Færsluflokkur: Bloggar

Bara brandari dagsins...!

Á eyðieyju einni fjarri allri mannabyggð  (auðvitað) strandaði skip en á skipinu var fólk samankomið af ólíkum  þjóðernum. En það var ekki fyrr en mánuði síðar sem greyið fólkið fannst og  hafði þá ýmislegt á daga þeirra drifið...

Strandaglóparnir voru:
2 ítalskir menn og ein ítölsk kona
2 franskir menn og ein frönsk kona
2 þýskir menn og ein þýsk kona
2 grískir menn og ein grísk kona
2 breskir  menn og ein bresk kona
2 búlgarskir menn og ein búlgörsk kona
2 japanskir menn og ein japönsk kona
2 kínverskir menn og ein kínversk  kona
2 bandarískir menn og ein bandarísk kona
2 írskir menn og ein írsk  kona
2 íslenskir karlmenn og 1 íslensk kona

Mánuði síðar á þessari  sömu eyju höfðu eftirfarandi atburðir átt sér stað:

Annar Ítalinn drap hinn vegna ítölsku konunnar

Frönsku mennirnir og franska konan lifa í sátt og samlyndi

Þjóðverjarnir hafa komið sér upp mjög stífu vikulegu fyrirkomulagi um að heimsækja þýsku konuna

Grikkirnir sofa hjá hverjum öðrum á meðan gríska konan þrífur og eldar handa þeim

Bretarnir bíða  enn eftir að einhver kynni þá fyrir ensku konunni

Búlgararnir horfðu  lengi á sjóndeildarhringinn og svo á búlgörsku konuna og stungu sér síðan til  sunds

Japanirnir sendu símbréf til Tokýó og bíða enn leiðbeininga

Kínverjarnir hafa komið upp apóteki, vínbúð, veitingastað  og þvottahúsi og kínverska konan er barnshafandi af völdum "þeirra" því starfsmenn vantar

Bandaríkjamennirnir eru á barmi taugaáfalls því  bandaríska konan kvartar í sífellu yfir líkamsvextinum sínum; yfir eðli  konunnar; hvernig hún er fær um að gera hvaðeina sem þeir geta; nauðsyn þess  að lifa fullnægjandi lífi; jafnri skiptingu á heimilisverkum; hvernig sandurinn og pálmatréin valda því að hún virðist feitari; hvernig síðasti  kærastinn virti skoðanir hennar og kom betur fram við hana en þeir tveir; hve samband hennar við móður sína verður betra með degi hverjum og að lokum hve skattarnir eru lágir og að það skuli aldrei rigna

Írarnir tveir hafa  skipt eyjunni í norður og suður og sett upp landamæri. Þeir minnast ekki hvort  til kynlífs hafi komið því það er allt í móðu eftir fyrstu lítrana af  kókosviskíinu. En þeir eru sáttir því Bretarnir eru ekki að njóta sín.

Íslendingarnir eru orðnir stórskuldugir við verslanir og veitingahús Kínverjanna og brugghús Íranna. Íslenska konan er búin að sofa hjá ítölsku, frönsku og amerísku karlmönnunum á meðan íslensku karlmennirnir eru búnir að reikna út að þeir væru fallegastir, sterkastir, gáfaðastir og fjölmennastir miðað við höfðatölu...

Sitt lítið af hverju........

100_0735 Tíminn líður svo hratt þessa dagana og ég er oft svo þreytt að ég er í hálfgerðri móðu sjálf. En er öll að koma til samt. Það tekur bara á að vera endalaust með tættan svefn, sinna hvolpunum jafnt á nóttunni og á daginn, ásamt öllu sem þarf að sinna þá líka.

Elsti sonurinn kom heim, heill á húfi frá Danmörku. En er búinn að liggja í tölvunni síðan hann kom heim. Ég þarf að fara að ná því að sparka í rassinn á honum almennilega, til að hann fari og finnur sér vinnu. Þetta er ekki hægt öllu lengur!

Miðju gaurinn minn er farinn að fara sjálfviljugur, snemma að sofa, og er eldhress á morgnana og samviskusamur með skólann. Ég er voða fegin og stolt af honum vegna þessa.

Litli sjálfstæðismaðurinn er enn að komast á réttan kjöl eftir jólin. Þetta var fyrsta fríið síðan hann fæddist, sem hann hefur lært eða náð að sofa út, eða lengur en til kl. 7, en gallinn er að hann á erfitt með að vakna núna. Eitthvað sem var ekki vandamál áður. Ég trúi því samt að í lok þessarar viku, þá mun hann vera kominn í rútínu og allt eins og það á að vera á ný.  

Semsagt engin stórvandamál þannig séð á heimilinu. Hvolparnir dafna og eru að verða enn kröfuharðari smátt og smátt. Kalla stöðugt á athygli og knús og mamma þeirra er nánast hætt að nenna að gefa þeim spena, nema endrum og eins. Þau eru löngu farin að fá mat, fyrst graut, svo graut með uppbleyttu hvolpafóðri. Nú eru þau með hvolpaþurrfóður hjá sér alltaf, ef þau vilja naga, og svo gef ég þeim bleytta fóðrið í graut nokkrum sinnum á dag. Þau eru hverju öðru yndislegra. Litla Agnarögnin, er sko engin ögn lengur, og er þvílíkur fjörkálfur. Eða kannski ekki of mikill, frekar bara fjörugri en stóra systir sín, sem tekur öllu með ró og jafnaðargeði. Þarf umhugsunartíma, hvort hún yfir höfuð nenni þessu núna, eða vilji bara sofa. Sú er með skemmtilegan karakter, er sjálfstæð en á alveg til, hasarinn og lætin líka, bara í minna magni og þegar hún nennir.

Strákarnir í hópnum eru mikið til jafnir. Einn er frekastur á athygli, en þeir eru allir kelibófar og knúsíkarlar (eins og þau öll) og voða kátir strákar. Það er virkilega gaman að fylgjast með þeim þroskast, stækka og dafna. Ég gæti alveg setið hjá þeim allar stundir sólarhringsins, ef ég mætti vera að því, og bara fylgst með þeim og leikið við þau. Umhverfisþjálfunin gengur vel, en ég þarf að fara að ganga samt lengra með þau. Verst hvað það snjóaði rosalega í nótt, því ég var hálfpartinn búin að ákveða að leyfa þeim að fara fyrstu skoðunarferðina út á pall, í dag. Geri það ekki ef þau hverfa í snjóinn.

Ég er sjálf öll að koma til. Sorgin yfir greiningunni er að hverfa og ég er að sættast við þetta. Þetta er í raun bara eins og ég var, nema núna veit ég afhverju það stafar. Ég er enn að venjast því að átta mig á heildar-einkenna-pakkanum, hvað þessi og hinn verkurinn er í raun og veru, og afhverju ég er svona og hinsvegin. En, þetta kemur í rólegheitunum. Verst hvað hver verkur verður ýktur einhvernveginn við að vera meðvituð um þá, og virðist sárari en þegar ég lifði í blekkingarheimi. En ég er viss um að það venst og dofnar með tímanum. Svona er þetta bara og ég verð bara að lifa með því. Einn dag í einu.

Jæja, það er nóg fyrir mig að gera í dag. Verð að fara að hafa hraðann á. 

Later..... 


Ekki fer alltaf allt eftir pöntun............

100_0371 (Small) Í dag fór ég með Afríku til dýralæknis. Ég ætlaði að láta hana í sónar til að fá staðfestingu á því að hún væri hvolpafull, en sónarinn var í viðgerð. Dýralæknirinn mundi þá að hún átti til blóðprufu kit,  þungunarpróf fyrir hunda. Við skelltum henni í það snöggvast en niðurstaðan var samt að hún er ekki hvolpafull. Ekki alveg það sem ég vildi heyra!

Ég sem var svo viss um að von væri á risum núna. Að núna hafi sko tekist ætlunarverkið. En nei, ekki alveg það sem ég óskaði mér.

Sem betur fer frestaðist för Svala til Englands þangað til í júní. Svona geta örlögin haft vit fyrir manni. Þetta átti að fara svona afþví að við áttum eftir að klára það sem byrjað var á. Ég ætla bara að líta á það þannig, því allt hefur gengið á afturfótunum í smá tíma núna. Núna segi ég bara, það hlaut að vera! Við fáum semsé einn sjéns enn til að freistast til að koma með þetta eina alvöru got. Svo hætti ég þessu bara. Þetta er dýrt spaug og brigðult. En óneitanlega spennandi.

Hvolparnir sem fæddir eru dafna vel. Þau hafa það gott á "svæðinu" sínu og leika sér, tæta dagblöð  (nýjasta uppgötvunin) og kalla á knús og samveru nánast stanslaust. Ég gæti verið að dúlla mér við að sinna þeim allan sólarhringinn, og í raun er ég að því svona mestmegnis. Sennilega er það lán í óláni að vera ekki að koma með tvö got bak í bak. Það hefði kostað 4 mánaða stanslausa sólarhringsvakt.

Á morgun fer ég í blóðprufu og blóðþrýstingsmælingu. Svo ætla ég að fara á hárgreiðslustofu og flikka aðeins upp á lookið. Fela gráu hárin og svona. Svo kemur elsti strákurinn minn frá Danmörku annað kvöld, að öllum líkindum, nema að hann fái vinnu allt í einu í fyrramálið, þá gæti hann ílengst í Köben. Kemur í ljós, alltaf spennandi að vita ekki alveg allt.

Nú ætla ég að reyna að kíkja á bloggrúntinn, á milli hvolpavæls og ná því að kvitta hjá allavega 5 bloggvinum fyrir svefninn. Kem svo aftur við annað kvöld vonandi, eftir ferðina á flugvöllinn og svona.

Góða nótt og takk fyrir stuðninginn í síðustu færslu. 

 


Púst...............

Á meðan að ég bíð eftir kaffinu mínu, þá ákvað ég að blogga smá. Verð sennilega búin að drekka nokkra bolla áður en ég verð búin, en mig grunar að þessi færsla eigi eftir að vera svolítið löng. Í þetta sinn ætla ég að pústa svolítið út, fjalla um svolítið sem ég ætlaði mér aldrei upphaflega að setja inn á þetta blogg mitt. Ætlaði að geyma þennan hluta lífs míns aðskildum frá ykkur, því það er svo leiðinlegt að tala um verki og veikindi og enginn nennir að lesa um slíkt, eða er það ekki?

Málið er að ég lenti í ömurlegu bílslysi í ungdómi mínum. Bakið mitt brotnaði, eða 4 hryggjarliðir fóru í mask, og gjörbreytti þetta lífi mínu. Ég var, er og verð alltaf talin heppin samt, þar sem ég hreinlega lenti ekki í hjólastól, get labbað og það er ekki að sjá utan á mér að ég gangi ekki heil til skógar.

Ég ætla ekki að fara að útlista hér öllum verkjum, takmörkunum eða einkennum sem ég glími við vegna þessa samt. En það eina sem ég ætla að segja hér er að síðan þá hef ég glímt við heilsufarsvanda. Vanda sem fer víst stækkandi, eða hvernig segir maður, mér á aldrei eftir að batna?

Mitt lífsmottó er að velta mér helst ekki upp úr neikvæðum þáttunum í lífinu, heldur reyna sem mest að halda fókusnum á það jákvæða. Lítið bros, litlir sigrar og stórir og jákvæðir hlutir eru það sem halda mér mest gangandi. En lífið er samt alls ekki bara dans á rósum og gaman, ég kýs bara að einbeita mér að því sem er gott og jákvætt og láta hitt liggja á milli hluta. Mér líður allaveganna betur þannig og ef ég er jákvæð þá gengur allt hitt miklu betur. 

Í gær fór ég til læknis. Hann sagði mér að ég væri með vefjagigt. Hann sagði að mér myndi aldrei batna ég myndi bara eiga betri daga og verri daga. Hann var ekkert að segja mér neitt sem olli mér neinu áfalli, þannig séð. Ég hef vitað í þó nokkur ár að ég myndi aldrei ná heilsu og lífið mitt hefur verið "betri dagar - verri dagar" í mörg ár, nú þegar. En þessi greining kom mér á óvart. Það var til nafn á mitt "human condition". Hann útlisti allt sem að mér er, bakið, vöðvabólgan og hreyfihömlunin og allir þeir verkir, sykursýkin, mígrenið og höfuðverkirnir, svefninn eða leysið (og sú staðreynd að ég get ekki legið útaf og sofið í rúmi), og síþreyta. Reyndar var síþreytan uppgötvun fyrir mig að tilheyra vefjagigt og að það sé einkenni, þar sem að ég hélt alltaf að það væri bara afleiðing af öllu hinu. Hann skoðaði mig og potaði í mínar vöðvafestur, og alltaf þegar ég ætlaði að segja "nei, ekki svo aum þarna" sigrihrósandi, þá færði hann puttana sína aðeins til, eða tók fastar á þannig að mín gat ekki annað en æmt og kippst til. Hann var svo viss í sinni sök, hitti undantekningarlaust á aumustu punktana mína, að ég varð eiginlega kjaftstopp!

Ég er að reyna að kyngja þessu, taka þessu með jafnaðargeði og reyna að finna jákvæðar lausnir. Googlaði aðeins í nótt um þetta og komst að því að þetta væri stundum svolítil "ruslakistugreining" á fullt af einkennum. En samt er gott að geta séð að það er til fullt um þetta, fullt af góðum ráðum til að hjálpa manni að vinna í því að líða sem best. En mikið er gott að sjá að "aumingjaástandið mitt" hefur nafn og er viðurkenndur sjúkdómur. Kannski verður þetta til þess að ég sætti mig við þetta human condition mitt, þó að ég ætli alls ekki að gefast upp. En ég hef hingað til átt afar erfitt með að sætta mig við að ég geti ekki allt sem ég vil, og hef barist í mörg ár við að finna hluti sem ég get gert. Reynt að gera eins mikið og ég get frekar en að gefast upp, leggjast í volæði og fókusa á það slæma og verkina.

Í dag er ég ekki frá því að ég er svolítið sorgmædd. En það líður hjá líka. Ég er staðráðin í því að ég ætla að halda áfram að fókusa á litlu sigrana, gleðjast yfir því sem gott er og jákvætt. Ég ætla ekki að láta þetta aftra mér, og ætla bara að halda ótrauð áfram. En sorgin er kannski mest yfir því að ég get ekki horft framhjá einkennunum lengur, aumingjahátturinn minn er búinn að fá nafn og er löggildur sjúkdómur. Sorgin er yfir því að kannski núna fer ég að gefa mér afslátt, afslátt á fyrirhöfn, afþví að ég er svona eins og ég er. En ég verð að viðurkenna líka að þó að ég vilji ekki meðaumkvun og afslætti, þá er bara miklu erfiðara að gera einföldustu hluti, fyrir mig, en marga aðra. Ég á bara erfitt með að kyngja því að ég verð einfaldlega að leyfa mér stundum þennan afslátt. 

Ég fékk semsagt stimpil í gær, stimpill eins og tatoo sem hverfur ekki héðan af. Ég valdi ekki þennan stimpil, en það gerðu ekki allir hinir sem hafa fengið hann líka. Eða aðra verri sjúkdóma. Mér líður samt pínulítið eins og að ég hafi fengið dauðadóm, en hann tekur bara ekki gildi strax. Þangað til ætla ég að halda í jákvæðnina og halda áfram með allt sem ég megna.

Í dag ætla ég að fara með Afríku í sónar, reyna að fá staðfestingu á því að hún sé í raun hvolpafull. Ég mun sennilega blogga aftur í kvöld, til að færa þessa færslu neðar. Nenni ekki að flagga þessu pústi mínu lengi.

Hafið það sem best elskurnar í dag og munið að njóta augnabliksins og góðu stundanna í lífinu. Þeir eru það sem gefa lífinu gildi. Það er ferðalagið á þessari jörð sem skiptir máli, ekki áfangastaðurinn.

Svo ætla ég að hætta þessari væmni og voli og fara að gera eitthvað, knúsa hvolpa og umhverfisvenja og svona.......... 


Hvolpagaman

100_0735100_0736

 

 

 

 

 

 

 

 

Mig langar að setja inn nokkrar myndir af nýja "hvolpasvæðinu" sem hvolparnir fengu úthlutað í dag. Þar er aðeins meira pláss en í gotkassanum, en þau sjá út til okkar hinna fjölskyldumeðlimanna á heimilinu. Mikil gleði og spenna hefur ríkt í kvöld, hvolparnir kalla á athygli og Afríka vill svooooo fá að koma að leika. Hún er farin að fá að þefa svolítið og taka smá þátt. Allt undir ströngu eftirliti, og þá aðallega til að stressa ekki Chiquitu, því Afríka fer ofurvarlega að skottunum. Chiquita er enn að venjast þessu, líka nýja hliðinu til að fara inn og út um. Nú þarf að hleypa henni, hún er ekki lengur með skammel til að þjóna sem trappa.

Hér er búið að vera mikið fjör í kvöld og mig grunar að gamanið sé rétt að byrja. Karakter hvolpanna er að fá á sig mynd, og þau eru öll með sín sérkenni og persónuleika.

Jæja, ég ætla að reyna að fara að sofa núna.

Knús í nóttina 


Miniature Schnauzer

Ég er með 5 hvolpa af tegundinni Miniature Schnauzer, allir svartir. Um er að ræða 3 rakka og 2 tíkur, fædd 2 desember 2007. Tilbúin til afhendingar í byrjun febrúar.


Barbados

Bad to the Bone Bioko

Borneo

Belize Bíbí Ögn

Balí Blaka

MATARTÍMI!!

Pabbinn

Mamman í *Bling* ólinni sinni

Aðeins skárrri mynd af mömmu, þarf að fara með hana í myndatöku, svei mér þá!


Hvolparnir eru undan SUCH Gloris Super Lamigras Man "Texas" og Svartskeggs Cheerios "Chiquita". Ég hef sótt um ræktunarnafnið: "Tröllatrúar", en er ekki enn búin að fá staðfestingu hvort það fáist samþykkt.

Hvolparnir afhendast heilsufarsskoðaðir, ormahreinsaðir, bólusettir, örmerktir, snyrtir og með ættbók hjá Hundaræktarfélagi Íslands. Þeim fylgir líf og sjúkdómatrygging í eitt ár hjá VÍS Agría, snyrting á stofu um 4ra mánaða aldurinn og búið verður að fara með þau öll í svokallað PAT próf.

Um er að ræða "Puppy Aptitude Test" eða hvolpaskapgerðarmat, til að aðstoða tilvonandi eigendur við að finna hund við sitt hæfi, hafa einhverja hugmynd um skapgerð hvolpsins, og geta þar með gert sér hugmyndir að því hvað gott er að leggja áherslur á í þjálfun og uppeldi. Þetta próf er mjög athyglisvert og fræðandi.

Upplýsingar í síma: 587 6466 eða 898 8567 eða á netfanginu: bjarndis@eldamennska.is

Skítlegt eðli............

51qa9isIu6L._BO2,204,203,200_PIsitb-dp-500-arrow,TopRight,45,-64_OU02_AA240_SH20_Ég fékk uppbyggjandi gagnrýni í gær í minn garð. Hér var í heimsókn góðvinur fjölskyldunnar sem er ekki í frásögur færandi, nema það að hann var bara í heimsókn að spjalla um daginn og veginn. Í miðjum samræðum sneri hann sér til mín og sagði við mig að hann verði að gagnrýna mig smá. Ég leit upp, sperrti eyrun og bað hann um að halda áfram.

Sko, sagði hann, ég er viss um að þér myndi ganga vel í öllu sem þú ert að gera, ef þú hefðir bara eitt. Þú værir að mala gull í dag með verslunina þína, ef þú hefðir bara þetta eina til að bera. 

Nú var ég orðin forvitin og vildi ólm fá að vita hvað þetta væri sem hann var að tala um. Nú, skítlegt eðli! Þig skortir allt sem heitir skítlegt eðli, og þar með lúffar þú fyrir öllum og öllu!

Vitið þið, hann fékk mig til að hugsa, hugsa lengi og vel um þetta, og á tímabili settist ég niður og skrifaði langan pistil, til manneskju sem hefur gert mér lífið leitt undanfarið, með sínu skítlega eðli, og hugðist jafnvel birta hann á netinu fyrir alþjóð. Sýna þessari manneskju sömu kurteisi og hún hefur gert mér. En, ég finn ekki mitt innra skítlega eðli, til að gera það. Sé ekki tilgang í því, nema til að viðhalda leiðindum og fjandskap á opinberum vettvangi. Ég finn ómögulega minn innri púka til að svara í sömu mynt.

Niðurstaðan mín er sú. Ef ég þarf að notast við skítlegt eðli, skítkast og leiðindi, í lífi mínu, þá væri ég sorglegri en allt sem sorglegt er. Mín innri hamingja væri þá í húfi og ég ætti erfitt með að lifa með sjálfri mér. Vissulega þarf maður stundum að svara fyrir sig, en ég reyni eftir fremsta megni að gera það með reisn og í heiðarleika. Nenni ekki að þurfa að vera með ljóta samvisku til að ná höggi á einhvern annan. Vil ekki heldur vinna við eitthvað sem krefst þess að vera með óheiðarleika eða bara gróðaglampa í augunum. Þá er engin ánægja af því til lengdar.

Þannig að niðurstaðan er sú að ég verð að lifa áfram skíteðlislaust. Er samt að spá í að fjárfesta í bókinni hérna fyrir ofan, bara til að skerpa á varnarpúkanum í mér og finna aðferðir til að halda samt reisninni og stoltinu í lagi.  

Það væri gaman að sjá hvað öðrum finnst um skítlegt eðli, hvernig túlkið þið slíkt eðli? Er þetta sjálfsbjargarviðleitni, rotið innræti, sjálfselskuháttur eða eitthvað annað? Skilgreiningin sem slík er líka að vefjast fyrir mér, hvað er skítlegt eðli??? 


Árið og allt það...........

IMG_0537 (Small) Gleðilegt nýtt ár gott fólk. Vonandi hafa hátíðarhöldin farið vel í og með ykkur öll sem eitt. Hér hefur að mestu verið rólegt, nokkrir góðir vinir kíkt í heimsókn, borðaður hefur verið veislumatur daglega og allir fengið næga hvíld og vellíðan.

Nú er bara málið að takast á við nýja árið og þau verkefni sem fyrir liggja. Hvolpastand verður víst í tvöföldum skammti hér á bæ. Núverandi Míní Schnauzer gotið og svo er væntanlegt Risa Schnauzer got í lok þessa mánaðar. Nóg að gera. Ég held að ég verði búin að fá alveg nóg í langan tíma af hvolpum og því standi sem þeim fylgir, þó að óneitanlega er gaman að þessu líka. Annars myndi ég aldrei nenna þessu. 

Ég hef verið svolítið tölvuþreytt undanfarið, og kannski litbrigðalaus í þau skipti sem ég hef bloggað. Ég er bara viss um að þetta muni koma til með að lagast, allavega vona ég það. Hef bara þurft að taka mér veglegt frí og sinna öðrum málefnum í staðinn. 

Vonandi farnast ykkur öllum vel á nýja árinu og takk allir fyrir kynnin á því gamla. Peace on earth og allt það. Kissing


Gleðileg hvít jól!

IMG_0532 (Small) Gleðileg jól öllsömul! Ég er búin að vera of upptekin eða þreytt til að taka þátt í blogginu undanfarið. Búið er að ganga á ýmsu og ég nenni ekki að fjalla nánar um það hér, akkúrat núna....

Í dag eru búin að vera mjög svo ánægjuleg jól hjá minni litlu fjölskyldu. Elsti drengurinn er reyndar í Danmörku, hjá "frænda" sínum um jólin. En ég er búin að heyra í honum hljóðið, óska honum gleðilegra jóla og hann hefur það fínt. Það var bara mjög gott í honum hljóðið.

Hér heima erum við bara búin að hafa það náðugt í dag. Fórum reyndar í smá leiðangur að bera út síðustu kortin og svona, en svo var bara farið í bað og í náttfötin á meðan að maturinn mallaði í pottunum. Hér er ekki farið í óþægileg spariföt, þau eru geymd þangað til að við förum eitthvert annað í hátíðarstand . Maturinn var tilbúinn kl 18 eins og lög gera ráð fyrir og aldrei þessu vant var ekkert verið að flýta sér að klára að borða, heldur var matarins notið vel og lengi. Krakkarnir voru ekki lengi að taka upp pakkana sína og mikil ánægja ríkti hér og er enn. Allir ánægðir með sitt og sælir. Ég fékk meira að segja jólagjöf í þetta sinn, sem kom mér verulega á óvart. Hlut sem mig hefur langað í, í mörg ár. Kitchen Aid hrærivél! Ég hef aldrei átt alvöru hrærivél og núna á ég hana og er alsæl. Veit bara ekki hvar ég á að koma henni fyrir, en það er önnur Ella.

Hundarnir fengu líka hátíðarmat við sitt hæfi. Smá dósamat blandaðan við venjulega fóðrið fyrir Afríku, Chiquita fékk séreldaðan mat vegna hvolpanna og svo fengu þær skiptan á milli sín frosinn lambabóg, sem þær voru ekki lengi að klára. Þær eru búnar að vera saddar og sælar á meðan við fengum okkar hátíðarmat í friði, og í allt kvöld.

Jólin eru hvít hjá okkur og vona ég að við getum farið út að labba með hundana í snjónum á morgun. Það er svo notalegt, frískandi og hressandi að fara út í góðu veðri þegar snjórinn er nýfallinn og fínn.

Ég hef yfir engu að kvarta, okkur líður vel, allt gengur vel. Þetta eru sannarlega gleðileg jól hjá okkur.  Ég sit ekki á barnaspítala hringsins í kvöld, eins og ég hef gert áður á aðfangadagskvöldi, hér er ekki eitthvert drama í gangi, veikindi, leiðindi eða flutningar. Þessi jól eru ánægjulega tíðindalaus, og svona vil ég hafa það. Allir heilbrigðir, kátir, hressir og ánægðir. Allir heima sem vilja vera heima. Ég er heima og hef það gott. 

Vonandi eigið þið öll gleðileg, ánægjuleg og stresslaus jól. Vonandi farnast ykkur vel á næsta ári og ég vona líka að þið getið litið yfir farinn veg á þessu ári sem senn fer að ljúka, með fullvissu og gleði um að þetta ár hafi verið eins og best verður á kosið.

Ég verð duglegri að blogga og kvitta á næstunni elsku bloggvinir mínir.

Góðar stundir og gleðilega hátíð. Heart


Afmæli, rafmagnsleysi og fjör.....

Hér er búið að vera fjör og ekki fjarri að það hafi skapast sérstök stemmning í afmælisveislu litla kúts. Varð hann allra 7 ára í dag og vildi halda veislu í fyrsta skiptið síðan hann var lítill. Í fyrra fannst honum afmælisveislur bara leiðinlegar og neitaði að halda slíka og faldi fyrir mömmu sinni boðskortin sem hann fékk þó, í afmæli vina og bekkjarfélaga.

Í haust skipti hann um skoðun. Bað svo fallega að fá að halda veislu og mætti í allavega tvö afmæli önnur sem honum var boðið í. Mér fannst svo mikið til koma að auðvitað kom ekki annað til greina en að halda upp á afmælið hans. Ég var bara fegin að sjá breytinguna á viðhorfinu hjá honum. Hann var búinn að úthugsa alla veisluna. Bjó til gestalista, með heimilisföngum og símanúmerum, einn og sjálfur, svo boðskortin, umslögin og allt. Mörgum sinnum. Hann var búinn að mála piparkökur í massavís fyrir afmælið og gera allar kúnstarinnar reglur til undirbúnings á veisluhöldunum. Mínum dreng hlakkaði mikið til. InLove

Svo loksins rann dagurinn upp. Búið var að dekka borð, og undirbúa allt sem hægt var fyrir komuna hans heim úr skólanum seinnipartinn. Allt nema blöðrur, ég er með ofnæmi fyrir þeim og hann hefur skilning á því. En það var búið að fjárfesta í DVD mynd, og tölvuleik og ýmislegt fleira. Krakkarnir mættu öll á réttum tíma og veislan byrjaði vel. Hér var fjör!

Ég var að leggja lokahönd á tölvupóst sem ég nauðsynlega þurfti að senda fyrir kl. 18, til Englands, og akkúrat þegar ég var að setja inn undirskriftina og átti bara eftir að ýta á "send" fór rafmagnið!

Hér var kolniðamyrkur og enginn sá neitt. Engin vasaljós voru tiltæk og allir krakkarnir frusu. Þotið var með ljósið frá einum farsíma að rafmagnstöflunni en ekki vantaði að slá neinum takka inn aftur. Rafmagnið var farið af öllu hverfinu!

Lítil stúlka byrjaði að kjökra smá og ég heyrði í krökkunum reyna að færa sig án þess að sjá neitt. Ég fikraði mig áfram að kertaskúffunni og náði í eins mörg kerti og ég fann. Öll jólagjafakertin sem ég hef fengið í gegn um árin, ásamt fermingarkertum sonanna eldri og föndurkertið frá litla kút af leikskólanum, komu að góðum notum núna. Næsta hálftímann eyddi ég í að kveikja á kertum út um víðan völl í húsinu, ásamt því að panta pizzuveislu því ekki var hægt að elda neitt eða hita. Svo fór ég að sækja pizzurnar. Hér voru semsagt snæddar pizzur, kökur og gos við kertaljós. Engin tónlist, ekkert DVD, enginn tölvuleikur, ekkert af því sem búið var að undirbúa gat verið í boði. Krakkarnir gerðu gott úr hlutunum, þetta var sko "spooky" afmæli! Úúuúú, fjör í myrkrinu og upphófust draugaleikir og læti, þar til litlu stúlkunni var ekki lengur skemmt.

Nú voru góð ráð dýr og eins gott að vera með "plan B" ef afmælið ætti að endast til kl. 20 eins og gert hafði verið ráð fyrir. Sem betur fer átti ég fullt af hálfnotuðum túpum með lituðu glassúr og nóg af piparkökum. Litli kútur var duglegur að byrja á nýjum pökkum af þessu, í jóla og afmælisföndrinu sínu. Hér voru semsagt málaðar piparkökur í restina og fengu allir sínar kökur með sér heim, södd, sæl og reynslunni ríkari rafmagnsleysinu.

Þetta var góður dagur, þrátt fyrir allt og litli minn fór sæll að sofa áðan í von um að jólasveinninn fari ekki framhjá húsinu okkar án þess að sjá að hann væri heima, og sofandi InLove Setti inn bréf til sveinka og bað um fullt af nammi! Stúfur varð að sjálfsögðu við þeirri bón og skrifaði honum hamingjuóskir til baka, á sinn hátt eins og honum er einum lagið. Wink

Rafmagnið komst á núna bara fyrir 20 mínútum. Tölvupósturinn minn sem ég var lengi að semja, týndur og tröllum gefinn. Á morgun kemur nýr dagur

Góða nóttSleeping

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 34035

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband