Færsluflokkur: Bloggar
16.8.2007 | 21:53
Allt á floti allsstaðar......
Já, því er ekki að neita að dagurinn hjá mér hefur verið svolítið vatnskenndur, svei mér þá. Ég var búin að ákveða að nýta mér ferð til RVK til fullnustu, þar sem ég átti tíma hjá tannlækni í tékk. (Tennur heilar og fínar ekkert vandamál þar) Fara í Rúmfó og kaupa nógu stórt fat til að marinera eins og einn lambaskrokk eða tvo. Þá var að sjálfsögðu útsala og þar sem að ég var búin að ákveða fyrir löngu að kynna Saudu fyrir vatni, og vatnsleikjum skellti ég mér á flotta vaðlaug með fullt af dóti líka. Auðvitað skemmti hún sér vel, eftir að hún komst yfir fyrsta sjokkið. Ég smellti af fullt af flottum myndum af henni, úti í sólinni í volgu vatninu að skemmta sér. Svo þegar ég ætlaði að hlaða myndunum í tölvuna, vantaði minniskubbinn í vélina!!Aaaarrrggghhh! Þó að daman væri dauðþreytt og loksins þurr aftur, þó að vatnið væri löngu orðið kalt, þó að sólin væri að setjast, þá skellti ég kubbinum í vélina og tók nokkrar myndir, bara til að marka daginn. Ég sleppti því samt að láta hana út í vatnið í það sinnið. En ég bara varð að eiga myndir af þessu síðan í dag, til að marka daginn. Verst að næst verður ekki "fyrsta skiptið" aftur
Þá er ég búin með gleðifréttirnar. Vinkona mín, sem er nýflutt í næsta hús, er búin að gera það fokhelt, setja allt nýtt, parket, innréttingar, hurðir, flísar og bara bókstaflega allt. Hún hringdi í mig í ofboði í dag. Allt á floti!! Hún hafði brugðið sér frá í 20 mínútur, og þegar hún kom heim var allt húsið á floti!! Sem betur fer með köldu vatni, en samt, það hefði verið hægt að fara í sundföt og synda bara, þetta var svo mikið. Ég var í gsm símanum þegar hún hringdi, að tala við konu sem vildi fá sjötta hundinn, hana Diljá. Ég skellti á konuna, nánast dónalega, hreytti út úr mér eitthvað um neyðarástand í næsta húsi og flýtti mér með vatnssuguna mína yfir til vinkonu minnar. Þar reyndi ég að berjast gegn náttúruöflunum með henni í dágóða stund, slökkviliðið kom með alvöru græjur, vatnssugan mín var bara písl á móti þessu. En núna er allt ónýtt sem búið er að gera, allavega næstum því. Úff, að hugsa sér, að vera búin að gera þetta allt, smotterí eftir, og svo þarf núna að byrja nánast upp á nýtt! Reyndist þetta vera af völdum vatnsæðar sem sprakk og þrýstingurinn frá henni gerði það að verkum að 5 hús á Suðurnesjum fóru á flot!!
Jæja, nú er ég búin í bakinu mínu og tolli ekki lengi fyrir framan skjáinn. Hægri fótur vill ekki hlýða mér og leyfir mér ekki að stíga í sig. Ég verð að fara og fá mér verkjó, á morgun er síðasti undirbúningsdagurinn fyrir veisluna, og vá, ég á nánast allt eftir!! Uss, bara. Hafið það sem best, ég kíki kannski á eftir, þegar lyfin eru farin að virka, ef ekki, þá er ég sofnuð bara. See ya!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.8.2007 | 23:43
Enn og aftur hundadella......
Jæja, þá er mín búin að standa í ströngu síðan í gærkvöldi bara. Ég tók mig til og reytti og snyrti Svala minn niður. Fékk tilheyrandi blöðrur og alles við það. Þreif hér heima í morgun, fór síðan með Svala í fíniseríngu á snyrtistofu og dúllaði mér í mínu framhaldsnámi við að snyrta og reyta Schnauzer hunda. Fór síðan með kappann til fóðuraðilans síns, með tilheyrandi fóðri, taumum, greiðum og bílbelti. Kjaftaði þar í smástund, og lagði af stað heim á leið.
Á leiðinni þurfti ég að koma við í Bónus, og versla í matinn. N.B. í bílnum á leiðinni í bæinn og svo á stofunni og líka á leiðinni heim, stoppaði ekki síminn! Ég dreif mig inn með matinn, skellti skyr, brauð álegg o.fl. á borðið og sagði veskú, og rauk út aftur. Ég var nefnilega búin að gleyma að kaupa eitthvað handa barnsföður mínum í afmælisgjöf. Kauði er nefnilega 45 í dag. Ég út á bensínstöð að kaupa blóm, til að halda andlitinu. Beint heim og þá kom fyrsta heimsókn kvöldsins.
Voru það nýju eigendur Eplisins, nema núna er hún ekki Eplið mitt lengur! Daman er búin að fá svaka flott nafn og er það African Sauda, hvorki meira né minna. Sauda er Swahili fyrir "Dark Beauty" og er vel við hæfi fyrir svarta skeggjaða dömu sem á móður sem heitir Afríka! Ég hefði ekki getað fundið flottara nafn á hana sjálf, þó að ég hafi leitað lengi. Gengið var frá kaupsamningi og allt komið í orden, og verður ekki aftur snúið með það héðan af.
Svo kom önnur heimsókn líka. En í þetta sinnið voru það mæðgur að skoða hana Diljá mína. Verður það mál jafnvel kannað betur á morgun, með hundahittingi og gaman. En eins og áður hefur komið fram, þá er ég að reyna að minnka við mig hundaeign. Þetta er erfitt, en ég hef það af á endanum og ætla að lifa í þeirri trú að ég sé ekki einfær um að eiga, sjá um og ala önn fyrir hundum. Þeir geta alveg haft það gott hjá öðrum líka, þó að ég hafi einu sinni átt þá. En þetta er erfiðasta lexían sem lærist seint. Að treysta öðrum fyrir sínum heittelskuðum.
Kemur í ljós. En ég er hæst ánægð með daginn bara, og vonandi léttir á álaginu á heimilinu í tæka tíð fyrir grillveisluna, og skólann hjá krökkunum í næstu viku. Kominn tími til því undanfarin ár hafa yfirleitt verið 4-5 hundar á heimilinu, og einungis ein tík sem er ekki af risa stórri tegund. Reyndar fer mest fyrir þeirri minnstu, en samt, þetta er vinna og álag sem erfitt er að njóta til fulls, þegar hundarnir yfirgnæfa allt á heimilinu og í lífi manns. Allt er best í hófi, 5 hundar er óhóf, og skal ég alveg viðurkenna það.
En núna er ég þreytt eftir daginn og ætla að fara smá bloggrúnt og svo að sofa. Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.8.2007 | 16:56
Stundum er sjálfstæðinu ofaukið......
Ætli ég hafi ekki verið rifin upp áðan, úr sólbaðinu mínu, við símhringingu! Var þá 6 ára guttinn kominn inn til Keflavíkur í eitthvað skateboardpark þar!! Búinn að fara í strætó og alles í leyfisleysi. Að sjálfsögðu þurfti ég að rjúka á staðinn að sækja kauða, og vin hans á sama aldri. Mamma hans kom með. Við vorum grafalvarlegar við strákana og töluðum yfir hausamótunum á þeim. Þetta mátti sko ekki gera!!!
Svo þegar þeir voru kyrfilega spenntir inni í bíl, stóðum við fyrir utan, snerum í þá baki og reyndum að láta þá ekki sjá að við vorum skellihlæjandi!! Ég nefnilega missti út úr mér að ég hefði gert það sama á þessum aldri, ef því væri að skipta, og hin mamman leit á mig með óborganlegum svip og sagði ámátlega ég líka! Stundum er ekki gott að það sé frítt í strætó, ekki þegar um ævintýragjarna 6 ára gutta er að ræða þ.e.a.s.
Núna eru þeir komnir með það á hreint að það má alls ekki fara í leyfisleysi í strætó. Það bókstaflega verður að spyrja fyrst....
Dagurinn í dag er svona síðasti "afslöppunardagurinn" sem ég mun fá á næstunni. Ég er að skipuleggja 60+ manna grillveislu á laugardaginn og ætlaði að reyna að gera ýmislegt fyrir hana. Guðrún, ég er víst búin að bjóða þér og þínum, og þér er hér með boðið enn og aftur á opinberum vef!!!(Kata hélt að þú vissir þetta ekki) En engin formleg boðskort verða gefin út!
Svo fer ég að huga að vinnunni eftir helgi, verð að fara af stað, þetta gengur ekki til lengdar.
Meira seinna, ef ég nenni, þarf nefnilega núna að fara að reyta hund/a, nóg að stússa.
Hafið það sem allra best!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.8.2007 | 23:51
Tyggjóævintýri......
Þar sem margir hafa verið að fjalla um bernskubrek, langaði mig að leggja smá af mörkum. Vandamálið var bara að ákveða hvaða atriði ég ætti svosem að fjalla um. Þó að ég hafi kannski ekki verið mikill villingur (nema kannski stundum) þá á ég líka svosem misskemmtilegar minningar eins og allir aðrir. En, "here goes": Þegar ég var ca 13 ára var ég með spangir. Ekkert svosem óvenjulegt við það, en ég var með teina í neðri góm og svo svaf ég með góm og beisli í efri. Úff, ég man ennþá kvalirnar við þetta á morgnana! Enginn vissi í rauninni að ég væri með spangir, afþví að það glitti lítið sem ekkert í neðri góminn þegar ég talaði og brosti. En, Baddýju litlu þótti nammi afar gott. Karamellur og tyggjó í fyrsta sæti, eða strax á eftir súkkulaði. Að sjálfsögðu mátti ekki vera með nammi, hvað þá tyggjó í skólanum og alls ekki nokkurn tímann á meðan að munnurinn var prýddur rándýrum spöngum!
Einn daginn var ég í stærðfræðitíma hjá mjög skemmtilegum kennara. Ég var með tyggjó, og var að reyna að tyggja á óáberandi hátt og finna felustaði fyrir tyggjóið, því ekki tímdi ég að henda því. Svo var ég önnum kafin við að reyna að veiða tyggjóræmur úr spöngunum og úps, tungan var allt í einu föst. Mín rauk á salernið og komst að því að tungan var kyrfilega og rækilega krækt í spöngunum og ég gat enganveginn losað hana sjálf. Þetta var hin mesta pína! Að sjálfsögðu henti ég tyggjóinu með því sama og hélt aftur í skólastofuna eins og ekkert væri að. Þá þurftu vinkonur mínar að fara að hvísla að mér einhverri spurningu, og ég gat ekki svarað þeim. Þær litu á mig forviða og ég sá það að eina ráðið til að þagga niður í þeim, væri að sýna þeim bara tunguna í spöngunum. Þær gátu ekki annað en skellt upp úr, og þar með draga að athyglina frá kennaranum! Kennarinn spurði hvað væri eiginlega svona fyndið og vinkonur mínar gátu ekki talað fyrir hlátri, þær flissuðu bara og bentu á mig. Ég náttúrulega blóðroðnaði og reyndi að svara fyrir mig, é feþþi túguna í þböguuum. Ha? hvað segiru, sagði kennarinn. " é feþþi túguna í þböguuum" reyndi ég að segja, og enn var hann með spurningarmerki á andlitinu. Einu sinni enn reyndi ég að segja þetta en kom varla upp hljóði sem greinanlegt væri sem orð, þannig að á endanum stóð ég upp og gekk alveg upp að kennaranum sem var svo steinhissa að svipurinn á honum var óborganlegur. Svo sýndi ég honum tunguna og sagði: "é feþþi túguna í þböguuum"! Það skipti engum togum en að kennarinn sprakk líka úr hlátri og það kveikti ennþá meira upp í vinkonum mínum sem bókstaflega grenjuðu og pissuðu á sig í horninu á skólastofunni. Ég stóð þarna, blóðrauð í framan og leit yfir bekkinn sem var líka farinn að hlæja án þess að vita afhverju. En hlátur er óneitanlega smitandi.
Ég var send með því sama yfir til tannlæknisins, sem var með stofu í skólanum þarna, en hann var nýfarinn heim. Þá var ég send á skrifstofuna til að láta senda mig með leigubíl til skólatannlæknanna sem voru í þá daga í heilsuverndarstöðinni við Barónstíg. En þegar ég kom á skrifstofuna, gat ritarinn ekki skilið mig og hringdi í kennarann í tíma. Úr varð að vinkona mín ein, var send með mér, til að tala fyrir mig, í leigubíl á stöðina. Það er skemmst frá því að segja að ég fékk mér aldrei tyggjó eða karamellur eftir þetta og forðast ennþá að leggja mér til munns slíkan ófögnuð.
Næstu vikur á eftir þurfti ég að sýna hálfum skólanum að ég væri með spangir! Mér fannst þessi tegund af athygli ekki það skemmtilegasta í heimi.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.8.2007 | 20:11
Það er gott að vera sjálfstæður ungur herramaður.....
Já, það er gott að kunna að bjarga sér, segi ég nú bara. Við fórum í grillstuð í dag, eftir að hafa fengið frábærar fréttir og skemmtilega heimsókn. Við vorum með babyback svínarif og tilheyrandi meðlæti og þegar allir voru að byrja að borða, varð mér litið á litlakút og sprakk úr hlátri. Var ekki kauði búinn að stökkva inn og ná sér í vinyl hanska, til að verða ekki útbíaður af barbeque sósunni!! Ég bara varð að smella af honum einni mynd.
Já, þetta var góður dagur, get ekki sagt annað. Eplið er harðpantað og nú er bara að bíða eftir tímanum, þangað til að hún fer fyrst í heimsókn á nýja heimilið sitt og svo flytur alveg. Þó að nóg sé að gera í millitíðinni, byrja að húsvenja, fá að vita nýja nafnið og byrja að venja hana við það. Láta framkvæma PAT prófið á henni og þar fram eftir götunum. Ég hlakka bara til að takast á við þau verkefni. En ekki tekst mér að ná af henni hliðarmynd, standandi enn. Ég gerði heiðarlega tilraun á pallinum í dag, en um leið og ég smellti af þá settist litla stýrið! Set samt inn nokkrar af henni úti í dag. Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.8.2007 | 18:32
Já, það er gott að.......
.....lúra hjá mömmu sinni!! Mér fannst Eplið okkar svo sæt að kúra hjá Afríku að ég varð bara að smella af henni mynd!
Ekki get ég sagt að það hafi gengið eins vel að stilla dömunni upp og smella einni mynd af henni í sýningarstellingu. Daman var sko ekki að vilja þetta, standa kyrr, ha? Hvað er það? En ég vil ekki gera það! Hér koma nokkrar af því klúðri: Ææææ ekki gekk þetta nógu vel! Gengur bara betur næst. Það má kannski segja frá því að við fengum heimsókn í dag og Eplið er formlega frátekið! Okkur leist ljómandi vel á tilvonandi eigendur hennar og erum bara hæstánægð með daginn. Búin að fara í sólbað úti á palli og alles. Núna ætla ég að elda fisk í tilefni af fiskidögum á Dalvík. Mmmmmje, later
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.8.2007 | 19:58
Góða helgi


Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2007 | 15:19
Kaffæring á hundum!!
Já, ég ætla að kaffæra ykkur núna. Hér koma upplýsingar um alla mína hunda: Þetta er Svartskeggs Cheerios, eða Chiquita mín. Það var ekki nóg að hún væri skírð eftir morgunkorni í ættbók, heldur varð ég að bæta aðeins við og hafa það eftir morgunkorni með banana! Hún er af tegundinni Miniature Schnauzer og er algjört frekjutröll. Hér stjórnar hún og ræður ríkjum ásamt því að vera kelidúkka aldarinnar! Önnur mynd af skvísunni:
En hérna er hún á æfingu hjá sýnandanum sínum. Enda verður hún sýnd í 3ja sinn núna í haust á sýningu hjá HRFÍ. Ætlunin er að para hana kannski einu sinni og þá í vetur og freistast til að rækta undan henni eitt got. Sjáum til.













Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.8.2007 | 21:24
Þá er homminn búinn að fríkka frúnna.........
Nei, segi bara svona, en vinur minn kom í heimsókn í dag og litaði á mér hárið og klippti. Þannig að núna er ég orðin fín frú. Þessi öðlingsdrengur er að vísu hommi, búinn að koma út úr skápnum og ég vona að hann erfi það ekki við mig að nefna það hér á blogginu. Hann er bara svo innilega skemmtilegur með því. Veitir líka þessa frábæru þjónustu, því ekki þurfti ég að fara að heiman á stofu, heldur kom stofan bara til mín! Lúxus bara. Unglingurinn fékk líka klippingu og ég hefði alveg getað látið laga hárið á nokkrum í viðbót hér, ef hann hefði haft tíma þ.e.a.s. Verst að hann kann ekki hundasnyrtingu líka bara!
En jæja, þá er ég orðin húsum hæf aftur, var orðin svoddan lubbulína að það hálfa væri hellingur. Gráu hárin orðin vel falin og ég get farið að líta framan í heiminn aftur.
Ég er líka búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór. En það er leyndó eins og er, og það er ekki hárgreiðslutengt, þó ég gæti svosem alveg lagt fyrir mig hárlengingar.....
Ég saknaði ykkar dúllurnar, þó að ég sé nýbyrjuð að bloggast, þá var bara erfitt að fá ekki að vera í tölvunni mestmegnis af deginum, uss ætli þetta sé ávanabindandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.8.2007 | 14:19
Te tripp til fortíðar....
Eins og margir hafa tekið eftir á eftirnafni mínu, er ég víst blendingur. Pabbi minn er skoti og er ég alin upp á mjög svo breskan hátt, þó ég vilji seint viðurkenna að ég sé ekki íslensk eða haldi ekki í heiðri íslenskri menningu og siði. Aftur á móti hef ég lært að meta hluti líka, sem eru meira breskir, og þar ber að nefna te. Svart, óhollustu, koffeinríkt te, með mjólk og sykri....
En í uppvextinum heima hjá pabba og mömmu, þurfti að halda í suma siði og hefðir sem einkenna t.d. breta. Te, það var í morgunmat, hádegismat, síðdegiskaffi og bara allan daginn. Te býr yfir lækningarmátt alls, er notað við öll tækifæri, yfir skemmtilegu spjalli, við áföll og uppnám, og þegar það þarf að tala alvarlega saman! Það mátti helst ekki vera í pokum, heldur lausate, það þurfti að hita teketilinn fyrst með nýsoðnu vatni og hella því af, rétt áður en teið og vatnið voru sett í hann. Síðan þurfti að bíða í nokkrar mínútur til að teið næði réttum styrkleika. Það mátti ekki nota síu til að taka laufin frá, heldur sukku þau á botninn þegar búið var að hræra sykrinum og mjólkinni saman við. Laufin sátu svo í botninum og vörnuðu því að maður myndi klára hvern dropa, því ekki var gott að fá þau í munninn. Þetta voru vísindi, og ekki mátti flýta fyrir ferlinu á þessu. Te var heilagt! Te var ekki gott, nema bara svona.
Núna er ég þó búin að læra að stytta mér leiðina í þessari tedrykkju, og notast við pokana góðu. Ég á engan teketil sjálf og nenni ekki að reyna að finna lausate í verslunum lengur. Melroses er bara fínt te. Ég verð að viðurkenna að nú til dags drekk ég mun meira kaffi, þó ekki mikið sé en fer í svona nostalgíu ástand þegar ég átta mig á því að mig langar í eins og einn tebolla. Núna sit ég við tölvuna, með tebolla nr. 2 og blogga um það. Uppvaskið liggur óhreyft í vaskinum, allt í drasli á heimilinu, og hér sit ég að blogga með tebollann minn, um tebollann minn og hef mig ekki frá tölvunni....
Skál fyrir því, í tei.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.5.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 34099
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar