Færsluflokkur: Bloggar

Gredduraunir............

Það er ekki að spyrja að því, þegar lóðastandið er annarsvegar. Málið er það að Svali minn, sem var í pössun annarsstaðar, er hjá okkur vegna lóðatíkur hjá fóðuraðilanum. Bara eðlilegur gangur mála þar sem ekki á að hefja framleiðslu á "Schnauffer" hvolpum. En þá þurfti Chiquita mín að byrja að lóða líka, og er hún eins gröð og hugsast getur fyrir svona lítinn kropp. Ekki nóg með það, þá byrjaði Afríka líka að lóða núna um helgina og greyið rakkinn eirir sér engan frið! Hann vælir og engist um í greddu og von, sperrir sig og er voða vinalegur við Afríku sína, gerir sig breiðan og sterklegan, dillar skottinu í gríð og erg og má alls ekki af tíkinni sjá. Afríka hins vegar urrar bara á hann, geltir og bítur hann af sér og hefur ekki undan því.

Friðurinn er úti! Ég fékk engan svefnfrið í nótt. Það þýðir lítið sem ekkert að aðskilja þau, því hann reynir bara að éta sig í gegn um hurðar og gereft. Vælir og spangólar og lætur öllum illum látum. Mestar hef ég áhyggjur af heilsu og holdafari rakkans, þar sem hann er grannur fyrir og núna sefur hann ekki, hvílist ekki og nærist ekki vegna greddu. Sýning þar að auki næstu helgi. Crying Þetta lítur ekki vel út. Það liggur við að ég hætti við að sýna þau öll! Í dag er sýningarsnyrting á stofu fyrir þau öll, og ég veit ekki hvernig ég á að geta lokað þau inni í lítinn bíl, öll saman, til að fara þangað. Úff, þetta verður skrautlegt. Hvernig ætli það verði þegar að sýningunni kemur?....

Í fyrrakvöld var ég að reyta og snyrta þau til klukkan 4 um morguninn og komin með tilheyrandi blöðrur og alles fyrir vikið. Núna þarf bara að sýningarfínisera þau og hef ég örugglega sparað mér dágóðan skildinginn með því að vinna mestu vinnuna sjálf.

Litli sjálfstæðismaðurinn minn missti sína fyrstu tönn um helgina og fékk tannálfinn í fyrsta sinn í heimsókn. Sá var ánægður með peninginn sem hann fékk fyrir tönnina og setti rakleitt í baukinn sinn. Núna sýnir hann öllum sem vilja sjá hvernig hægt er að stinga tungunni í gatið í neðri góm. 

Jæja, ég ætla að gera heiðarlegu tilraun nr. 10, til að leggja mig, því ég þarf að fara á fund á eftir.

Wish me luck! 


Ef það væri bara hægt að panta sér klón.......

Jæja, þá er frúin búin að fara í slippinn og hafa það gott. Verst að ekki er hægt að panta klón af sér í svona slipp, því mig vantar eins og annað eintak af sjálfri mér LoL

Ég mætti ásamt fríðu föruneyti (við vorum 3 saman og svo karlarnir með) á Hotel Nordica Spa í gær, fékk slopp og þegar búið var að hátta sig og sveipa um sig sloppnum var mér vísað inn í snyrtiherbergi. Þar var mér pakkað inn í teppi og handklæði, á upphituðum snyrtibekk og hófst þá "slippurinn". Handsnyrtingin var fyrst, en farið var yfir naglaböndin, glært lakk varð fyrir valinu, þar sem ég er með gel á mínum eigin nöglum með "french", fyrir. Ég held að ekki þyki boðlegt að vera með litað naglalakk í matargeiranum, allavega ekki girnilegt að fá naglalakkflísar í matnum sínum, eða eiga það á hættu. Hvað um það, ég fékk krem og handanudd og var það gott. Svo fékk ég andlitsbað og andlitsnudd og þá fór líðanin mikið yfir í slökun og notalegheit. Farið var um mig með mjúkum handtökum og greinilega mikið lagt upp úr því að láta líða vel. Í lokin fékk ég litun og plokkun og svo beint í sturtu. Þaðan fórum við stöllurnar í heita pottinn og þar fengum við svo axlarnudd. Vorum svo endurnærðar og sætar þegar við mættum svo í matinn á veitingastaðnum Vox, á hótelinu.

Maturinn var alveg hreint æðislegur!! Fengum við smakk, aukreitis, fyrst af laxatartar og svo af maíssúpufroðu með smá hjónabandssælu. Svo heimabakað hnetubrauð og súrdeigsbrauð með sérblönduðu smjöri með súrmjólk og salti. Nammi namm á alltsaman. Ég fékk mér elg í forrétt sem var lostæti og svo hreindýr í aðalrétt. Hreindýrið bráðnaði í munninum og upplitið sem varð á andlitum þeirra við borðið sem fengu sér það í aðalrétt var svona "kódakmóment". Augun glenntust upp á okkur öllum samtímis og það heyrðust bara unaðsstunur frá okkur öllum. Þetta var án efa besta hreindýrssteikin sem ég hef nokkurntímann smakkað! Svo á meðan beðið var eftir eftirréttunum fengum við smá smakk af ostaköku með fantahlaupi og engiferskexmylsnu í botninn. Hún var fín, en hefði mátt vera rjómakenndri og minna notað af gelatíni fyrir minn smekk. Í eftirrétt fékk ég mér svo mjólkurís og birkiís og smá súkkulaðisósu með. Ísinn var góður, en það hefði mátt hafa kúlurnar stærri en ein matskeið, þetta virtist vera bara sýnishorn en ekki eftirréttur. Það var það eina sem ég gat sett út á þetta, enda mikill sælgætisgrís. Þjónustan var til fyrirmyndar, seremóníur yfir öllu og allt listavel gert. Ég get mælt með Vox við hvern sem er sem kann að meta listina við matargerð og mælir ekki í skammtastærðum. Enda er ég búin að ákveða að næst þegar pabbi minn kemur til landsins, þá ætla ég að bjóða honum þangað, ef ég hef ráð á því. 

Eftir matinn færðum við okkur yfir á barinn og sátum þar yfir einum drykk fyrir svefninn og kjöftuðum og hlógum mikið. Þetta var gaman og ekki verra að geta svo farið upp á herbergi, afvelta, og haft það gott, í einrúmi Wink og hvílt sig svo. Ég svaf reyndar ekki vel, en það er bara ég og sú staðreynd að ég get ekki sofið í rúmi, bakið mitt gerir það að verkum að ég get ekki legið út af og sef því alltaf í Laz-y-boy stól hér heima. En með púðum og aukakoddum tókst mér að kría samt í nokkra klt, áður en ég fór á fætur, dúllaði mér í heitu baði, og snyrti og fór svo í morgunmatinn. 

Þar belgdi ég mér út, í orðsins fyllstu og svo var tékkað sig út og komið heim. Þetta var virkilega gott og gaman og ekki verra að hafa með skemmtilegan félagsskap til að njóta með sér. Enda erum við með endemum skemmtilegar í hópnum okkar í vinnunni!! Wink

Nú, er í vændum nóg að gera. Hundasýning næstu helgi og ég þarf að snyrta mína hunda ásamt fleirum, núna þessa helgi, samt er ég að fara að kynna á morgun og þarf því að vera verulega vel skipulögð. Eins líka vantar mig klón til að vinna fyrir mig næstu helgi, eða vera á sýningunni fyrir mig, því ekki er gott að vera á mörgum stöðum samtímis. En ég hlýt að hafa þetta af á endanum, einhvernveginn.

Þegar heim var komið, var húsið á sínum stað, börnin og hundarnir á lífi og þó að miðjustrákurinn minn hafi haft nokkra vini sína hjá sér í nótt, þá held ég að þau hafi ekki gert neitt af sér þannig séð. En hann var fljótur að stinga upp á því að við gerum meira af þessu, að fara burt yfir nótt, eða helgi og leyfa honum að sjá um allt á meðan, hmmmm veit ekki. Kannski eitthvað til í því hjá honum, en samt, er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af?.....

Uss, nú þarf ég að klóna mig aftur og má ekkert vera að þessu bloggaríi...nóg að gera og tíminn hleypur frá manni......

Góðar stundir.Smile


Allt á fullu og í hers höndum.....

Hér eru annarsamir dagar framundan, og búnir að vera undanfarið. Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að blogga, eða fara rúntinn minn eins og áður. En þetta er samt allt jákvætt. Er núna að stelast að blogga smá, þar sem ég þarf að fara á fullt núna á eftir.

Ég er að fara í slipp á morgun!! Ég hlakka til bara. En hópurinn minn í vinnunni vann sér inn dekurdag, hótelgistingu, út að borða og alles fyrr á árinu, og nú á að taka þetta út. Okkur var tilkynnt að mæta "í slipp" á Hótel Nordica Spa og þar gistum við og borðum. Hinum helmingunum er líka boðið með, þó þeir fari ekki í slippinn líka.

Hvað ætli þetta "slipp" þýði eiginlega? Kemur í ljós hversu myndarlegur þessi slippur er og hversu góða yfirhalningu við fáum, hahahahaha. Ég hef allavega aldrei áður farið í dekurdag svona og vona bara að þetta verði gott, gaman og beri árangur.

Annars er allt í hers höndum á heimilinu, Svali er hjá okkur í pössun þar sem tíkin hjá fóðuraðilanum er að lóða. Nema það að núna er Chiquita mín byrjuð líka að lóða, og núna þarf ég að loka hana alveg af frá Afríku og Svala, annars eru bara læti. Úff, þetta verða skrautlegir dagar framundan vegna þessa....

Wish me luck! 


Óvænt símtal...

Loksins hægðist um hjá mér, ég komin heim eftir vinnu í kvöld, komin í náttfötin, með Coke Light við hlið mér og fyrir framan tölvuna. Buin að fara bloggrúnt og gef mér loksins tíma til að blogga smá sjálf.

Þegar ég var að klára í vinnunni í kvöld, hringdi elsti sonur minn í mig. Hann var að trufla, þannig að ég hringdi í hann til baka þegar ég var komin í bílinn og á leiðinni heim. (Sem betur fer er ég með handfrjálsan búnað líka). Honum var mikið niðri fyrir og ég hélt að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir. Sá fyrir mér allskyns vandræði sem hann væri búinn að koma sér í. En nei, ekki alveg svo slæmt var það. Hann var samt reiður, mjög reiður út í stjúpmóður sína sem var að skipa honum fyrir verkum og skikka hann heim fyrir kl. 11 á "LAUGARDAGSKVÖLDI!" Glæpsamlegt alveg hreint. (Hann hefði kannski fengið að vera til 12 -1 hjá mér) En strákur er staddur á LAN móti, eða eitthvað álíka í skólanum hjá sér, undir eftirliti og allt það. Hann þurfti mikið að blása og fá útrás fyrir reiði sinni. Fékk ég að heyra orð eins og; glætan, fokking kerling, biluð, ráðrík og stjórnsöm, framkoma eins og við 10 ára, skilningslaus og kann ekki á ungt fólk.....og kærasta!

Já, kauði er víst kominn með kærustu og er búinn að ákveða að vinna áfram með skólanum, leigja sér herbergi sjálfur, halda samt áfram í skólanum, flytja út frá pabba sínum o.sv.frv.....

Úff, nú voru góð ráð dýr. Ég sé í gegn um hann líka og veit að hann er bara að reyna að hafa þetta allt eftir sínu eigin höfði. Ég beit í tunguna á mér og hlustaði, leyfði honum að fá sína útrás og tala í nokkra hringi. Síðan benti ég honum góðfúslega á að hann byggi hjá pabba sínum, fyrir góðvild hans, konan hans ræður líka ríkjum og að hann verði að fara eftir þeim reglum sem honum eru settar á þeirra heimili. Strákur vildi að ég, mamman með forræðið á honum talaði við hana og legði henni lífsreglurnar með sig. Hmmm, mér fannst það full dónalegt að ætla að fá að ráða þeirra heimilisreglum og þá áttaði kauði sig aðeins.

Til að gera langa sögu stutta, þá lítur út fyrir að hann sé kominn á hálan ís þar sem hann býr núna. Honum var hótað að hann fengi ekki að búa þarna áfram ef hann kæmi ekki heim á tilsettum tíma. Hann ætlar ekki heim á tilsettum tíma, afþví að hann er með "kærustunni" sinni, og á LAN móti og var víst búinn að segja pabba sínum frá því og fá samþykki hans áður.

Ég vona bara að þetta ástand vindi ekki upp á sig og að hann sé að gera sér allt mikið erfiðara fyrir. Fjölbrautarskóli Suðurnesja er ekki nógu góður fyrir hann, hann valdi þetta hlutskipti sjálfur, nú verður hann að vinna úr því líka sjálfur. En það er samt gott að hann tali við mig og leyfi mér að fylgjast aðeins með. Ég held ég skipti mér bara ekki af þessu, fyrr en ég nauðsynlega þarf þess. Strákurinn verður að fara að finna milliveginn aðeins sjálfur held ég.

Jæja, þá er ég búin að pústa þessu frá mér aðeins. Ég held að það sé lítið annað sem ég get gert í bili.  

 Annars er allt gott að frétta héðan, gengur vel og friður og ró á heimilinu. Bara gaman að því. 

Góða nótt 


Já, það er fjör...

Afmælisdagurinn var annasamur. Ég þurfti að sækja afmælisbarnið til borgarinnar og frænda hans líka. Á meðan kraumuðu hryggirnir í ofnpottinum í ofninum og barnsfaðir minn sá um að vakta og sjóða kartöflurnar. Þegar heim var komið var undið sér í að búa til sósu, salat og grænmeti, skræla og brúna kartöflur, skella kökunni í pottinn, og gefa svo liðinu að borða. Sem betur fer hafði ég gert eðalsúkkulaði músina áður en ég fór í bæinn, ásamt því að sinna smá vinnunni minni, versla, þrífa, vaska upp og skipuleggja ýmislegt í gegn um símann.

Strákurinn var búinn að kaupa afmælisgjöfina sjálfur, þar sem ég millifærði á hann og sendi hann af stað að kaupa sér buxur. Svo þegar búið var að borða aðalréttinn, fengum við tvær hjúkrunarkonur í heimsókn frá þjónustu miðstöð rannsóknarverkefna. Komu þær til að taka lífsýni úr báðum eldri strákunum, og mér, vegna ofvirknirannsóknar íslenskrar erfðagreiningar. Úff, miðað við stælana, þá fór ekki á milli mála hver væri ofvirki einstaklingurinn hér á bæ Pinch

Mikið er ég búin að fá nóg af þessum rannsóknum öllum. Ég held að ég hafi aldrei skorast undan því að taka þátt í þeim, og ég hef tekið þátt í þeim ófáum. En ætti ekki að vera þak yfir fjölda rannsókna sem hver einstaklingur getur tekið þátt í? Varla er hægt að nota endalaust sama genapollinn í allar rannsóknir?

Jæja, hér var hlegið og mikið fjör langt fram á nótt hjá unglingunum. Svo komst ég að því í morgun að yngri drengirnir báðir höfðu lánað rúmfötin sín til afmælisbarnsins og hans gesti, og sofið nánast í kuldanum í alla nótt sjálfir! Uss, bara. Hér eru til teppi og það hefði verið minnsta mál að redda þessu, en ég hugsaði greinilega ekki út í alla hluti sjálf í gær! Blush

Eftirrétturinn rann ljúft niður og upphófst enn meira fjör og galsi. Sumir eru orðnir svo miklir töffarar að það hálfa væri hellingur Wink Ég er samt mest hrædd um að afmælisbarnið sé búinn að ákveða sig með að hætta í skólanum og fara að vinna. Frown Ég reyndi að tala um fyrir honum í gær.

Minna hann á að þetta sé eins og að vinna í 3-4 mánuði, fjárfesta í vinnugallanum og alles, en nenna svo ekki að sækja launin sín! Strákur þóttist skilja þetta allt og átta sig á því að hann hafi lífið sitt og framtíð í lúkunum.

Þóttist skilja það að ef hann gerði þetta yrði grundvöllur hans til búsetu í bænum farinn og að hann yrði að flytja heim aftur.

Þóttist líka skilja það að næst þegar hann ætlaði í skóla, þá væri hann búinn með allan trúverðugleika og að hann gæti ekki farið fram á stuðning til þess aftur og í 3ja sinn og að þá yrði það mikið erfiðara að framkvæma skólagöngu.

Sagðist líka átta sig á því að það yrði miklu erfiðara að byrja aftur í skóla eftir allan þennan tíma, og að þurfa þá að byrja upp á nýtt.

Hann samþykkti að betra væri að klára önnina, fá einingarnar metnar og gera svo það sem honum sýnist og geta svo haldið áfram þar sem frá var horfið og ekki á byrjunarreit.

Hvað sem öllum þessum atriðum líður, er hann samt búinn að ákveða, að því er virðist, að sækja um vinnu með frænda sínum. Drengurinn er einfaldlega ekki að átta sig á raunveruleikanum við þessa ákvörðun, hvernig ætlar hann að flytja heim og vinna í bænum, bílprófs og bíllaus? Ég ætla ekki og get ekki verið einkabílstjórinn hans á eigin kostnað. Núið og straxið er bara það sem kemst að. Úff, nú eru góð ráð dýr..... Mér líður eins og að ég sé að reyna að tala um fyrir vindinum....Frown

Frændur sofa og fá skutl í bæinn á eftir. Einhver ráð? Hjálp!!! 


Frumburðurinn 17 í dag!

Stefán Mikael ÞórÞessi ungi herramaður er 17 ára í dag! Til hamingju með daginn elsku Stebbi minn WizardHeartSmile Nú er bara að hysja upp um sig sokkana og drífa sig í bílprófið!!

Hann er í skóla í bænum og vinnur með skólanum líka. Ég bíð enn eftir óskalistanum um það sem hann langar að fá í afmælisgjöf og ætla að reyna að hringja í hann á eftir og bjóða honum heim í mat í tilefni dagsins.

Úff, mér finnst alls ekki langt síðan að þessi var fæddur, öfugsnúinn með hendina á undan eins og Superman, og höfuðið í laginu eins og "Conehead" vegna sogklukkunnar. Sá var með skap! og er enn! Finnst einhvernvegin að þetta hafi verið fyrirboði um komandi tíð....

Þó á hann til skynsemistaugar inn á milli sem er gott mál. Svo ég monti mig aðeins, þá er þetta mjög greindur og hæfileikaríkur einstaklingur. Hann teiknar rosalega vel, klár á tölvur, með mjög gott tóneyra og getur verið svakalega fyndinn. Hann hrekkir stundum litla bróður sinn með því að reyta af sér brandara í gríð og erg, þangað til að bróðirinn er kominn með illt í magann, búinn að frussa drykk út í allar áttir, eða að það liggi við að hann kafni! Mér finnst það betri hrekkur en barsmíðar, verð að viðurkenna það. Þessi drengur getur hvað sem er, ef hann bara vill og hefur úthald. Vandamálið er að hann skiptir oftar um skoðun en nærbuxur, og byrjar voða vel á hlutunum, en gleymir að fylgja því eftir og klára. Hann skortir aga og úthald og þar sem hann er ofvirkur, þá finnst honum það lögleg afsökun til að hætta bara þegar honum hentar.

Góð ráð vel þegin til að hvetja kauða til að halda áfram og klára, þó það væri ekki nema önnina sem hann er í núna Pinch


Botnlaus!!!!

Litli kútur var heima í dag og byrjaði á því að biðja um morgunmat um kl 7:30 í morgun, sem hann fékk. Svo bað hann um drykk og hann fékk engiferöl, fyrir magann. Nokkrum mínútum síðar bað hann um Engjaþykkni, en þá sagði ég nei, mjólkurvörur væru slæmar fyrir magakveisu. Þá bað hann um kex, sem hann fékk. Svo bað hann um popp og þá var að nálgast hádegi, þannig að ég sagði nei. Hann fékk súpu og brauð í hádeginu og bað um egg, sem ég átti ekki til. 

Í sannleika sagt, þá er þessi drengur búinn að vera botnlaus í allan dag, búinn að fá allskyns mat í allan dag, ávexti, súpu, brauð, kex, gos, nammi, Engjaþykknið líka,  og hugsar ekki um annað en mat. Núna, þegar hann er nýbúinn að borða kvöldmatinn, þá er hann búinn að biðja um ís, ostaköku, meira nammi og er að gera sér núðlusúpu núna. SickÉg skil þetta ekki. 

Vantar honum eitthvað? Er þetta sjúkdómseinkenni? Partur af magakveisunni kannski? Eða sver hann sig bara í ættina báðum megin? Úff, bara, ef hann sleppur við að kasta upp í kvöld (eins og í allan dag) þá fer hann í skólann á morgun, svo mikið er víst...


Skemmtileg heimsókn, ofát og afleiðingar....

IMG_4117100_0418 (Small) Við fórum og hittum hana Saudu í dag, eftir rúmlega 2 vikna aðskilnað. Vá, hvað daman hefur stækkað mikið á svona stuttum tíma. Hún óx hratt hjá okkur, en ekkert virðist hafa hægt á vextinum ennþá.

Afsakið, ég kann ekki að snúa fyrri myndinni rétt, en kannski sést munurinn á þessum tveimur myndum í fanginu á litla sjálfstæðismanninum mínum. Sauda tók vel á móti okkur, sem og fjölskyldan hennar. Hún var voða kát að hitta okkur og við sömuleiðis hana. Henni líður greinilega mjög vel og allt er á svo miklum hraða hjá henni líka.

Síðan náðum við í Svala, sem var líka mjög kátur með að koma heim. Algjör kelibangsi bara og liggur núna við lappirnar á mér, má ekki af manni sjá.

Litli sjálfstæðismaðurinn er lasinn núna, kominn með gubbupest eða í magann. Hann var að vísu mjög duglegur að borða í dag, allavega 4 skálar af grænmetissúpu, með tilheyrandi brauði (hádegis og kvöldmat). Fullt af nammi í heimsókninni og í eftirmat í kvöld þá fékk hann sér væna sneið af heitri eplaköku sem ég bakaði, og með miklum rjóma.....Litli gormur skilaði þessu stuttu eftir kökuátið og séð verður til í nótt með skólann á morgun. Það er ekki gott þegar mamma dælir of miklum og fjölbreyttum mat í litla kroppa, vonandi er þetta ekki mér að kenna...Blush Annars er hann aldrei píndur til að borða, en kann sér kannski ekki hóf....

Góðar stundirSmile


Þrátt fyrir málfrelsi, þá er þetta með öllu ósmekklegt!!

Uss og svei, þetta finnst mér ekki sniðugt Devil Að sjálfsögðu þykir þetta töff, upplýsandi og spennandi hjá markhópnum sem þetta blað höfðar til. Þó að ég sé hlynnt málfrelsi og ritfrelsi á Íslandi, þá finnst mér þetta með því ósmekklegasta sem ég hef séð.

mbl.is Fíkniefnaleiðarvísir birtur í fríblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður svefn og grænmetissúpa...

57339631 Góðan daginn gott fólk. Ég svaf vel og lengi í nótt og líður bara mjög vel í dag. Búin að fara smá bloggrúnt, taka eitthvað til og ryksuga, fá mér morgunmat. 

Núna ætla ég að venda mér í að búa til holla og góða grænmetissúpu og hvítlauksbrauð til að hafa í hádegismat, áður en ég skutlast aðeins inn til Reykjavíkur í hundaferð.

Já, ætlunin er að fá að heimsækja Saudu og afhenda ættbókina í leiðinni. Vonandi man ég eftir myndavélinni líka og smelli nokkrum af.

Svo þarf að ná í hann Svala minn, þar sem lóðarí er komið í gang hjá fóðuraðilanum hans. Ákveðið var um daginn að hún ætlaði ekki að skila honum neitt strax, en ég hafði lofað í upphafi að taka hann ef og þegar um lóðarí væri að ræða, þar sem hann þjáist bara á meðan og verður eirðarlaus, sefur ekki, borðar ekki og húsgögn og innréttingar eiga það í hættu að vera étin ef reynt verður að loka hann af frá lóðatíkinni. Ætlunin er ekki sú að fara að framleiða Schnauzer/Schefer hvolpa, þannig að hann kemur heim á meðan. Það verður gaman og mun örugglega hrista aðeins upp í heimilislífinu á meðan. Vonandi stendur barnsfaðir minn við það að taka hann með í vinnuna á daginn. Það mun létta á álaginu hér heima.

Hafið það gott elskurnar, over and out.... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband