyrtingu, Eva María og Chiquita eru þarna að forvitnast um hana líka. Mynd nr. 2 er af Saudu, með pabbastæla, hoppa upp á Afríku með tilburði eins og að hún ætli að riðlast á henni. Afríka hefur sjálfsagt haldið að þetta væri Svali, bara tippalaus orðinn karlinn Síðasta myndin er af þeim mæðgum í garðinum og litli sjálfstæðismaðurinn er þarna á bakvið þær.
Svo í gær, kom Dóra aftur til að yfirfara dömuna og borða með okkur, fjölskyldan hennar Saudu kom líka. Bæði til að sækja dömuna og borða með okkur grillmat. Hehe, ekki var veðrið það besta fyrir tilefnið, en við borðuðum bara inni, létum það ekki á okkur fá að öðru leyti. Þannig að hér var bara "hundagaman" í gær, áttum yndislegan dag saman öll.
Varðandi frekari hundafréttir, þá lítur út fyrir að ein tíkin enn bætist í hópinn í vikunni. Ég veit að 4 hundurinn var ekki, alls ekki á dagskrá. En einmitt þegar maður ákveður eitthvað svoleiðis, þá er voðinn vís. Aldrei, segja aldrei. Ég segi ykkur kannski frá því seinna, þegar daman er komin til okkar. Hún er eiginlega tilefni í nýja færslu bara.......
Hafið það gott í rigningunni, Berta ætlar víst að klára sig á Íslandi. Þetta er gott tilefni í pönnukökur og kakó, svei mér þá, see ya
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.7.2008 | 20:27
Hundafrostpinni og fréttablogg....
Undanfarið hefur verið gott veður. Verst að það á að vera rigning um helgina, en í tilefni þess langaði mig að setja inn þessa mynd. Hún er af stelpunum mínum í góða veðrinu að gæða sér á frostpinna fyrir hunda. Þeim finnst þetta agalega gott, ég bæti í þetta pylsubitum, nagdóti og fleira gúmmelaði. Ég keypti svona "kit" í verslunini www.hundaheimur.is en eflaust er lítið vandaverk að útbúa svona sjálf, enda ekki flóknara en að setja vatn og nammi í fötu og frysta.
Þar sem tíkurnar mínar eru svartar á litinn, þola þær hitann verr en ljóslitaðir hundar. En eflaust er heitt í sólinni fyrir hvaða loðinn hund sem er.
Núna fer vikunni að ljúka. Margt í gangi og þó lægð í vinnunni hjá mér, þar sem margir eru á faraldsfæti, á ferðalögum og í útlöndum. Ég hef fylgst með fréttum, aldrei þessu vant, meira núna en yfirleitt og það stakk mig í kvöld að frændi og samlandi Paul Ramses skyldi láta hafa það eftir sér á opinberum vettvangi að líf Pauls væri ekki í hættu í heimalandinu þeirra. Þó að það séu nær 16 ár síðan ég var í Kenýa síðast, þá skil ég ómögulega hvernig hann getur látið þetta út úr sér. Ég nefnilega þekki aðeins til menningarinnar og spillingarinnar þar í landi, og tel að hræðsla Pauls sé alveg á rökum reist. Stjórnarandstæðingar gleymast seint og illa, og ég tel að hans líf sé alls ekki síður í hættu núna, þrátt fyrir rólega tíð í bili í landinu. Þá er einmitt látið til skarar skríða, farið leynt með það í skjóli friðar, en hefnt sín samt á versta máta. Mér finnst verst að maðurinn skyldi gera þetta á opinberum vettvangi og rýra trúverðugleika Pauls, en samt að láta í það skína að hann voni að maðurinn fái landvistarleyfi samt. Ég sé ekki alveg samstöðuna í þeim gjörðum.
Ég er ekki vön að blogga um fréttir, en samt þetta stakk mig nóg til að ég léti aðeins í mig heyra, þó að fæstir séu að hlusta á akkúrat mig.
Eigið yndislega helgi kæru vinir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2008 | 02:55
Tröllatrúar African Sauda Svaladóttir.....
Átti afmæli í dag/gær, eða þann 8/7'08. Innilegar hamingjuóskir með daginn elsku besta hvolpaskott!! Hér koma svo nokkrar valdar myndir af dömunni og ömmustoltinu:
Vil ég óska henni og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með árið og hlakka til og vonast til að hitta ykkur öll sem fyrst. Hafið það sem best kæru vinir. Peace out.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2008 | 11:48
Fyrsta æfing Svala.............
Mig langar bara að setja inn smá videó sem ég fékk sent af fyrstu æfingunni hans Svala, úti í Englandi. Flottur og kátur karlinn, þó ég hefði viljað sjá meira.
Hafið það gott í "hitabylgjunni" um helgina. Knús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.6.2008 | 12:22
Áfram með sumarið....
Þá er Svali minn farinn, fór reyndar fyrir viku síðan. Ég finn fyrir svaka tómleika eftir að hann fór. Hinar þrjár sem eftir eru, eru bara svona rólegar og yfirvegaðar að það er ekkert fyrir þeim að hafa. En ég er að forðast að fylla upp í tómarúmið með öðrum hundi. Það er eiginlega ekki á dagskrá. Ég er líka voða fegin að allt hefur gengið eins og í sögu með kappann úti. Hann átti t.d. að fara í 3 daga einangrun, en var sleppt út á 1 1/2 degi, allt í orden. Hann nýtur sín á kennelinu og er eins og að hann sé kominn heim. Nýju eigendur hans hringdu í mig í gær, og eru mjög ánægð með hann. Allt sem ég hef sagt um hann stóðst líka, að sjálfsögðu. Ég er fegnust því að honum líður vel og vel er séð um hann.
African Sauda Svaladóttir var sýnd um helgina og varð Besti hundur tegundar. Æðislegt bara. Þó að hún sé tæplega ársgamalt hvolpaskott þá er hún glæsileg og hefur greinileg erft hreyfingarnar frá pabba sínum, ásamt mörgu öðru. Það er virkilega gaman að fá að fylgjast með henni ganga svona vel. Eigandinn hennar baunaði líka á mig að hann væri fastur í þessu, þar sem hann lofaði mér bara einni sýningu, en verður að halda áfram á meðan svona vel gengur, hehehe. Ég kannast vel við þetta sjálf þar sem ég lenti í því sama með Afríku mína. Eva María mín var líka sýnd og neyddist ég til að sýna hana sjálf. Hún fékk góða dóma, en 4 sæti. Ekkert spes gengi, en gengur vonandi bara betur næst.
Litli sjálfstæðismaðurinn minn er að standa sig vel í skólagörðunum og í dag byrjar hann á smíðavelli. Hann ætlar að byggja sér kofa í garðinn. Bara gaman að því og nauðsynlegt að hann hafi eitthvað fyrir stafni yfir sumartímann. Mér finnst líka gott að geta verið mikið heima og til taks fyrir hann. Ég er mjög stolt af honum og því hversu gott og hlýðið barn hann er. Vinnusamur og samviskusamur og yndislega ljúfur drengur. Það er munaður að eiga svona börn, verð að segja það. Get ekki annað en verið þakklát bara og ég nýt þess að sjá hann blómstra.
Nú þarf ég að fara að hugsa mér til hreyfings, fara jafnvel í vinnuferð til að koma mér í gang. Ég er að spá í að fara til Vestmannaeyja bara, í eins og eina viku. Ekki á Þjóðhátíð eða um Verslunarmannahelgina, heldur fyrir eða eftir hana. Ef þið þekkið einhvern sem býr í Eyjum og væri til í að halda matarboð, endilega hóið í mig. Ég útskýri betur hvernig þetta gengur fyrir sig í síma eða á e-maili. Netfangið mitt er: bjarndis@eldamennska.is
Jæja, nestisgerð og smíðavöllur bíða ekki eftir mér. Hafið það gott kæru vinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2008 | 10:32
Í sól og sumaryl.......
Sólrík sumarsæla og um að gera að njóta þess. Ég er búin að vera að njóta mín á pallinum heima, sannkölluð Mallorka sól, og skil ekki þörfina fyrir ennþá meiri hita erlendis. Nei, ég nenni ekki til útlanda þegar ég get haft það betra heima hjá mér.
Ég ætla ekki að afsaka mig fyrir bloggleysið undanfarið, hef bara haft öðrum hnöppum að hneppa og stundum þarf maður bara að einbeita sér að því að gera það sem gera þarf, vel, en ekki að komast yfir allt mögulegt og ómögulegt líka. Nenni ekki neinu stressi. Það er komið sumar.
Nú fer tímabili í lífi mínu að ljúka. Svali karlinn er að fara til útlanda á mánudaginn og kemur ekki aftur til Íslands. Hann er að fara á tvær sýningar til að byrja með á Englandi, verður sennilega sýndur meira eftir það líka. En svo á hann bara að hafa það gott karlinn og þjónusta tíkur sér til fjölgunar og yndisauka. Ég mun sakna hans grimmt, mun sakna kelibófans míns og blauta skeggsins. En ég þarf reglulega að minna mig á álagið, líðanina hans þegar tíkur lóða, ástandsins á heimilinu á slíkum tímum og þá veit ég að ég er að gera rétt. Enda synd ef hann dalar uppi á Íslandi með 3 sýningar á ári og enga von um að komast lengra. Hann er nefnilega, Úkraínskur, Moldóvískur, Búlgarskur, Rússneskur, Íslenskur og alþjóðlegur meistari. Pabbi hans er heimsmeistari, Svali næði þeim titli ekki hér á landi.
Eftir verða 3 tíkur á heimilinu, og er það í raun alveg nóg. Afríka mín, Risa Schnauzerinn minn er þar fyrirferðaminnst í hátterni, þó ekki stærð. Ljúf og yndisleg dama og svo koma litlu dvergarnir mínir Eva María og Chiquita. Þær geta verið háværar þegar gesti ber að garði, en að öðru leyti yndislegar. Eva María verður sýnd á hundasýningu HRFÍ næstu helgi og vonandi mun hún standa sig vel. Hinar eru sestar í helgan stein hvað sýningar varðar.
Í dag er ég með hugann við hund að nafni Díablo, hann er Rottweiler, ljúfur og yndislegur, en hann varð fyrir því óláni að drekka frostlög. Hann er á milli vonar og ótta, vegna þess hvað frostlögur er baneitraður. Ég vona svo innilega að hann nái sér úr þessu, en tíminn einn mun leiða það í ljós. Eigandi hans er búin að standa sig eins og hetja að vaka yfir honum og hjúkra og maður getur ekki annað en vonað heitt og innilega að það fari á góðan veg. Dýralæknirinn er líka búinn að gera allt sem hægt er og vonandi, vonandi tekst þeim að hjúkra og lækna hann til góðrar heilsu.
Litli sjálfstæðismaðurinn minn er líka að njóta sín í sumar, hann er í skólagörðunum og ætlar að rækta fullt af grænmeti handa mömmu sinni. Svo er hann að æfa sund og ætlar líka á smíðavellina. Nóg að gera.
Garðurinn er nýgirtur, loksins orðinn hundheldur og pallurinn líka. Við njótum okkar hér heima við, stresslaust og í blíðunni.
Vonandi hafið þið það gott líka, knús á línuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2008 | 13:01
Þrífa, pússa, bóna......vorhreingerning og andleg tiltekt...
Hér veitir sko ekki af vorhreingerningu og yfirhalningu í stórum stíl. Ég er kannski hálfnuð og veit ég fyrir víst að vikan dugar ekki til, þannig séð. Núna er búið að þurrka af öllu í stofunni, breyta aðeins í leiðinni, skúra upp úr ensími til að sótthreinsa gólfin, taka baðið í gegn, og fötum yngsta herrans á heimilinu í hans fatahirslum. Hér var allt flæðandi í drasli og ég hef ekki komist yfir það að halda í horfinu einu sinni, það sem af er á þessu ári. Eldhúsið er hálfnað, og skrifstofuhornið mitt er eftir, ásamt öllum svefnherbergjum og fataskápum heimilisins......
Núna er búið að fjarlægja gömlu ónýtu girðinguna í garðinum, og slá upp byrjuninni á nýrri betri, vindheldri og hundaheldri girðingu. Planið er að girða og hundhelda garðinn og pallinn núna í byrjun sumars, svo að hægt sé að njóta sumarsins almennilega í garðinum.
Já, hér á að taka í gegn og það rækilega! Ég verð bara að gera það í skömmtum, kemst ekki yfir þetta ein á nokkrum dögum, svo mikið er víst. Tek það fram að ég er ekki manneskjan sem stend í girðingaruppsetningunni...ég ætti það nú alveg eftir.
Litli sjálfstæðismaðurinn minn er heima í dag vegna veikinda. Honum finnst það ekkert gaman, leiðist og vill bara fá að vera úti. Ég skil hann svo vel, en svona er þetta bara þegar menn eru lasnir.
Í dag veit ég ekki í raun hvernig mér líður. Ef eitthvað er, þá er ég pínu pirruð og hef grun um að "Rósa frænka" sé á leið í heimsókn. Mig langar að vera glöð og í frábæru skapi, en næ því samt einhvernveginn ekki. Sumir dagar eru bara svona og ég ætla bara að hlakka til þegar ég verð aftur glöð og kát. Held mér veiti ekki af smá "time out" til að hreinlega hvílast og jafna mig. Ætli ég láti ekki bara vaða og finn kætina í leiðinni, er sennilega hálfnuð bara við að pústa aðeins út um þetta.
Já, núna er þetta allt að koma held ég bara. Hehe, ein svolítið klikk í dag
Hafið það sem best, bæ í bili...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar