Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2007 | 12:25
Takk fyrir ráðin...
Takk fyrir öll ráðin elskurnar, ég er búin að reyna að fara eftir þessu öllu eins best ég get, en ætla ekki að fara í bæinn að versla allt þetta inn að svo stöddu.
Já, frúin er búin að standa í ströngu við að leita að öllu eða hverju sem er, í skápunum sínum til að prófa öll þessi góðu ráð frá ykkur, því nú dugar ekkert annað en bati og það strax! Ég er búin að taka lýsisperlur og C vítamín, á ekki sólhatt og hvar á Íslandi finn ég ólívulauf Guðrún? Búin að leita dyrum og dyngjum að Lemon Zinger tei, en fann bara Wild Berry Zinger, á ekki hunang þannig að nú sit ég með venjulegt svart te, með hrásykri og mjólk, og svo Wildberry Zinger með agave sírópi út í. Engiferrótin mín er orðin uppþornuð og skorpin, þannig að hún lenti í ruslinu, en er búin að fá mér hrökkbrauð með mexícó osti, fyrir piparinn. Á ekki sítrónu að svo stöddu en grunar að C vítamínið hafi tekið þann þátt að sér.....
Þetta kemur bráðum....en takk takk fyrir mig. Ég er að springa núna.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2007 | 02:21
Gefin loforð...
Þar sem ég lofaði Ragnheiði að setja inn mynd af kistunni hennar tengdó, stend ég hér með við það. Hin myndin er af syni mínum sem tókst að brjóta rúmið sitt fyrir viku!
Já, það er með sanni aldrei lognmolla á þessu heimili. Hann er ekki fyrsti sonurinn sem brýtur húsgögn, grallaragormurinn. En rúmið sem um ræðir er drasl, þó það hafi verið keypt nýtt í rúmfatalagernum á sínum tíma. Það er hægt að laga það, en mér brást þolinmæðin og gerði mér lítið fyrir og pantaði húsgagnasett í herbergið hans í dag.
Já, nú á sko að flikka upp á herbergið hans og hann fær allt í stíl. Rúm með höfuð og fótagafli, á höfuðgaflinum er hilla fyrir dót (vonandi hættir hann að sofa með dótið í rúminu hjá sér) og skúffur undir fyrir hvaðeina, náttborð, hillueining, skrifborð og stóll. Allt notað að vísu, og keypt á sínum tíma í Ameríkunni. Mér sýnist á myndum að þetta sé massívt og eigi ekki að skemmast svo glatt. Vonandi stenst það. En þetta er fallegt og hæfir vel strák á hans aldri.
Þegar samningum var náð í dag í gegn um tölvuna, sýndi ég honum myndirnar af þessu öllu og sendi hann í herbergið sitt að laga til, fara í gegn um allt og henda draslinu. Mikið svakalega var strákurinn duglegur, gerði þetta á mettíma, og það vel aldrei þessu vant LOL, núna hlakkar mínum ekkert smá til að fá þetta, vonandi annað kvöld.
Ekki það að húsgagnakaup hafi verið á dagskrá, ég hef í raun alls ekki efni á því. En þetta er fjárfesting, og loksins fær hann herbergi sem hæfir honum, er í stíl og vonandi fær hann til að bera virðingu fyrir dótinu sínu.
Svo bjó ég til umbunarkerfi fyrir hann með heimanámið sitt í dag. Límmiði fyrir hvern dag sem hann klárar að læra. Gerði ég þetta meira til að tryggja að hann læri viljugur, þá sérstaklega ef ég er ekki heima til að minna á, því stundum gleymist þetta. Vonandi virkar það lengur en í einn mánuð...
Líðanin mín er ekki nógu góð. Ég er nánast búin með tvær eldhúsrúllur í dag, hósta, hnerra og snýti mér á 5 mínútna fresti og er örugglega með rautt nef og hitavellu líka. Ég vonast eftir kraftaverki í nótt, svo að ég geti hjálpað til með kynningarbás á morgun fyrir vinnuna. Það er alltaf ömurlegt að geta ekki staðið við gefin loforð....ég er ekki vön því. Að vísu er ég heldur ekki vön því að fá pest ofan í pest undanfarin ár, en ég fæ greinilega ekki að ráða í þetta skiptið..
Nú hlýtur mér að fara að batna, nota bara secretið á þetta og kem fyrir í hugarkolli mínum myndum af mér fullfrískri í góðu skapi og glöð með allt.......þetta hlýtur að koma núna...Góða nótt, eða dag eða góðar stundir....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.9.2007 | 00:23
Að hrynja....
Já, það lítur út fyrir að annaðhvort sé ég að fá aðra flensu, eða að slá niður síðan í síðustu viku
Má ekki við þessu og í raun langar mig ekkert til að skrifa um eitthvað neikvætt, lífið er svo skemmtilegt svona yfirleitt......
Núna ætla ég að fá mér eitthvað heitt að drekka og fara að hvíla mig undir sæng, í bleiku náttfötunum mínum og vona að þetta sé bara kvef sem batnar á morgun....
Þá kannski finn ég eitthvað skemmtilegt til að blogga um, þetta gengur ekki svona áfram, ég nenni ekki að velta mér upp úr veikindum og leiðindum.
Góða nótt elskurnar og farið vel með ykkur...Knús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.9.2007 | 23:20
Hráslagaleg mánaðarmót...
Já, ég bara varð að setja inn eina mynd í sólinni, að sýna kátan afturenda í veðrið í dag. Það er ekki laust við að þetta veður hafi áhrif á skapið, svei mér þá. Garðhúsgögnin fokin um koll og ekki gönguveður með hundana.
Nú er ég að setja mig í stellingar að fara að gera eitthvað uppbyggilegt, vinna og redda málunum. Mikið má ef duga skal. Ég er búin að ákveða það að heilsan ætlar ekki að hamla mér og að þetta verði bara reglulega gaman. Alltaf gaman þegar nóg er að gera.
Ég nenni ekki að útlista útréttingum dagsins, enda ómerkilegt svosem allt saman. Nema kannski eitt sem ég er fegin að hafa klárað og það er í sambandi við hvolpinn. Er ég núna búin að uppfylla öll loforðin með hana, sækja um ættbókina og greiða fyrir, tryggja hana og var heilsufarspakkinn tekinn í síðustu viku. Afgreitt mál, vona ég.
Svali minn fór í skapgerðarmat um helgina, sem hann kláraði og var hinn prúðasti gaur. Var hann rólegur og yfirvegaður og hræddist lítið, hlýðinn og góður karl. Ekki við öðru að búast af honum og núna get ég fengið alla meistaratitlana hans metna. Ég er bara fegin, því þetta eru kröfur sem þarf að uppfylla til að komast lengra.
Annars er ekkert merkilegt að frétta héðan. Vonandi hafið þið það gott öllsömul - over and out
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.9.2007 | 14:17
Heimkoma og minning....
Jæja, þá erum við komin heim aftur. Ferðin gekk ótrúlega vel, strákarnir höguðu sér mjög vel saman, sem kom á óvart þar sem ferðin í bílnum er um 6-7 tímar, hvor leið með stoppum. Við bjuggumst við rifrildum og jafnvel slagsmálum í bílnum á leiðinni eins og var yfirleitt hér áður, en nei, það var bara gaman, mikið hlegið og djókað og vináttan fékk að ráða ríkjum í þetta skiptið.
Fyrsta kvöldið var líka gott, öll fjölskyldan samankomin, mikið spjallað saman og góður samhugur í minni litlu kjarnafjölskyldu. Ég var bara stolt mamma.
Útförin var virkilega falleg, og fór fram í kyrrþey. Mikið var hugsað til tengdó og allar hennar óskir virtar. Var ég búin að skrifa um hana nokkurskonar minningarorð, og fékk mikið hrós fyrir. Var þetta gert undir svolítilli pressu, fyrir prestinn og hans ræðu. Ætlaði hann að taka alla svona pistla með í reikninginn til að miða við í minningarræðu sinni um hana. Samt fór megnið af ræðunni í að tala um kenninguna "Líf eftir dauðann" vitnað í bækur og einhverjir heimspekingar nefndir á nafn. Ég get svarið það að það var farið að fjúka í mig í kirkjunni þar sem það ætlaði aldrei að koma að því að tala um gömlu konuna! En þetta var næstum eini skugginn yfir þessari athöfn og loksins talaði presturinn um hana alveg í restina. Samt var hún minnsta umræðuefnið í minningarorðunum og varð ég fyrir vonbrigðum með það.
Annar skuggi sem féll á þetta, er að prestinum láðist að tilkynna í kirkjunni að það yrði boðið upp á kaffi að jarðarförinni lokinni. Varð það til þess að nánustu vinir og sumir ættingjar vissu ekki og mættu ekki í kaffið, sem þó var bara það kaffi, gos og smávegis konfekt. Sú gamla vildi ekki eiginlega erfðadrykkju.
Síðasti skugginn var einfaldlega veðrið. Rok og rigning, sem var kannski alveg við hæfi við sorgina sem ríkti, en ekki við hæfi persónu og hressileika gömlu konunnar. En við fáum ekki að stjórna veðrinu frekar en fyrri daginn.
Hér koma minningarorðin sem ég skrifaði um hana, ég á eftir að laga aðeins og bæta og senda svo inn sem minningargrein:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.8.2007 | 12:53
Þið fáið frí......
Jæja elskurnar þá fáið þið frí frá mér og mínum hundafréttum í nokkra daga. Ég er farin í ferðalag og kem aftur um helgina.
Takk fyrir innlitið og farið vel með ykkur á meðan.
Sjáumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.8.2007 | 11:03
Selfosslögreglan með eigin verklagsreglur.....!?!
Lögreglan á Selfossi lét aflífa hundinn Neo laugardaginn 18. ágúst síðastliðinn en Neo slapp frá eigendum sínum föstudaginn 17. ágúst. Í DV í dag er viðtal við Steinberg Arnarson, eiganda hundsins sem segir Neo aldrei hafa gert neinum neitt og að hann hafi verið góður hundur.
Mikil sorg er á heimilinu og þá sérstaklega hjá börnum hans enda missirinn mikill. Hann er forviða á ákvörðun lögreglunnar að láta lóga hundinum en hundurinn klóraði konu sem hafði reynt að ná honum skv. lögreglunni á Selfossi.
Steinberg Arnarson hafði samband við lögregluna á Selfossi um leið og ljóst var að hundurinn væri týndur. Þeir sögðust ekki hafa fengið neinar ábendingar um lausan hund og skildi þá Steinberg eftir nafn og númer sitt svo lögreglan gæti haft samband ef þeir myndu finna hundinn.
Steinberg hélt leitinni áfram um nóttina en hún bar engan árangur. Daginn eftir hefur hann aftur samband við lögregluna á Selfossi og spyr um hundinn....lögreglan spurði hvernig hundurinn liti út og eigandinn lýsti honum ítarlega. Þá var honum sagt að lögreglan hafi farið með hundinn um morguninn og látið lóga honum.
Ástæðan? Hundurinn hafði elt einhverja tík inn í garð...eigandi tíkarinn reyndi að koma ól á hundinn en hundurinn þráast við sem endaði með smá klóri á hendi konunnar...
Niðurstaðan? Hundinum var lógað án þess að reynt væri að hafa upp á eigandanum...sem í þessu tilviki er ekki erfitt þar sem hann kom á lögreglustöðina daginn áður og lýsti eftir honum.
Ég legg til að allir hundaeigendur og allir dýravinir sendi lögreglunni á Selfossi póst þar sem þessi ákvörðun þeirra er fordæmd. Veffangið hjá yfirlögregluþjóninum á Selfossi, sem ber ábyrgð á þessu, er thorgoli@tmd.is en sá heitir Þorgrímur Óli Sigurðsson.
Öss og svei, ég held að Selfosslögreglan ætti að fá alvarlega yfirhalningu á verklagsreglum sínum hið snarasta! Varla telst í lagi að vinna eftir sínum eigin geðþótta samanborið þvagleggsmálið nýlega! Í Reykjavík er a.m.k. vika gefin áður en hundum í vörslu hundafangara og vistaðir á Leirum, aflífaðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.8.2007 | 07:31
Bara hálf sagan sögð...
Þó að ég sé á móti lausagöngu hunda, og tel að ábyrgir hundaeigendur eigi aldrei að gera slíkt viljandi, þá er þessi nálgun á þessari frétt röng. Stóri hundurinn sem um ræðir í þessu tilviki var í göngu með eiganda sínum, þó taumlaus væri, og er allt annar hlutur en "lausaganga" hunda í mínum huga. Eigandinn var með í för og kom konunni til aðstoðar, bauðst til að greiða með dýralæknakostnaðinn fyrir hundinn, og hefur sennilega ekki áttað sig á því að konan væri mikið slösuð þar sem hún bar sig vel og afþakkaði sjúkrabíl. Þó ég þekki ekki til, þá er ég viss um að hundeigandinn í þessu tilfelli sé miður sín og muni sennilega ekki endurtaka þann leik að fara með hundinn í göngutúr taumlausan í þéttbýli.
En að gefa það í skyn að um væri að ræða hund í "lausagöngu" finnst mér rangt, því að fréttin fjallar um lausagöngu hunda, sem vaða um allt eftirlits og ábyrgðarlaust og geta valdið mönnum, dýrum og eignum tjóni. Þá er eigandinn hvergi sjáanlegur til að bera ábyrgð og koma stjórn á eigið dýr!
Æ, ég veit að hvorutveggja heitir lausaganga, en samt það er munur í innhaldi þessarar fréttar og finnst mér vegið að hundeigandanum í þessu tilfelli, rangt að hengja bakara fyrir smið....
![]() |
Mest kvartað undan hundum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.8.2007 | 15:10
One of those days....
Hvar finnið þið myndir stelpur, til að setja inn á bloggið? Mér finnst alltaf skemmtilegra að hafa eitthvað sjónrænt með í færslunum, en nenni tæplega að pósta mynd af mér, innpakkaða í teppi og lít út eins og ég hafi verið á kojufylleríi í tvo mánuði! Hefði langað til að finna viðeigandi skopmynd svona til að lýsa hvernig mér líður. En hvað um það, þessi eftir hæfileikaríka gelgjugrísinn minn verður að duga:
Var þetta mynd sem hann hannaði á kort fyrir Trygg, hagsmunasamtök hundaeigenda á sínum tíma. Var hugsað að þetta væri góð áminning fyrir fólk, og gott að eiga til nokkur svona kort, til að skella inn um póstlúguna hjá fólki sem þekkt væri fyrir að senda hunda sína út í lausagöngu og opna svo fyrir þeim þegar þeir birtust aftur, án þess að hirða upp skítinn eða um það sem þeir væru að bardúsa einir og sér. Líka til að geta rétt slugsum ásamt kúkapoka, þegar sæist til þeirra labba burt frá sönnunargögnunum. Ég þoli ekki óábyrga hundaeigendur, og kúkurinn frá hundum er bæði sóðaskapur og heilsuspillandi fyrir einmitt ástsælu gæludýrin okkar. En þetta er annar kapítuli en það sem ég ætlaði að blogga um.....(upplýsingar um smitsjúkdóma og smithættu voru svo á hinni hliðinni, til að fræða þessa slugsa aðeins um skaðann sem kúkurinn veldur)
Þetta er bara einn af þessum dögum, ég lasin, og þá þarf allt að ske til að gera mér lífið auðveldara, eða þannig hehehe.......
Vaknaði í morgun og leið eins og járnbrautalest hafi rutt sér göng niður hálsinn á mér (að innanverðu), bara til að vera með smá drama í lýsingunni... heimilishjálpin á leiðinni og allt á hvolfi og vaskurinn að yfirfyllast síðan í gærkvöldi, eftir gourmet kokk kvöldsins. Ég staulast á lappir, og átta mig á því að ég hafi svitnað fyrir heila fótboltadeild í nótt og að sængin mín yrði að vera þvegin í hvelli. Fer að taka til og byrja á því að þrífa skítinn eftir hundana úti, og á leiðinni að tunnunni, beint fyrir framan útidyrnar mínar, er rusl! Heimilissorp út um allt, á víð og dreif, og ekki um að villast að þetta var sorpið frá mínu eigin heimili!! Oj! Þá hafði strákurinn minn sett ruslið út fyrir í gær, án þess að nenna alla leið að tunnunni, og bara gleymt því svo. Síðan hefur einhver lausagöngu hundur hverfissins (og hér er allt of algengt að fólk sendi hundana út einum og sjálfum) og fundið einhverja spennandi lykt, og voila, ég fékk glaðninginn.
Ekki nóg með það, heldur að um leið og ég kem inn aftur eftir þrifin á þessu, fer Sauda að upphækkuðu matardöllunum og fær sér vatn að drekka, nema það að um leið og ég sá það og ætlaði að hlaupa til í bjargvættis tilraun, þá hvolfdi hún úr báðum döllunum, vatn og matur út um allt, flóð bara. Þá hafði strákurinn samviskusamlega gefið hundunum nýtt vatn, en gleymt því að við setjum vatnið á gólfið, en ekki í statífið, þar sem Sauda hvolfir því, og Afríka sullar í því. Arrgh!
Ég fór á fullt að þrífa þetta upp, vaska upp svo að heimilishjálpin geti komist að vatni til að skúra með og púla, allan tímann eins og slytti og pælandi í því að það væri bara of mikið púl að vera með svona hjálp ef því væri að skipta.
En svo eftir góðan tebolla, hjálpin komin og farin og allt orðið hreint og fínt, hundarnir búnir að koma og kúra og ég búin að hvílast smá undir teppi, þar sem sængin er núna í þurrkaranum, þá er allt orðið gott og þess virði til að hafa þetta svona bara.
Úff, meira bullið í manni, tuð og púst og ekki heil brú í þessu bara....sængin er tilbúin, ég er farin að svitna undir henni aftur í stólnum mínum....Bið að heilsa ykkur í bili, ég finn ég er að batna....smá....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.8.2007 | 23:10
Nei, ég slepp ekki í þetta skiptið....
Nú sit ég hér sveitt og skjálfandi, því mér er heitt og kalt samtímis. Finn ekki hitamælinn minn og vil ekki nota hundarassamælinn á sjálfa mig. Ég slepp semsagt ekki í þetta sinnið, það versnar áður en það batnar. Ég hugga mig við það að þetta mun batna samt á endanum.
Ég er örugglega komin með flensu. Vonandi verð ég hitalaus á fimmtudaginn, því þá förum við norður. Röddin kemur og fer og það er fyndið að heyra sjálfa sig reyna að biðja fallega um kók takk, þegar röddin er á við sög sem skrækir í en sargar samt, ef þið fattið hvað ég meina. Allavega er auðvelt að urra núna.
Miðju strákurinn minn framkvæmdi hetjudáð í kvöld og reiddi fram dýrindis kvöldverð einn og sjálfur, á meðan mamma var með fjarstýringuna á honum úr lazyboy stólnum í stofunni, kyrfilega vafin inn í dúnsæng. Þar lá mamma og var með leiðbeiningarnar í beinni. Maturinn var ætur og allir fengu að borða. Strákurinn var voða stoltur og mátti vera það. (að vísu er eldhúsið eins og eftir sprengjuárás, en hey, who cares)
Ég treysti mér ekki alveg í bloggrúntinn núna, en verð vonandi á batavegi á morgun. Takk fyrir kveðjurnar essskurnar.......etta kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar