Sorg

Mikið svakalega eru þetta sorglegar fréttir sem bárust í dag. Harmleikurinn sem átti sér stað í Rvk í dag, vatt aldeilis upp á sig. Morðið er upplýst og sjálfsvíg að auki. Ömurlegt. Vil ég votta aðstandendum öllum mínar dýpstu samúð. Varð þetta dökkt ský sem hékk yfir deginum, á annars ágætum sunnudegi.

Ný vika er framundan og er stefnan tekin á áframhaldandi rólegheit og notalegheit. Kannski fer ég að huga að því að fara að bóka mig í vinnu, en sé til, hvort ekki sé skynsamlegra að bíða fram yfir verslunarmannahelgina. Eða "Vitlausramannahelgina" því ekki skil ég hvernig fólk nennir að sofa í köldu tjaldi, á harðri kaldri jörðinni, með fullt af drukknu fólki í kring um sig, að eltast við útihátiðir úti um allt. Verslunarfólk fær aldeilis ekki frí í mörgum tilvikum þó að þetta eigi að vera þeirra helgi, þannig að ég hugsa um hana með áðurnefndu nafni. Ég fer ekki fet, frekar en fyrri árin. Börnin mín hafa ekki fengið að venjast svona samkundum og ekki ætla ég að byrja núna. Núna hljóma ég eins og gamaldags sleggjudóma kerling, en mér er slétt sama. Ég nenni ekki að taka þátt í þessu og hef komið mér upp hefð fyrir því að leigja fullt af videóspólum/dvd myndum og horfa á allar myndirnar þessa helgi, sem ég fór ekki á í bíó síðastliðið árið! Ruslmatur, nammi, gos og fullt af myndum í 3 daga er sukkið sem í boði er á mínu heimili. Það versta sem skeður er að höfuðverkurinn verður ekki af völdum áfengisneyslu.

Krakkarnir hafa ekki kvartað hingað til, sakna einskis og finnst þetta vídeósukk vera bara fínt. Allir ánægðir, takmarkinu náð. Það flóknasta sem við gerum, er að grilla, ef veðrið leyfir, en það virðist samt ansi oft sem örlögin komi því þannig fyrir að rigning sé akkúrat þessa helgi, allavega sumsstaðar á landinu, ef ekki því öllu. Ég hef einusinni verið á þjóðhátíð í gúmmístígvélum og í svörtum plast ruslapoka, þegar ég var ung. Nenni því ekki aftur segi það alveg satt. Þrátt fyrir "hlífðarfötin" þá var ég vot inn að naríum og fékk svo slæmt kvef og hita í kjölfarið. Kannski hefur þessi reynsla litað viðhorf mitt til útihátíða um verslunarmannahelgina. 

Ég vona bara að allir sem ætla að leggja land undir fót og skella sér á útihátíð, skemmti sér konunglega stórslysalaust næstu helgi!! Ég verð bara heima.

Góða nótt 


Manni bregður óneitanlega í brún

Þegar maður les fréttirnar með skotárásina í dag! Hvað er í gangi? Reykjavík er orðin stórborg á heimsmælikvarða, líka á neikvæðan hátt. Mér sem leið svo vel í þeirri sjálfsblekkingu að glæpatíðnin væri svo lág og ekki eins "alvarleg" og í öðrum löndum. Mikið er ég fegin að ég bý ekki lengur í Rvk.

Það er hræðilegt að morð skuli vera framið um hábjartan dag á sunnudegi! Nú fer þjóðin að velta sér upp úr og spekúlera út á hvað þetta morð var framið. Ég vona bara að gróusögur og ímyndunaraflið hlaupi ekki með menn í gönur eins og svo oft hefur skeð hér áður.

Fram að þessum lestri var dagurinn minn búinn að vera náðugur, letin alveg að fara með mig. Eplið litla búin að borða máltíð nr. 2 í morgun og braggast vel. Yngsti úti að leika sér, elsti í vinnunni og sá í miðjunni er loksins að vakna til lífsins. Búin að horfa á vikuskammt af nágrönnum og hafa það gott.

Nú er mál að vakna til lífsins og fara að gera eitthvað. Þessi leti færir okkur ekki kvölmatinn á diskinn eða þvær þvottinn okkar fyrir okkur.

Góðar stundir

Ein í sjokki! 


Ekki var það erfitt...

100_0400 100_0402 ....að borða fyrstu máltíðina sína! Já, Eplið fékk sína fyrstu máltíð áðan og kláraði barasta allt saman! Svo kom Afríka og þreif hana vel og vandlega, skálina og bossann og allt! Ég náði samt að smella einni mynd af henni allri útataðri í hvolpamjólk blandaðri niðurmaukuðu hvolpafóðri. InLove Ég bjóst að vísu ekki við að hún myndi klára, enda var um 60-70 ml af þessu sulli í skálinni, en hún tók sig til og kláraði allt og var ekki lengi að því. Vonandi fær hún ekki í magann, sú stutta.

Ekki var heldur erfitt að ákveða kvöldmatinn hér á bæ, heldur voru afgangarnir bara fyrir valinu. Við entumst í rúman klt. úti á palli áður en það var of heitt til að vera þar lengur. Ég fékk bara hausverk svei mér þá. Lagði mig bara! Þvílíkur lúxus að geta bara lagt sig og haft það gott um hábjartan dag. Kannski grillum við bara á morgun í staðinn, eða gerum eitthvað annað við hakkið góða. Það er líka ágætt að treina matinn, svona nálægt mánaðarmótin og svona. Líta bara jákvætt á hlutina, það er hollast. 

Ég bara varð að setja inn myndir af Eplinu í dag, til að marka daginn, hún er svo mikil dúlla að það er engu líkt. Farin að leika, urra og smakka á öllu, braggast alltaf meir og meir. Ég er búin að setja hrísgrón í flösku, þannig að þegar hún rúllar, heyrist vel í henni. Smá partur af umhverfisþjálfuninni hennar.

Jæja, nú ætla ég að fá mér eftirmat og koma mér fyrir, í leti fyrir framan sjónvarpið. 

See ya! 


Náðug helgi framundan....

100_0397

.....vona ég. Cool Eplið okkar virðist vera að vakna til lífsins, vælir og vantar félagsskap. Ég ætla að eyða helginni í góða veðrinu úti á palli, á milli þess sem ég sinni hefðbundnum heimilisstörfum, Eplinu, börnunum og öllu því. Kannski fáum við góða gesti í heimsókn, hver veit? Á morgun stendur til að það verði Schnauzer hittingur í Sólheimakoti, en við sitjum sem fastast heima, því ekki er hægt að taka Eplið, óbólusett, með og þar með ekki hina hundana þar sem þeir gætu óvart komið heim með smit. 

Myndin er af Eplinu í gær, þar sem hún fékk að fara út í fyrsta sinn. Hún vældi ósköpin öll yfir þessu, vantaði að komast í lyktina og hlýjuna í gotkassanum, og öryggið. En hún allavega upplifði steypugólf, sólina og ferskt loft. Augljóst er að hún er enn voða ung, þetta kemur með tímanum. Enda rétt að skríða í 3 vikna aldurinn þessi elska. 

Það er gott að vera í fríi þessa dagana. Sinna börnum, hundum og heimilinu í friði og stresslaust. Ég finn að þó að ég fari ekki neitt, engin ferðalög, hvorki innanlands né utan, þá er svo gott að geta bara verið heima og notið þess! Við höfum það gott og höfum margt til að vera þakklát fyrir, þó að við vöðum ekki í peningum eða vellystingum.

Eins er þægilegt að þurfa ekki að skipuleggja neitt flóknara en "hvað á ég að hafa í matinn í dag?". Var að láta mér detta í hug að gera "fátækramanna grillpinna" og njóta veðursins í dag. Þá blanda ég kryddi, eggi og raspi í hakk og bý til grillpinna með sveppum og lauk. Ekki erfitt, ekki flókið og svo þarf ég ekki að elda það, því aðrir sjá um "grillmennskuna" á þessu heimili. Svo er gott að hafa salat, pasta og/eða grillkartöflur með þessu, nammi namm. Kannski, -aldrei að vita, -ég á líka afgang síðan í gær....-kannski verður það bara hitað upp og "grillið" verður bara á morgun....-skoðum veðurspánna kannski og látum hana ráða þessu.... ekkert stress! 

Það liggur við að ég hafi bara ekkert spennandi til að tala um þessa dagana, er bara í "ekkert stress" fílíng núna. Algjört spennufall bara, enda hefur mikið gengið á í vikunum á undan...ræði það ekki meir..Pinch En það er alveg ljóst að það er aldrei logn á þessu heimili, ég þarf ekkert að skapa drama neitt, það skeður bara! Vittu til. Ég þakka bara fyrir þá daga sem líða, í friði og spekt og áfallalaust, einn dag í einu Wink

Jæja, farin að "skipuleggja" daginn.

Endilega kvittið fyrir komunni. 


Sonurinn endurheimtur frá Danmörku

Jæja, ég þurfti að bruna út á flugvöll í gærkvöldi að ná í soninn sem var að koma frá Danmörku. Í síðustu viku tilkynnti hann mér, seint um kvöld, að hann ætlaði þangað í eina viku. Drengurinn er 16 ára og búinn að suða í 3 ár um leyfi til að fara. Í þetta skiptið var hann ekki að spyrja, heldur bara að tilkynna þetta. Já já, sagði ég og sagðist ekki geta ákveðið í hvelli hvort hann "mætti" fara, vildi fá betra tækifæri til að ræða um þetta, en það skipti engum togum að áður en ég vissi af, þá var hann búinn að bóka farið og borga það líka! Of seint að segja "nei". Hann lofaði öllu fögru, "mamma treystu mér!", "ég er ekki eins og þú, ég mun koma heim!". Var hann að vísa í þá skömm hjá mér að í æsku lét ég mig hverfa, fór til útlanda og kom ekki með fluginu heim og var "týnd" í heilt ár.

Einhverntímann verður maður að sleppa, og treysta. Þessi börn eru skynsemi, rökhugsun og gáfum gædd, maður getur ekki pakkað þeim inn í bómul og varið þau fyrir lífinu! (Þó ég fegin vildi hlífa öllum börnum mínum fyrir þeim hörmungum sem ég kom mér í þegar ég var ung) En þau eru ekki ég. Það er erfitt að sleppa og treysta og enn erfiðara að "leyfa" þeim að gera sín eigin mistök. Ég held ég verði seint góð í því. 

Það skipti engum togum en að strákurinn kom heill á húfi heim. Ekki búinn að fara til Kristjaníu, ekki búinn að fara í "rauða hverfið", ekki búinn að koma sér í neinn klandur, heldur bara búinn að skemmta sér með frænda sínum! Tívolí, Strikið, tónleikar, ströndin, bara gaman! Mamma getur verið stolt!

Þetta kemur, ég vona bara að ég nái að vera góð mamma þegar á reynir, koma honum til manns á sómasamlegan hátt. Úff, allavega er ég fegin mamma í dag. Strákurinn kom heim, heill á húfi!!

Bæ í bili 


Áfram með smjörið.....

Þar sem beðið er með óþreyju eftir bloggfærslu frá mér, verð ég að láta af því verða Smile En lífið þessa dagana snýst aðallega um börnin mín, hundana og ekki má gleyma hvolpinum nýfædda á heimilinu. Hún er ein í goti, sem gerir hlutina flóknari, og algjör prinsessa. Þegar stórar hundategundir eignast bara einn hvolp, vandast málin. Fæðingin er erfiðari, vegna þess að hvolparnir sjá mömmunni fyrir fæðingarhormónum og svo er erfiðara að koma mjólkinni í almennilegt horf, þar sem einungis einn hvolpur er að örva mjólkurmyndun. Með tilliti til hvolpsins, þá er þetta náttúrulega erfitt með tilliti til þess að það vantar systkinin til að hnoðast með, læra af, hluti eins og bithömlun, hversu fast má bíta og allskonar hundamál. 

Núna er Eplið okkar búin að opna augun sín. Hún er farin að standa í lappirnar og myndast við að labba á brauðfótunum sínum. Hún sefur mikið ennþá og er ekki farin að skoða heiminn að ráði, þó að ég hafi látið hana upplifa hluti eins og kitl í þófum, að labba á köldu blautu handklæði, snúa upp og snúa niður. Smá svona frum umhverfisþjálfun. Núna er ég að spá í að koma upp "leikherbergi" fyrir hana í kassanum. Tístudót, bangsar til að hnoðast í, mismunandi áferðir og hljóð, hlutir sem rúlla og svona. Vinkona mín ætlar að tékka á gamla ungbarna dótinu sínu,  til að athuga hvort það er eitthvað sem ég má fá þaðan. Takk kærlega fyrir það.

Í framhaldinu, þegar Eplið braggast þá ætla ég kannski að reyna að búa til rólu handa henni og smá vegasalt, til að prófa sig á. Vera líka með "heimatilbúna sundlaug, vaðlaug" líka til að venja hana við að busla í vatni. Það er von mín að ég geti örvað þennan hvolp og hækkað hræðsluþröskuldinn hennar upp á framtíðina hennar. Ef hún fer á heimili þar sem metnaður er fyrir tegundinni (Risa Schnauzer), sýningar, hlýðniþjálfun og bronspróf, og jafnvel eitthvað spennandi björgunarsveitastarf ef vill, eða hvaðeina. Þá þarf ég að vera búin að gera mitt besta til að búa hana undir lífið. Svo er von mín að framtíðareigendur hennar fari með hana í skapgerðarmat á tilsettum tíma svo ég fái að sjá hvernig til tekst. Tala nú ekki um eins og að sýna hana nokkrum sinnum líka.

Jamm, sumir halda að ég sé klikkuð, að leggja allt þetta í hund! Þeir gleyma því að maður leggur ýmislegt á sig fyrir börnin sín, þetta er ekki mikið miðað við það. Hundar eru líka eins og börnin manns, afhverju þá að leggja minna í þá? Þetta verða fullgildir fjölskyldumeðlimir sem eiga að funkera með fjölskyldu sinni. Ég er bara að reyna að nota tækifærið og umhverfisvenja hvolpinn minn eins vel og kostur er, á meðan það skilar sér til hans.

 Jæja, nóg í bili, þarf að fara að sinna börnum þessa heimilis.

Meira seinna og takk aftur fyrir hjálpina vinkona. Þetta kemur.Kissing

Kv. Baddý100_0388 (Small)


Velkomin

Hæ hæ,

þar sem ég ákvað að byrja að blogga, kom vinkona mín í heimsókn til að leiðbeina tæknifötluðu vinkonu sinni í startinu!! Takk takk fyrir mig vinkona, þú bjargar alveg deginum fyrir mér.

Bara til að vara ykkur við þá er ég með hundadellu dauðans! Þetta blogg verður meira og minna um hunda, mína og annarra.

 

Meira seinna.;o)

Kv. Ilovemydog 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband