Færsluflokkur: Bloggar

Hálsbólga og hósti...

hund02Æ, ég á pínu bágt í dag bara. Er með hálsbólgu sem enn á eftir að ná hápunktinum, höfuðverk líka og hósta. Grátkirtlarnir mínir virðast stíflaðir eftir minningarorð um tengdó heitna, sem ég var að pikka inn í nótt. Ég gat ekki varist því að tárast þegar ég var að skrifa um hana.

Haldinn var fjölskyldufundur í gærkvöldi, um gömlu konuna og hennar óskir og ráðstafanir fyrir útförina. Verður þetta allt gert í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Ferðalag norður á dagskrá í þessari viku og hundapössun aðalvandamálið með það. En því er reddað og Saudu litlu líka.

Ég vona bara að ég sé ekki að fá flensuna, eins og mér líður núna. Æ, ég má eiginlega ekki við því í dag.

Jæja, ég ætla að hvíla mig núna, og reyna að ná þessu úr mér. Annars verð ég bara að hafa samband við Böddu til að fá uppskriftina að ógeðisdrykknum hennar.

Ég verð hress og komin á ról seinna. Sjáumst 


Að hjálpa tík í goti....

100_0365Hugsa þarf vel um tíkina á þessum tíma. Umhverfið og aðstæðurnar sem að nýfæddur hvolpur er að fara að alast upp í ætti að vera búið að gera klárt. Hvolpakassinn ætti að vera með veggi sem móðirin getur komist yfir en ekki hvolpar yngri en 4 vikna. Kassinn ætti að vera gerður úr efni sem auðvelt er að þrífa. Hliðar sem hallast út á við eru ekki ráðlagðar svo að hvolaparnir meiða sig ekki þegar þeir reyna að klifra yfir. Hvolpakassann getur þú búið til sjálf(ur) eða keypt. Langur dagur og nótt er framundan hjá tíkinni og þér, þannig að vertu vel undirbúin(n). Hafðu símanúmer dýralæknisins við höndina til öryggis.

Fæðing hvolpa er mismunandi milli tegunda, en grundvallaratriðin eru þau sömu hjá öllum. Um það bil 6-12 klukkustundum fyrir fæðingu, gæti tíkin byrja að skjálfa, ganga um golf, og mása. Hún gæti skokkað um taugaspennt eða klórað í gólfið, hún getur einnig haft falskar hríðir, og leitað af bæli. Ef að tíkin byrjar að búa sér til bæli og koma sér fyrir annarstaðar, og vill ekki vera í hvolpakassanum, leyfðu henni það. Komdu þá fyrir handklæðum og dagblöðum þar sem hún er og jafnvel færðu hvolpakassann nær tíkinni. Þegar hvolparnir eru komnir í heiminn getur þú fært þá í hvolpakassann, sem hvetur þá mömmuna til að færa sig líka.

Neyðartilfelli
Flestar hvolpafæðingar ganga vel fyrir sig. Erfiðleikar við fæðingu eru algengastar hjá smáhundum og tegundum með stutt trýni og breiðan haus (t.d. Bulldog). Tíkur af þessum tegundum gætu þurft að gangast undir keisaraskurð ef að hvolparnir komast ekki í gegn á eðlilegan hátt.

Fylgst þú með þessum hættumerkjum og brestu við þegar í stað.

· Dökkgrænn eða dökkbrúnn litur á útferð.
· Slæm lykt af úrferðinni
· Miklar blæðingar frá fæðingarvegi.
· Hvolpur er ekki fæddur 2 1/2 klukkustundum eftir að hríðir hefjast.
· Ef tíkin hefur verið að rembast án þess að nokkuð skeður í meira en 1 klukkutíma.
· Tíkin er veikburða, óróleg, eirðarlaus og taugaveikluð, og sýnir merki þess að hún sé kvalin.
· Tíkin byrjar að skjálfa, hristast og æla dögum eða vikum eftir fæðingu.
· Engin merki um væntanlegt got þegar að meðgangan er orðin lengri en 65 dagar.
· Öll frávik frá eðlilegri fæðingu hvolpa, ætti að vera tilkynnt til dýralæknis.

Ef að tíkin sýnir einhverja þessara merja, eða þegar þér finnst eitthvað ekki vera eðlileg, hafðu þá samband við dýralækni tafarlaust.

Fæðingarhríðir
Hríðirnar skiptast í þrjú mismunandi stig.

Stig 1 byrjar með fyrstu samdráttum legsins og endar þegar legið er algjörlega opið og tilbúið fyrir hvolpana til að komast út í gegnum fæðingarveginn. Eigendurnir geta yfirleitt ekki séð samdrættina, en tíkin gæti stunið, verið óróleg, kastað upp, og misst matarlyst. Stig 1 getur staðið yfir í 6-24 tíma. Best er að halda umhverfinu rólegu fyrir tíkina svo að það sé ekkert sem æsir hana.

Stig 2 og 3 sveiflast sín á milli. Stig 2 endar með fæðingu hvolps, þar sem að stig 3 aftur á móti, endar með útkomu fylgju hvolpsins. Það gæti liðið fimmtán mínútur til fjögurra klukkutíma, á milli fæðingu eins hvolps og fylgju hans, þar til að sá næsti kemur í heiminn. Þú ættir ekki að vera áhyggjufull(ur) nema að hvolpur komi ekki í heiminn, eftir lengri tíma en 4 klukkutíma, eða ef tíkin hefur rembst mikið til að fæða hvolp í lengur en 30 mínútur, án árangurs. Hafðu tafarlaust samband við dýralækninn eða slíkt skeður.

Þeir eru að koma í heiminn!
Nýbakaða móðirin ætti að þrífa hvern einasta hvolp leið og hann fæðist. Þá fjarlægir hún fósturhimnuna, þurrkar vætuna af hverjum hvolpi, og örvar hann til þess að anda. Þetta örvar einnig eðlishvöt móðurina til að hlynna að hvolpunum. Móðirin étur yfirleitt fylgju hvolpana, það er eðlilegt. U.þ.b. 40% hvolpa sem fæðast, snúa öfugt, þá koma afturfæturnir fyrst. Það er ekki vandamál nema að móðirin rembist gegndarlaust með litlum breytingu á stöðu hvolpsins.

Ef að hvolpur situr fastur í fæðingarvegi náðu þá taki á honum með hreinu handklæði. Togaðu hvolpinn jafnt og þétt niður á við. Togaðu þangað til hvolpurinn er kominn út.

Nýfæddu hvolparnir
Gert er ráð fyrir að móðirin hafi hreinsað himnuna af hvolpunum og bitið naflastrenginn í sundur. Hvolpurinn ætti að vera hreinn og þurr innan við mínútu eftir að hann fæðist.
Sumar tíkur snúa sér ekki að nýfæddum hvolpi. Ef tíkin þrífur ekki sjálf himnuna af hvolpunum, aðstoðaðu hana þá. Byrjaðu að fjarlægja himnuna sem umliggur höfuðið. Fjarlægðu þar næst það sem eftir er að himnunni, láttu himnuna hanga á naflastrengnum (ekki tosa í hann). Þurrkaðu nú burt vökva úr munni og nefi. Nuddaðu hvolpinn rösklega til að koma öndun af stað. Athugaðu alltaf eftir því hvort hvolpurinn andar eðlilega. Ef að hvolpurinn andar ekki en, lyftu honum þá í höfuðhæð og sveiflaðu höndunum niður að gólfi, endurtaktu þetta nokkrum sinnum, og nuddaðu hann rösklega. Bittu þráð utan um naflastrenginn u.þ.b. 2 sm frá búknum, klipptu á naflastrenginn rétt utan við þráðinn.

Hitatæki eða ofn ætti að vera nálægt kassanum, þar sem að nýfæddir hvolpar geta ekki stjórna líkamshita sínum vel. Hitinn í hvolpaherberginu ætti að vera í kringum 30 til 32 gráður á celsíus á fyrstu vikunum í lífi hvolpanna og smám saman ætti að minnka hitann í 24° á næstu 3 vikum. Upplagt rakastig í hvolpakassanum ætti að vera 55-60%. Dragsúr ætti að forðast.

Mjög fljótlega eftir fæðingu ættu hvolparnir að byrja að sjúga spena móður sinnar. Nýfæddir hvolpar hafa mjög lágan orkuforða, svo þeir verða að fá ferska mjólk frá móðurinni. þar að auki, þar sem að fá mótefni berast frá móður í hvolpana með blóðinu í gegnum fylgjuna fyrir fæðingu, verða hvolparnir að fá verndun og mótefni úr móðurmjólkinni. Hins vegar ef hvolparnir láta ekki ofan í sig mjólkina innan 12-16 tíma eftir fæðingu, verða hvolparnir berskjaldaðari gegn sýkingum, þar til að þeir geta framleitt þeirra eigin mótefni eftir 4 vikna aldurinn.

Hvolpar fæðast blindir og heyrnalausir. Þeir fá sjón og heyrn eftir 12. daga. Fyrstu 3 vikurnar nærast hvolparnir eingöngu á tíkarmjólkinni.

Móðirin þarf líka ást
Móðirin þarf athygli og umhyggja líka. Talaðu við dýralækninn um matarræði tíkarinnar. Lærðu að athuga mjólkurkirtlana, athugaðu ummerki um sársauka, bólgu eða sárindi. Athugaðu hvort að losun, blóð eða vond lykt kemur frá kynfærunum. Takmarkaðu heimsóknir og meðhöndlun nýfæddra hvolpa þar til þeir eru nokkra vikna gamlir. Haltu hvolpakassanum hreinum og skiptu um handklæði og dagblöð. Ráðlegt er að mæla tíkina reglulega í 7-10 daga eftir að hún gýtur. Hitinn gæti stigið lítillega upp, ef hann er meiri en örfáar kommur, hafið þá samband við dýralækni.

Að lokum, gangi ykkur allt í haginn og endilega vertu í bandi ef það er eitthvað meira sem þig vantar að vita, ég get ekki lofað að koma norður til þín en vertu með neyðarnúmer vakthafandi dýralæknis við hendina. Ekki hika við að hringja í dýralækninn ef þér finnst ástæða til. Smile100_0371 (Small)


Ein til viðbótar

Þessi mynd gleymdist í gærkvöldi, en ég varð bara að bæta henni við enda er African Sauda bara sætust á henni Halo IMG_4075

Nokkrar montmyndir......enjoy

Ég var að fá sendar myndir af Sauda síðan í heimsókninni um helgina! Ég bara varð að sýna ykkur nokkrar, þær eru æði!!

IMG_3459IMG_4084IMG_4096IMG_4059IMG_4093IMG_4104


Nóg að gera í rólegheitunum....

Ég má þakka fyrir það að skólarnir skikki ekki foreldra til að kaupa handa börnum sínum fiðlur fyrir skyldutónlistarnámið. Ég er hlynnt tónlist, ekki misskilja mig, en þegar mígrenihöfuðverkur er að angra mann, og 6 ára gormur er að blása í blokkflautu, í einum tón eins og mest hann getur, þá langar manni óneitanlega til að henda þessu dóti í ruslið!! Nei, ég er stillt, lofa. Búin að taka verkjatöflur og aldrei þessu vant virkuðu þær fyrir rest. En ég myndi leggja mikið á mig til að mótmæla skyldu fiðlunámi, ef því væri að skipta. Eins og hvað fallega spiluð fiðlu tónlist, synfóníur og klassísk tónlist getur verið falleg, ef hljómlistarmennirnir eru vel æfðir og lærðir. Þá getur surgið og veinið í 6 ára höndum verið óþolandi, smýgur inn í merg og bein. Uss, ég má þakka fyrir margt. Blokkflautan er bara smámál og sætti ég mig við hana bara. Fiðlan verður einfaldlega ekki í boði á mínu heimili. (ég held ég þurfi heldur ekki að hafa áhyggjur af því)

En dagurinn í dag er búinn að vera ágætur svosem. Vaknaði eldsnemma og fór bara að taka til, þvo þvott, vaska upp, ryksuga og miðju strákurinn minn skúraði fyrir mig. Litli hljóp ófáar ferðir út í tunnu með rusl og sá elsti fékk að sjá um klósettþrifin. Nóg að gera. Alveg þangað til að ég neyddist til að taka verkjó og leggja mig.

Ég er búin að vera að dúlla mér í tölvunni, eldaði einhvern pasta rétt í matinn, tók á móti Saudu úr heimsókninni sinni og var mjög ánægð með að heyra hversu vel gekk með hana þar. Chiquita fór í sýningarþjálfun með sýnandanum sínum, gestir komu og fóru í dag. Lánaði bolla af sykri. Litli fékk að fara í bíó með vini sínum og nágranna.  Síminn hringdi ófáum sinnum og allt gengur sinn vanagang.

Nú fer ég á eftir að skutla elsta til Reykjavíkur, það er skóli hjá honum á morgun.

Ég er að átta mig á því hvað það er sem mér finnst vanta, þetta er búið að vera svo rólegt, auðvelt og stressfrítt heimilishald núna undanfarið. Ég er ekki lengur með 5 hunda! Afríka og Chiquita eru bara fínar, hvolpurinn hinn rólegasti og þó að þær séu þrjár, þá er álagið ekki í neinu lagi líkt og þegar fleiri eru á heimilinu. Útlitið er fyrir að veturinn verði viðráðanlegur, rólegur og vonandi í jafnvægi. Allavega er sú tilfinning í dag, ætli ég verði ekki að sjá til þegar ég áætla að vera með tvö got í einu í vetur, hvort að líf og fjör verði ekki komið í kotið þá! Sjáum til.

En ég fagna því að ráða við daginn í dag. Allir aðrir eru frískir, friður ríkir og allt gengur sinn vanagang. Svo kemur meira í ljós á morgun með jarðarförina hennar tengdó, ferðalag norður vegna þess og hvað við þurfum að gera. En það er á morgun. Í dag leikur allt í lyndi, og það er gott. Er á meðan það er...... 

Góðar stundir


Gleðin tekur völdin á ný....

Ég vaknaði í morgun og var léttari en í gær. Þetta er allt að koma. Það var virkilega gaman að fylgjast með Saudu í PAT prófinu sínu í dag. Hún hafði aldrei farið út um aðaldyrnar, aldrei farið í bíl og var komin á algerlega ókunnan stað, þar sem alveg ókunnug manneskja tók sig til við að leika við hana. Markvisst og skrá niður viðbrögðin hennar. 

Litla dúllan stóð sig eins og hetja. Tikkað var í alla viðeigandi reiti og niðurstaðan er að hún er fullkominn heimilis og fjölskylduhundur. Ekki dominerandi, ekki hrædd, ekki með veiðieðli og mun láta köttinn á heimilinu í friði, mun ekki bíta frá sér og ekki eigna sér dót krakkanna með valdi. Ég er svo ánægð með niðurstöðuna að ég gæti grátið. Svei mér þá. Ég set inn nokkrar myndir frá í dag hér fyrir neðan.

Þetta er allavega til þess að ég þori að para Svala og Afríku aftur og fá þá eitt almennilegt got, áður en Afríka sest í helgan stein frá ræktun. Ég ætla nefnilega ekki að hella mér út í hundarækt á fullu. En þau eru það verðug og flott og góð og fín að það á alveg rétt á sér að fjölga um nokkra svona hunda í viðbót hér á þessu skeri. Svo fer daman að sjálfsögðu í alvöru skapgerðarmat þegar hún hefur aldur til. En þá verður Afríka sest í helgan stein, þannig að gott er að sjá núna þessar niðurstöður.

Sorgin í dag er í bland við gleði líka hér á bæ, því að stóra systir yngsta sjálfstæðismannsins míns, á afmæli í dag. Fékk hún gjöfina frá okkur í gær. En í dag fékk hún aðra gjöf líka, litla frænku. Fæddist lítil frænka í morgun í fjölskyldunni, lítill gleðigjafi akkúrat á réttum tíma. Þannig að sorgin frá í gær er alls ekki svo sár lengur.

Í tilefni dagsins var eldað íslenskt fjallalambalæri að hætti hússins. Nammi namm, ég 100_0484er að springa. Brúnaðar kartöflur, sósa og grænmeti með. Lambið bráðnaði upp í okkur. Tengdó var svo mikil matmanneskja, eins og ég, að þegar sonur hennar og ég vorum nýbyrjuð saman átti hún það til að hringja í mig til að kanna hvað ég væri með í matinn. Vildi hún fullvissa sig um að hann fengi nógu gott að borða hjá mér. Það leið ekki langur tími áður en hún hætti því, en fann önnur tilefni til að hafa samband. Hún þurfti engar áhyggjur að hafa, ég kunni að elda. Kannski skrifa ég m100_0482eira um hana seinna.  


Allt að ske......

Dagurinn í dag er svolítið einkennilegur. Þegar strákarnir voru farnir í skólann í morgun lék allt í lyndi, í svona 20 mínútur. Þá hringdi skólastjórinn til að láta mig vita stöðu mála með slagsmálahundana síðan í gær. Allt komið í farveg. Á meðan kemur barnsfaðir minn inn, með hangandi haus. Móðir hans andaðist í morgun. Var hún búin að berjast við veruleg veikindi allt þetta ár, búin að vera algjör hetja. En þessi kvenskörungur kvaddi þennan heim um 7 leytið í morgun. Vonandi líður henni betur núna, verkjalaus og búin að endurheimta sjónina aftur. Jarðarförin verður næstu helgi.

Húsið er búið að vera fullt af ættingjum og ungmennum í allan dag. Eru hér enn. Lífið heldur áfram og ekki gefst tími til að staldra við og hugsa um gömlu konuna. Miðju strákurinn minn kom heim úr skólanum, alveg eins og hann á að sér að vera. Engir eftirmálar, engin slagsmál, en óneitanlega miður sín yfir þeirri "ömmu" sinni sem hann þekkti best. Ég sótti elsta gaurinn í bæinn í dag líka. Yngsti sjálfstæðismaðurinn minn er í afmæli núna og veit ekkert um þetta ennþá. Ég hafði það ekki í mér að segja honum frá þessu fyrir afmælið. Vildi frekar leyfa honum að njóta þess, nægur tími gefst á eftir til að tala við hann um þetta.

Nú þarf ég að fara að elda mat handa fullu húsi, og hef mig varla í það. Ég á ekki nóg til, og bara hef ekki stoppað í allan dag, hvað þá að tími hafi gefist til að versla inn. Uss, ég bý bara til það sem er til og það verður bara að duga. Mér líður hálf einkennilega, vantar smá næði til að gráta, en get það ekki. Því er ég að stelast hér til að fá smá næði. Pústa smá.

Svo er smá vesen með hvolpinn. Eða réttara sagt, vesen og ekki vesen. Málið er að búið var að ákveða að framkvæma PAT test, hvolpaskapgerðarmat sem á að ske þessa helgi. Ég var líka búin að lofa nýju eigendum hennar að fá hana í heimsókn yfir eina nótt, til að leyfa henni að kynnast nýja heimilinu, áður en hræðslutímabilið hefst á 8 viku. Ég var að fá mail frá konunni sem framkvæmir þetta mat, og hún upplýsti mig um það að þegar þetta próf er tekið, þá á það að gerast á nýjum stað, í fyrsta sinn sem hún fer á nýjan stað, þannig að upplifunin hennar sé alveg ný og hvolpurinn er ekki búin að upplifa akkúrat þetta áður. Þá vandast málin, því prófið á að fara fram á nákvæmlega 49 degi, en á morgun er 48 dagur og átti hún að fara þá í heimsóknina. Flókið ég veit. Nú bíð ég eftir svari frá þessari góðu konu, um það hvort að ekki sé í lagi að flýta fyrir þessu prófi um einn dag og gera það þá heima hjá nýju eigendunum hennar í fyrsta skiptið sem hún kemur þangað. Ég vona bara að þetta sé hægt, að ekki þurfi að fresta áætluninni þeirra vegna, og að prófinu verði rétt að staðið líka. Ég vil engan svíkja, engin vonbrigði valda. Úfff. Það er erfitt að bíða og vera með hugann við þetta akkúrat í dag. En Sauda er algjör dúlla, blíðan er að koma svo mikið fram í dag og hún sest svo oft niður og horfir skáhallt á mig, eins og hún skynji svo margt. Ég er með smá sting í hjartanu þegar ég hugsa til þess að bráðum fari hún frá okkur. Hún er svo mikið krútt.

Jæja, best að reyna að sulla einhverju matarkyns saman, áður en ég þarf að ná í yngsta gaur og segja honum fréttirnar. Meira seinna... Herði upp hugann og blikka tárin í burt.....


Fyrsti skóladagur og þá byrjar fjörið.......!!!

100_0470100_0471

Já, mér var óneitanlega brugðið þegar miðju strákurinn minn kom heim úr skólanum í dag! Hann var barinn í dag!! Er þetta í fyrsta sinn sem hann kemur svona heim, og er þetta fyrsti dagurinn í skólanum!! Sagan er á þann veg að sonur minn og vinur hans voru að fíflast í tíma, þegar kennarinn hafði brugðið sér frá. Vinurinn sagði að hann væri sætari en minn strákur. Þetta var góðlátlegt grín þeirra á milli og svaraði minn: "já, en ég er flottari en þú!". Þá var nýr nemandi í bekknum sem skipti sér af og sagði þá báða vera ljóta. Strákurinn minn segir þá við hann: "já já, við erum ljótir, en ekki eins ljótir og þú!". Skipti þá engum togum en að strákurinn réðist á minn strák, sem varði sig, náði hálsataki á honum og hélt honum föstum. Bað hann vini sína að ná í kennarann, en sleppti honum svo rétt áður en kennarinn kom.

Svo á stoppistöðinni á leiðinni heim réðust umræddur drengur og einn annar á minn strák. Felldu hann, héldu honum föstum og lúskruðu á honum. Spörkuðu í hann, tróðu skóm sínum í andlitið á honum og lömdu. Hann er með skófar á öxlinni, bólgið nef, hruflaður út um allt og rauður. Hér sjást nokkrar myndir af þessu. Mest fann hann þó til í stóru tá, og fór ég með hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og lét taka mynd af henni (ekki brotin), gera áverkavottorð og svona. Ég er búin að tala við skólastjórann, sem sagði mér að það væri mitt að meta hvort að ég ætti að kæra til lögreglu. En skólinn myndi tala við foreldra og þeir yrðu teknir fyrir hjá skólastjóra á morgun.

Nú veit ég ekki mitt rjúkandi ráð. Strákurinn minn hefur aldrei verið slagsmálahundur, en ég vil fyrir alla muni koma í veg fyrir að þetta verði eitthvað vandamál framvegis. Á ég að kæra? Ekki kæra? Hann er ekki stórslasaður, en það sér á honum núna, ef ég kæri ekki, verður þetta vandamál þá til þess að vinda upp á sig og versna? Ef ég kæri, verður það þá til þess að málið vindi upp á sig og versni? Hefur einhver reynslu af svona?? Öll góð ráð vel þegin....

Ein í sjokki! 100_0472


Haustrútínan er að komast í gang......

Ég er enn að ná mér eftir helgar ævintýrið. Ég þakka bara fyrir að drekka ekki, því þá hefði ég verið í virkilega vondum málum, held ég. En þetta kemur, smám saman. Þolið mitt til að sitja fyrir framan tölvuna er að aukast aðeins.

Nú er skólaárið að byrja og er ég búin að standa í ströngu við að versla bækur og dót fyrir strákana, ásamt nýja búningnum hjá þeim yngsta. Hans skóli er að taka upp skólabúninga, við mikinn fögnuð drengsins. Ég verð að viðurkenna að þetta verður þægilegt held ég. Ég vona það allavega. En sá yngsti er virkilega glaður með að skólinn sé að byrja og hlakkar ekkert smá til. Þurfti ekki að vekja hann í morgun, ákafinn var svo mikill.

Elsti minn fer í skóla í bænum og á að koma heim um helgar. Hann er ekki sáttur við það, en verður bara að gjöra svo vel ef þetta á að ganga upp. Kauði er búinn að kynnast einhverjum strákum nýlega, sem hann er farinn að umgangast mikið. Ég ætla ekki að dæma þá fyrirfram, en hef samt ónotalega tilfinningu gagnvart þessu öllu saman, sérstaklega þegar minn drengur skilar sér ekki heim nokkra daga í röð, hannar og fær sér tatoo, sem "crew-ið" fær sér líka, og er allt í einu orðinn svo stór karl að öll sumarlaunin hans voru búin áður en hann náði að kaupa skólabækurnar fyrir önnina í skólanum! Eitthvað er brenglað og bogið við þetta allt saman, en kauði er óneitanlega á gelgjunni, og þvílíkri gelgju að það hálfa væri hellingur! Já, ég hef áhyggjur! En vona að hann standi sig núna í skólanum og helst fái sér helgarvinnu og verði upptekinn af henni í vetur, frekar en eitthvað partýstand og vesen.

Það er alltaf gott að láta sig dreyma og vona, en þetta er hans líf, hann verður að bera ábyrgð á því sjálfur og læra að velja rétt. Ég stjórna ekki, þó ég fegin vildi, hans gjörðum. 

Miðjustrákurinn minn lætur ekkert uppi með hvort hann sé ánægður eða ekki um skólann. Þetta er bara svona. Ég þarf að spjalla betur við hann á eftir með það, hvernig þetta leggst í hann í vetur. 

African Sauda er að stækka og eflast endalaust, hún er búin að ná Chiquitu í stærð, á ógnarhraða. Pissar og kúkar stundum úti, stundum inni. Finnst gaman að sitja úti á palli í rigningu og er með SKAP! Hún gefur ekkert eftir í leik, en það fýkur óneitanlega í hana þegar Chiquita og mamma hennar eru saman í því að atast í henni! Þetta er að sjálfsögðu partur af uppeldinu, en manni stendur ekkert alveg á sama, þegar fokið er í litluna. Hún jafnar sig samt alltaf og tekur gleði sína á ný og finnst samt alltaf jafn gaman af því að leika við þær.

Núna, þegar allt kemst í rétt horf, rútínan komin á og heilsan mín í jafnvægi, ætla ég að fara að huga að minni vinnu. Ég þarf að fara að sparka í rassinn á sjálfri mér með það. Kannski fer ég í skóla líka, kemur í ljós.

Mér finnst ég vera hálf dauf, sennilega vegna bakslagsins í bakinu á mér. Þetta minnir mig óneitanlega illþyrmilega á að ég er ekki alveg heil heilsu, hef mín takmörk. Það dregur mann niður, verð að játa það. Enda væri ég svo til í að þurfa ekki að eiga við þetta ástand. En nú er bara málið að bretta upp ermarnar, og halda áfram að berjast. Það þýðir ekkert að væla og ekki ætlunin að gera það. Áfram með smjörið.... Hafið það gott elskurnar, takk fyrir innlitið Smile


Flikk flakk og heljarstökk.....

Já, það er aldeilis búið að vera fjör hér á þessu heimili. Grillveislan á laugardaginn gekk bara mjög vel, fyrir utan matarfjallið sem eftir var í gær! 40 og eitthvað manns mættu til okkar og úr varð hin mesta skemmtun, krakkarnir úti í garði í leikjum og fullorðna fólkið ýmist inni í eldhúsi, eða úti á palli að fylgjast með grillkjötinu. Ég þarf að læra að áætla rétt fyrir svona boð, ég enda alltaf á alltof miklum mat. Á boðstólum var: lambafillet, lambakótilettur, nautakjöt, babyback svínarif, tiger rækjuspjót, hamborgarar og pylsur með tilheyrandi brauðum og meðlæti, iceberg salat, pasta, grillspjót með forsoðnum nýjum íslenskum kartöflum sveppum og lauk, tómatar, gúrkur, paprika, blómkál, jarðarber, ananas ferskur, vínber, epli, appelsínur, ýmsar tegundir af dressing, nýbökuð snittubrauð og smjör og svo íspinnar í eftirmat fyrir þá sem vildu! Auðvitað voru það bara börnin sem höfðu lyst á því. Allskonar gos var á boðstólum og svo hafði ég varla undan að hella upp á kaffi.

Afhverju er það að flestir hópast alltaf saman inni í eldhúsi, þó að betra pláss er allsstaðar annarsstaðar en akkúrat þar? Allt á hvolfi þar inni, því ekki er hægt að geyma umbúðir og aukaskammta annarsstaðar en þar, en samt fæst fólk varla til að kíkja út, eða inn í stofu! En þetta var gaman. Næst ætla ég að gera matseðil, en skera svo niður um helming áður en ég fer að versla!! Við náum engan veginn að klára allan þennan mat áður en hann skemmist.

Vinnufélagar mínir gáfu okkur kamínu út á pallinn!! Nú get ég framlengt sumrinu mínu svo um munar, og hlýjað mér við opinn eld þegar sólin sest. Þetta er æðislegt bara og þó að mig hafi langað í svona í nokkur ár, hef ég aldrei getað látið það eftir mér. Takk kærlega fyrir okkur, þetta kom virkilega skemmtilega á óvart.Cool

African Sauda naut sín í botn, og ég held að þetta hafi verið hin besta umhverfisþjálfun fyrir hana. Fullt af fólki að klappa henni og knúsa, í allskonar stærðum á allskonar aldri. En hún var verulega þreytt samt eftir daginn. Svaf mikið í gær, en var komin til sjálfrar sín í morgun. Hún er farin að klöngrast sjálf út um hundalúguna til að gera stykkin sín úti, og þó að það séu ennþá pollar hér inni þá er hún samt að læra af hinum hundunum og er farin að fatta það að þetta á að ske úti. Flestir pollarnir sem koma fyrir núna inni, virðast vera "á leiðinni" út.

Diljá mín er komin á nýtt heimili, með því skilyrði að ef þetta gengur ekki upp einhverra hluta vegna, þá fáum við hana til baka. Ég vona bara að framtíðarheimilið sé fundið og að hún fái að njóta sín hjá þeim þar til yfir lýkur. Það góða við þetta er að við fáum að fylgjast vel með, og er ég þakklát fyrir það. 

Bakið á mér er búið að vera svo slæmt núna, að ég hef ekki getað setið fyrir framan tölvuna, var í náttfötunum bara í gær, fór aldrei á fætur. Mér leið eins og að ég hafi verið á þvílíku fylleríi, búin að dansa þvílíkt og fara flikk flakk og heljarstökk. Ég haltraði hér um allt og gat eiginlega ekki verið til bara! Það var líka erfitt að hafa sig á fund í morgun og ég er búin að gera nokkrar tilraunir til að fara bloggrúntinn, en aldrei náð að klára hann. Sum ykkar hafa fengið komment, en ekki allir. Sorry guys, bara komst ekki lengra.

Núna neyðist ég til að pósta þessu inn, en ég get ekki lofað að ég klári rúntinn heldur núna. En þetta kemur. Einhverntímann í vikunni vona ég. Vil ég enda á því að votta Hrossu vinkonu dýpstu samúð mína, ófá tárin hafa runnið niður kinnar mínar síðan í gær. Ég hef ekki getað fundið neitt hughreystandi til að segja heldur, bara getað beðið og vonað að guð gefi henni styrkinn sem óneitanlega þarf á svona stundu. Þið hin hafið líka verið hetjur og fundið öll orðin sem ég gat ekki og hughreyst hana vel og fallega. Ljóðið hennar Ásdísar er líka snilldarsmíð og gæti ekki verið fallegra en það er. En hugurinn er óneitanlega búinn að vera hjá henni og er enn.....

Meira seinna 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband