Færsluflokkur: Bloggar

Það er hollt að láta sig dreyma...........

belize7 Ég er búin að vera lasin og hef verið of slöpp til að gera nokkurn skapaðan hlut til undirbúnings á jólunum. Þá er gott að láta sig dreyma um eitthvað allt annað, eða er það ekki?

Nú langar mig til að fara til Belize! Þar á að vera ódýrt að lifa, hægt að fá ódýrt húsnæði, veðrið indælt allan ársins hring, þ.e.a.s. þegar ekki geysa hitabeltisstormar og fellibylir. Og þar fram eftir götunum. Ég skoðaði margt sem ég fann á netinu í nótt, þar sem ég gat ekki sofið vegna hósta, hnerra og snýtingum. Þegar líðanin er svona, þá er kannski ekkert skrítið að manni langi að fara á hlýrri slóðir. Hversu óraunhæft sem það kann að vera. Eitt má þó Belize eiga. Þetta er skattfrelsisparadís skilst mér. Hvernig sem það á að skiljast. Þetta er enskumælandi land, (gott fyrir mig), með tæplega 300.000 íbúa og nóg af landi. Við nánari eftirgrennslan þá er hægt að kaupa sér byggingalóð á spottprís. Við enn nánari eftirgrennslan þá er líka hægt að nánast fá lóðina gefins frá ríkinu, þ.e.a.s. ef maður kann á kerfið. En stefnan er hjá þessu ríki að bjóða upp á aðlaðandi umhverfi til að setjast í helgan stein, svona eins og á Spáni og fleiri stöðum. Eins líka er stefnan að varðveita náttúruperlurnar þarna, og þær eru margar. Belíze hefur upp á margt að bjóða, allt frá köfun í kóralrifinu, fiskveiðum, skoða fornar rústir Maya, og svo margt að ég kann ekki að telja það allt upp.

Já, mig langar til að skreppa aðeins þangað, svona fram í júní eða svo og hlýja mér í kroppunum og svona......... Já, það væri draumur að geta haft efni á því að eiga "sumarbústað" eða "vetrarbústað" í hlýju landi þar sem þægilegt og ódýrt er að vera...........Já, það er hollt að láta sig dreyma.

Nú fer ég að lagast aðeins, vona ég, og þá fer ég að detta niður á jörðina og fara að undirbúa fyrir vikuna, afmæli er það víst í þessari viku, og svo jólin...........

Jólin á Íslandi!  


Bland í poka færsla...........

100_0715 (Small)100_0724 (Small)100_0714 (Small)

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég stóðst ekki mátið og smellti af myndum áðan af hvolpunum. Fyrsta myndin er af Agnarögninni og Stóra bróður hennar honum Bioko. Hún virðist ekki svo mikið minni en hann á myndinni, en hún er útteygð og hann í hnipri. Hann var 342 gr áðan en hún 188, komin rétt rúmlega í fæðingarþyngd hans. En hún dafnar og það á eðlilegan hátt og ég er svo þakklát fyrir það. Ég þarf ekki enn sem komið er að berjast fyrir lífi hennar, gefa henni pela eða neitt. Krossum putta, loppur og tær um að það haldist. Hinar myndirnar eru af Barbados og ég held henni Balí. Ég ætla að hlífa ykkur við fleiri myndum í bili, þar sem það er ekkert í raun að sjá enn sem komið er. Augu og eyru enn lokuð, ekkert í raun komið í ljós.

En.... ég verð að viðurkenna það að þetta er gaman. Það verður fjör hér um jólin, svo mikið er víst.

Það er samt voða margt sem er að brjótast um innra með mér þessa dagana. Kjör öryrkja þar efst á baugi, en ég á of mikla reynslu finnst mér af þesskonar lífi og lífsstíl sem öryrkjum er þröngvað til að lifa. Bæði ég sjálf og svo mínir nánustu ættingjar og nefni ég þar engin nöfn. Ég vil þó segja eitt. Það er virkilega erfitt fyrir marga öryrkja að hafa nokkuð sem heitir sjálfsvirðingu og gott sjálfsmat. Þegar baráttan fyrir lífinu er svo brött og allsstaðar skorið við nögl gagnvart því, í ofanálag við að berjast í bökkum við veikindin sem valda þessari stéttarstöðu, þá er ekki mikið eftir til að njóta, því miður. Svo er akkúrat núna verið að skerða enn og aftur kjör þessa hóps. Korter í jól! Hvar er jólaandinn þar? Ég vona svo sannarlega að tekjutengingin verði afnumin, en fæ samt hnút í magann með áhyggjur um hvað þeir taka til bragðs þá, til að taka það til baka. Mín reynsla er nefnilega sú að ef einhver hækkun fæst í gegn, þá dettur út eða þrengist eitthvað annað í staðinn og þar með er búið að taka hækkunina til baka. Þetta er oftast ekki raunveruleg hækkun þegar upp er staðið.

Æ, kannski hefur flensan bara neikvæð áhrif á mig, ég veit ekki. Er allavega að fyllast af kvefi og hálsbólgu, höfuðverk og beinverki. Ég slepp sennilega ekki lengur við þessa flensu........en hún batnar á endanum.  

En nóg um vol og væl. Ég ætla allavegana að gera mitt besta til að mínu fólki líði vel um jólin. Nú fer ég að komast í jólastuð, vildi bara óska þess að ég hefði aukamánuð til að undirbúa....ég er allt of bundin þessa dagana....en úr þessu rætist og jólin munu mæta á réttum tíma svo mikið er víst.

Góðar stundir Smile


Hvolpafréttir........

sauda (Small)sauda2 (Small) Ég fæ barasta krúttkast!!! Litla daman hún Sauda er hér að prýða þessar myndir sem ég fékk sendar í dag. Hún er svo fín og mér finnst svo gaman að sjá hvað hún dafnar vel. InLove Já það er ekki laust við að ömmustoltið sé búið að taka góðan kipp núna. Það liggur við að mig langi til að fara að raka og reyta hana sjálf bara, fá að taka í.

En það er að frétta af hvolpunum hinum í dag að þau blása út. Stærri hvolparnir eru búnir að bæta á sig í kring um 100 gr. frá fæðingarþyngd, en Agnarögnin rétt rúmlega 50 gr. Ég er ekki enn sannfærð um að hún sé komin yfir það versta. En hún er bara agnarsmá, það virðist ekkert annað ama að henni, er rétt byggð og sýgur spena eins og hún eigi lífið að leysa. En hún er bara helmingi minni en þau hin og er ekki enn búin að ná þeim áfanga að verða jafnþung og næst minnstu bræður sínir við fæðingu. Þannig að gjörgæslan heldur áfram enn um sinn.......... 

En, það er kominn snjór úti, gaman að því. Kannski er von um að jólin verði hvít þetta árið? 


Hvað er hægt að gera við svona???

Vitið þið það, ég er alveg búin að fá mig fullsadda af svikurum á netinu. Það líður varla sá dagur að ég fái ekki póst með hamingjuóskum og tilkynningu um að ég hafi unnið xxx hundruð þúsund evrur í lottói sem ég tók aldrei þátt í. Samkvæmt þeim fjölda sem ég hef fengið ætti Björgólfur varla roð við mér í ríkidæmi, svo mikið er víst!

Svo koma hin skilaboðin, til að bjóða manni að gerast meðsek um að svíkja og pretta fé út úr bönkum eða stofnunum, fé sem enginn á lengur tilkall til og þessar stofnanir munu bara hertaka og eyða að vild. Núna áðan gekk annað slíkt bréf alveg fram af mér!! Lögfræðingur í Nígeríu ætlar að ljúga því að mér að forríkur íslendingur, sem átti byggingafyrirtæki í Nígeríu, hafi látist ásamt allri fjölskyldu sinni í Tsunami fyrir nokkrum árum. Að hann hafi átt 18 milljón dollara í banka þarna og hann gengur svo langt að bjóða mér að þykjast vera ættingi hans og eiga þar með tilkall til fésins!! Ekki stígur þessum manni í vitið, svo mikið er víst! Hvað mynduð þið gera við svona krimma? Er eitthvað hægt að gera? Þetta er bréfið sem ég fékk:

MORGAN  CHAMBERS
ATTORNEY AT LAW,BARRISTER&SOLICITOR
HEAD OFFICE: 2, , CLOSE, HOUSE ,
FESTAC TOWN LAGOS  NIGERIA
PRIVATE EMAIL: xxxxx@xxxxx.xx
Tel:+xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx
       
ATTENTION:
 
BEFORE I START, I MUST FIRST APOLOGIZE FOR THIS MAIL TO YOU.I AM AWARE THAT THIS IS CERTAINLY AN UNCONVENTIONAL APPROACH TO STARTING A RELATIONSHIP,BUT AS TIME GOES ON YOU WILL REALIZE THE NEED FOR MY ACTION.
 
MY NAME IS BARRISTER MORGAN IBEKWEORU,A SOLICITOR AND THE PERSONAL ATTORNEY TO A CITIZEN OF YOUR COUNTRY,WHO OWNS A CONSTRUCTION COMPANY IN NIGERIA.HERE IN AFTER REFERRED TO AS MY CLIENT. ON THE 26TH OF DECEMBER 2004,MY CLIENT,HIS WIFE AND THEIR TWO CHILDREN WERE INVOLVED IN THE TSUNAMI ASIA DISASTER. MY CLIENT AND HIS ENTIRE FAMILY UNFORTUNATELY LOST THEIR LIVES IN THE DISASTER.
 
 
SINCE THEN I HAVE MADE SEVERAL ENQUIRIES TO YOUR EMBASSY TO LOCATE ANY OF MY CLIENT'S EXTENDED RELATIVES, WHICH HAS PROVED ABORTIVE AFTER THESE SEVERAL UNSUCESSFUL ATTEMPTS.MY MAIN REASON FOR CONTACTINGYOU IS TO ASSIST ME IN REPATRIATING THE MONEY AND PROPERTY LEFT BEHIND BY MY CLIENT BEFORE THEY ARE CONFISCATED OR DECLARED UNSERVICEABLEBY THE BANK WHERE THE FUNDS REDEPOSITED/LODGED PARTICULARLY, THE GULF BANK OF (NIG) PLC.
 
WHERE THE DECEASED HAS AN ACCOUNT WITH AN APPROXIMATE SUM OF EIGHTEEN MILLION UNITED STATES DOLLARS. THE SAID BANK HAS ISSUED ME A FINAL NOTICE TO PROVIDE THE NEXT OF KIN OF MY CLIENT OR THEY WILL BE LEFT WITH NO OTHER CHOICE THAN TO CONFISCATE HIS FUNDS, A COPY OF THE SAID NOTICE I WILL FAX TO YOU ON GETTING YOUR REPLY.
 
SINCE I HAVE BEEN UNSUCCESSFUL IN LOCATING MY CLIENT'S RELATIVES FOR THE PAST TWO YEARS AND SIX MONTHS, NOW I SEEK YOUR CONSENT TO PRESENT YOU AS THE NEXT OF KIN OF MY CLIENT TO THE BANK, GOING BY THE FACT THAT BOTH OF YOU HAS THE SAME NATIONALITY, SO THAT THE SAID FUNDS AS STATED ABOVE I.E, THE SUM OF EIGHTEEN MILLION UNITED STATES DOLLARS CAN BE PAID TO YOU INSTEAD OF LEAVING IT FOR GULF BANK OF (NIG) PLC. WE CAN TAKE PART OF IT AND LEAVE THE REST TO CHARITY.
 
I HAVE THE NECESSARY LEGAL DOCUMENTS THAT CAN BE USED TO BACK UP ANY CLAIM WE MAY MAKE.ALL I REQUIRE IS YOUR HONEST COOPERATION TO ENABLE US SEE THIS ARRANGMENT THROUGH I GUARANTEE THAT THIS WILL BE EXECUTED UNDER ALEGITIMATE ARRANGEMENT THAT WILL PROTECT YOU FROM ANY BREACH OF THE LAW.
 
PLEASE KINDLY REPLY THROUGH THIS PRIVATE EMAIL ADDRESS: xxxxxxxxxx@xxxxxxxxxxx.xx
FINALLY KINDLY GIVE ME YOUR CONFIDENTAIL PHONE/FAX NUMBERS SO THAT I CAN FAX TO YOU ALL THE CORRESPONDENCE BETWEEN THE BANK AND ME.
 
BEST REGARDS,
 
BARRISTER MORGAN IBEKWEORU (ESQ)


X-Complaints-To: webmaster@all-inclusive-webspace.de
X-Abuse-Info: Please be sure to include ALL headers! Otherwise we
X-Abuse-Info: will be unable to process your complaint properly
X-Abuse-Info: and in a timely manner!
X-OriginID: web27


Smá uppfærsla og myndir

100_0663 (Small)100_0711 (Small) Bara nokkrar hvolpamyndir og smá uppfærsla af fréttum af þeim. Fyrri myndin er af Agnarögninni, svo dugleg að sjúga spena hjá mömmu sinni. Hún er búin að bæta á sig heilum 12 grömmum ofan á fæðingarþyngdina (þau léttast oftast fyrst). Þannig að ég er vonbetri með að koma henni á legg. Að vísu eru þessi 12 grömm bara pínulítið miðað við hversu hratt hin þyngjast. En daman mun heita "Belize Bíbí Ögn" í ættbók. Ég kalla hana óvart Agnarögn.

Hinir heita: Bad to the Bone Bioko - fyrsti rakkinn.

Barbados - rakki nr. 2

Borneo - rakki nr. 3

Svo kom Belize í röðinni og að lokum systir hennar hún Balí Blaka.  

Ég er með Agnarögnina í gjörgæslu enn sem komið er, hef lítið getað sofið eða hvílst, en þetta er allt þess virði á endanum. Jæja, ég er farin að lúlla smá fyrir kvöld önnina.Sleeping


Fjölgun og fjör ;o)

100_0661 (Small)Texas

 

 

 

 

 

 

 

 

Jæja, þá er stóri dagurinn runninn upp. Svartskeggs Cheerios, eða Chiquita eignaðist í dag 5 hvolpa! Mömmunni heilsast vel og hvolpunum líka. Ég hef að vísu pínu áhyggjur af minnstu tíkinni, en hún fæddist langt um léttari en systkini sín. Samt sýgur hún spena vel og ég vona að ég nái henni á legg. Fyrst fæddust 3 rakkar, allir nánast í einni salibunu, bara cirka 10 mínútur á milli, síðan fæddist sú minnsta rúmum hálftíma á eftir þeim, og loks stóra systir hennar rúmum klukkutíma seinna. Tók þetta ekki nema rétt rúma tvo tíma samt.

Ég er ekki alveg viss um að allt sé búið enn, en Chiquita hefur fengið einstaka samdrátt síðan, en ekkert alvarlegt samt. Hún er búin að fá rjóma, vatn, mat, og fara út að pissa. Virðist eldhress og er svaka góð mamma. 

Afríka er búin að hanga fyrir utan herbergisdyrnar og væla stöku sinnum í allan dag, í von um að fá að kíkja inn. En Chiquita er sko ekkert á því að leyfa henni það, og við erum ekkert að ýta því að henni. Best að leyfa henni bara að fá að vera í friði með sína hvolpa.

Ég setti inn mynd af nýbökuðu mömmunni og svo líka af pabbanum, honum SUCH Gloris Super Lamigras Man.

Ég hef ekki haft tíma til að blogga eða kommenta undanfarið, en vonandi hægist um og að ég nái að bæta úr því á næstu vikum.

Hafið það gott elskurnar og gangi ykkur vel í vikunni sem er að byrja. 

P.S. Systir mín er búin að finna heimili fyrir 3 kisur, en vantar fleiri. Búið er að taka 6 fressi í ófrjósemisaðgerð, en ein læðan er kettlingafull og varð því að fresta hennar aðgerð enn um sinn. Ég vona svo innilega að góð heimili finnist fyrir alla kettlingana, því annars er þetta allt unnið fyrir gíg, ég efast um að við getum látið gelda um 10 ketti í viðbót. Er ekki málið bara "Kisa fyrir jólin" fyrir alla dýraunnendur sem vantar félagsskap? 


Langar ykkur í???

100_0628 (Small)100_0629 (Small)100_0630 (Small)100_0631 (Small)100_0632 (Small)100_0635 (Small)100_0634 (Small)100_0636 (Small)100_0638 (Small)100_0640 (Small)

Mig langar til að hjálpa systur minni aðeins, í þeim vanda sem hún er að reyna að eiga við þessa dagana. Málið er að hún er kisukona mikil. Er hún búin að vera að bjarga kisum smátt og smátt í langan tíma núna. Nú er svo komið að kisurnar eru að fjölga sér, ört, og er það orðið vandamál. Hún er að leita að góðum heimilum fyrir um 10+ kisur, og er nokkuð brýnt að þau fari að finnast.

Til stendur að fara með "heimiliskisurnar" allar í ófrjósemisaðgerð núna á næstu dögum, en vandinn stoppar ekki þar, ef ekki finnast heimili fyrir alla kettlingana sem komnir eru nú þegar.

Mig langar rosalega til að hjálpa henni að ná tökum á þessum vanda, þar sem hún er öryrki, og ofur góð manneskja sem má ekki vita um neitt aumt. Þetta eru þung spor fyrir hana að þurfa að taka. En ég er samt viss um að léttirinn á heimilinu verður mikill þegar af er staðið. Hún getur alls ekki alið önn fyrir öllum þessum kisum, og lífsgæði kattanna og fjölskyldunnar er ekki mikils virði á meðan þessi fjöldi er á heimilinu.

Kæru vinir, ef þið vitið um einhvern sem langar í, eða veit um einhvern sem vill lítinn gleðigjafa endilega hafið samband. Netfangið mitt er: bjarndis@eldamennska.is og hennar er: rosam@heimsnet.is

Myndirnar eru af kisum sem vantar ný heimili. Allar eru þær innikisur, þó að það má eflaust breyta því líka.  Þær eru kassavanar og kelnar og að sjálfsögðu gefins á góð heimili.

Með fyrirfram þökkum um góðar viðtökur.

Góðar stundir 


Afkvæmamont....

IMG_4230DSC04133DSC04120IMG_4278Ég bara varð að setja inn nokkrar myndir sem ég var að fá sendar, af henni African Sauda, sem er undan Svala og Afríku. Það er ekkert smá sem daman hefur stækkað, líkist mömmu sinni meir og meir og er öll að verða snásalegri. Augabrúnir og skegg komin kyrfilega á sinn stað. InLove

Finnst ykkur hún ekki vera sjarmatröll?


Stundum þarf maður hjálparhönd......

z-c07-10-m Já, það er sannarlega gott að eiga góða vini stundum. Gærdagurinn var frekar annasamur og þurfti ég að hjálpa til í vinnunni um daginn, en átti að mæta á jólahlaðborð um kvöldið.

Jólahlaðborð eru tilefni til kvíða hjá mér. Ég er svo hryllilega fötluð þegar að það snýr að fatavali, að máta og versla föt og bara líða vel innan um vel klætt, uppbúið, annað fólk. Ég er nefnilega ein af þeim sem ekki uppfylla hið staðlaða kven, líkamsform sem flestar tískuvöruverslanir miða við í innkaupum. Ég er bæði lágvaxin og þétt, með líkamsburði konu sem er kannski ekki alveg akfeit, en hefur átt nokkur stykki börn og er með greinilega skilgreiningu á "svuntu" fyrir þá sem þekkja til í lýtalækninga mállýsku.

Ekki svo að skilja að ég vilji kenna tískuvöruverslunum um, langt því frá. En ég er bara haldin nánast ólæknandi hatri á því að reyna að finna föt sem klæða mig vel, þurfa að máta og horfa á sjálfa mig í stórum spegli í umræddum verslunum. Ekki hjálpar þegar upplifunin hefur svo oft verið á þann veginn að afgreiðslufólkið í mörgum verslunum gátu lítið sem ekkert hjálpað mér, og var bara fegið þegar ég gafst upp og fór bara. Enda oft orðin verulega pirruð og önug í viðmóti. Ég verð nefnilega þreytt á því að horft er á mig með tómlegum svip og sagt: "Því miður, við höfum bara ekki föt fyrir manneskju eins og þig" eða  "hér erum við bara ekki með svona stærðir, hefuru prófað að fara í Stórar stelpur?"

En ég er svo lánsöm að eiga að góða vinkonu, sem hefur bara gaman af því hvernig ég bregst við þegar kemur að því að máta föt. Hún lenti nefnilega í því að fara að versla með mér úti í Bandaríkjunum snemma þessa árs. Við urðum að kaupa kjóla fyrir svaka stórt gala kvöld vegna vinnunnar okkar þar. Merkilegur atburður, en kjólakaup, ekki alveg það skemmtilegasta fyrir mig!! Þessi vinkona mín var þolinmóð og arkaði með mér inn í hverja búðina á fætur annari, dró fram kjóla og rak mig í mátunarklefa, og kom þar með kjóla á færibandi, alveg þangað til að ég sætti mig við einn, og við náðum að afgreiða málið á einum eftirmiðdegi. Ef ég hefði verið ein um þetta hefði það tekið óratíma og ég hefði sennilega mætt á galakvöldið í jogging gallanum!! 

Í gær var semsagt jólahlaðborð. Ég hef ekki keypt mér jólaföt í mörg ár. Í fyrra þegar ég fór á slíkt hlaðborð var ég í eldgömlum, allt of stórum, hallærislegum kjól sem ég hafði keypt í Hagkaup löngu fyrir síðustu aldamót. Mér hafði ekki liðið vel þá og vissi upp á mig skömmina í gær að ég væri búin að humma fram af mér að leggja það á mig að leita að jólafötunum í ár. Notaði hverja afsökunina við sjálfa mig sem ég gat, til að forðast verkið. Sú vinsælasta er kostnaðurinn, einhvernveginn er alveg ómögulegt að eyða einhverri summu í sjálfa mig. Ég veit, ég er týpísk!

Sama umrædda vinkona mín stakk upp á því í skyndi að við myndum kíkja saman í eina verslun, sem er með sama nafn og visst kvikmyndaframleiðslufyrirtæki hérlendis. Finna þessi jólaföt bara. Ég sló til, enda hafði ég nánast engan tíma til að reyna á þetta ein og sjálf, miðað við fyrri reynslu. Hún fór á kostum í búðinni, reytti af sér brandara, rak mig í mátunarklefann og byrjaði að skipa mér að máta þetta og hitt. N.B. hún kemur alltaf með föt sem mér dytti aldrei til hugar að máta sjálf. Ég náði að máta 3 flíkur og þá var jólabúningurinn fundinn! Voila, ekki mikið mál.

Svo rak hún mig í Lífstykkjabúðina að kaupa mér "Body Wrap" undirföt. Ég hlýddi að sjálfsögðu og viti menn, ég leit út eins og dama í gærkvöldi, fötin voru glæsileg, mér leið eins og konu sem var með á nótunum og aldrei þessu vant, ekki eins og rúllupylsu í alltof þröngum fötum. Voru þetta bestu ráð sem ég hef fengið lengi lengi.

Takk elsku vinkona, þú veist sjálf hver þú ert. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir hjálpina, og stuðninginn. Knús frá mér Heart

Jólahlaðborðið var virkilega skemmtilegt. Ég fór södd og sæl að sofa í nótt.

Nú er jólafílíngurinn að eflast hjá mér.

Góðar stundir. 


Ólétta og lóðarí, ferðalög og matur............

_MG_8100-23Já, nú er allt að ske í hundamálunum hjá mér þessa dagana. Chiquita er svo agalega ólétt, að ég hef áhyggjur af því að hún springi hreinlega ekki áður en að gotinu kemur. Ég fór með hana í gær til dýralæknis í tékk og við gerðum tilraun til að röntgen mynda dömuna, en ekkert sást ennþá. Við verðum víst að endurtaka leikinn í næstu viku, ef ætlunin er að telja hvolpana.

Afríka byrjaði líka að lóða, og fór ég líka með hana til dýra, til að láta taka strok og athuga hvar hún er stödd í tíðahringnum. Síðast misstum við af hápunktinum og mesta mildin var að við fengum einn hvolp samt. Þannig að núna á að styðja sig við læknavísindin líka til að reyna að láta pörun við Svala heppnast. Nú er síðasti sjéns að fá Risa Schnauzer got undan þeim tveim, þar sem Svali er svo að fara út til Úkraínu aftur fyrir jól. Ræktandinn hans vill fá hann til baka og ég er alveg til í það, þar sem ég ætlaði mér aldrei að eiga bæði rakka og tík hvort eð er. Hlutirnir atvikuðust bara svona. Eins ætlaði ég aldrei að fá meira en eitt got undan Afríku, og þó að einn hvolpur hafi komið síðast, þá ætla ég líka að standa bara við það. Nóg að gera í þessum málum, svei mér þá!!

Elsti strákurinn minn er kominn í sama gamla farið sitt. Stundar hvorki skóla né vinnu og sefur lungann úr sólarhringnum. Ég er að leita dyrum og dyngjum að vinnu fyrir hann þessa dagana, er búin að fá nóg af þessu. Hann segist líka vilja vinna, en vantar áræðnina til að fara á staðina og sækja um. Heldur að þetta komi bara af netinu. Stundum held ég að hann átti sig ekki á því að hann búi á Íslandi, hér þarf að tala persónulega við mann og annan og kannski á hann mág eða frænda sem vantar einhvern vikapilt sér til aðstoðar, eða eitthvað þvíumlíkt. Hann fær sennilegast ekki draumastarfið af því að hanga á netinu, svo mikið er víst. Þó vildi ég óska þess að hann fengi eitthvað svar við þeim umsóknum sem hann hefur sent frá sér í tölvunni, en allt kemur fyrir ekki....

Miðjugaurinn minn er loksins búinn að fá fermingargjöfina sína frá mér. Þessi elska er búinn að bíða þolinmóður í 7 mánuði eftir því að fá hana. En það var ekki hægt fjárhagslega fyrr en núna að gefa honum draumagjöfina. Fékk hann leikjatölvu að eigin vali og er alsæll. Verst er að hann fer of seint að sofa og hefur nokkrum sinnum mætt of seint í skólann undanfarið, fyrir vikið. Ég er búin að setja honum tímamörk og hóta að ef hann heldur áfram að sofa yfir sig, þá taki ég tölvuna af honum á kvöldin. Ég veit heldur ekki hvernig gengur með "kærustuna" síðan hann fékk tölvuna, þar sem hann er búinn að draga úr því að fara út að hitta vini sína og hana líka, síðan tölvan kom. Annars er stráksi búinn að vera að standa sig vel. Er hjálpsamur og kátur og duglegur líka.

Litli sjálfstæðismaðurinn minn er alltaf samur við sig. Hann er búinn að ákveða það að fá að halda afmælisveislu þegar hann verður 7 ára í næsta mánuði. Síðastliðna viku er hann búinn að skrifa gestalista, búa til nokkur boðskort, búa til umslög og í kvöld sat hann og dundaði sér við að skreyta piparkökur. Hann er búinn með fullan stamp af piparkökum og þá meina ég að skreyta og nánast borða þær allar einn og sjálfur! Ég er voða ánægð með að hann vilji halda veisluna, þar sem hann neitaði því í fyrra. Þá fannst honum afmæli vera leiðinleg og vildi ekki fara í aðrar veislur heldur þó að honum væri boðið. Sem betur fer er hann búinn að skipta um skoðun, þó að hann megi alls ekki heyra á það minnst að bjóða öllum bekknum, eða bara strákunum í bekknum sínum. Hann vill bara 6 vini, og búið. Fæstir af þeim eru með honum í bekk eða skóla. Ég held ég reyni ekki að stjórna þessu fyrir hann. Mér finnst þetta skref vera alveg nógu stórt eins og komið er.

Nóg er búið að vera að gera hjá mér. Marathonið mitt heppnaðist bara með ágætum í október og ég þarf samt að reyna að halda dampi enn sem komið er. Svo eru jólin að koma og ég er svo ánægð með að við séum búin að kveikja á útiljósaseríunni sem hangir utan á húsinu mínu. Það er svo notaleg tilfinning að keyra að húsinu í myrkrinu og ekki laust við að jólafílíngurinn sé að komast í gang svona innra með mér. Í kvöld eldaði ég ljúffengt innralæri í pottunum mínum góðu, gerði kartöflugratín, léttsauð brokkolí og var með blandað salat líka. Bakaði upp góða sósu og svei mér þá ef þetta hafi ekki bara verið nógu gott eins og jólasteik! Hér borðuðu allir með bestu lyst og mér finnst það bara gaman að sjá alla smjatta og segja mmmmm. Meira að segja matvandi gelgjugrísinn sagði að þetta hafi verið gott.

Jæja best að halda áfram. Sjáumst á blogginu.......Kissing


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband