Mamma............

mum_ferming.jpgÞar sem ég get ómögulega sofið, er bara andvaka og nú er dagur runninn upp á ný, held ég að ég verði hreinlega að skrifa aðeins um það sem brennur mest á mér þessa dagana. Í dag er stóri dagurinn, þannig séð, því í dag verður mamma mín jarðsungin. Mamma mín var yndisleg kona, opin, hlý, skilningsrík, fordómalaus, frábær hlustandi, mjög listræn og hæfileikarík, með frábæran húmor, bráðgáfuð og full stuðnings og jákvæðni að eðlisfari. Hún var líka listakokkur, dýraunnandi, sá alltaf það góða í fólki og vildi öllum vel. Þannig var hún bara.

En mamma átti ekki sjö dagana sæla, og þjáningin sem hún fékk að lifa myndi ég ekki óska upp á neinn, ekki minn versta óvin meira að segja. Ég ætla ekki að rekja sjúkrasögu hennar hér, það væri sennilega fljótlegra að telja upp það sem ekki hrjáði hana, heldur en hitt. Enda mikið búið að ganga á í hennar heilsufari í gegn um tíðina. Ef að mamma mín hefði verið hundur hefði hún sennilega verið svæfð, af mannúðarástæðum, ekki vegna þess að við vildum losna við hana, fyrir allavega 25-30 árum. Enginn myndi vilja leggja svona þjáningar á nokkra lifandi veru og láta hana draga fram lífið í marga tugi ára í því ástandi, með enga von um bata. En hún átti samt skárri tímabil inn á milli. Það versta sem mamma mín þekkti var að liggja inni á spítala og geta ekkert gert. Hún endaði því oft á því að verða allt í einu komin í hlutverk spákonu deildarinnar eða að vinna í þýðingarverkefnum fyrir aðra á meðan hún lá inni. Bara til að dreifa huganum og hafa eitthvað fyrir stafni - því ekki vildi hún velta sér upp úr sínu eigin ástandi. Mamma vildi heldur ekki vera byrði, ekki á neinn. Henni þótti vænt um að geta hjálpað eða orðið að gagni og þetta stytti henni stundirnar líka.

En lífið fór ekki með mömmu mína mjúkum höndum, því miður. Sárast þótti mér í gegn um tíðina að vera áhorfandi á kvalir hennar og geta ekkert, nákvæmlega ekkert gert til að lina hennar kvöl og læknað hana, þó ekki væri nema að einhverju leyti. Peningagjöf eða viðvik læknaði ekki neitt, hjálpaði kannski smá, þann daginn, en gerði í raun lítið sem ekkert betra fyrir hana. Hún lifði samt áfram í kvöl, þó að hún léti eins lítið á því bera og hún gat, því hún vissi að ekkert væri hægt að gera og hún vildi ekki að við vissum að fullu hvað hún leið. Úff..erfitt að útskýra þetta. En í gegn um árin, eftir því hvað henni versnaði og við bættust sjúkdómar ofan á hina, þá var sárt að horfa upp á að hún missti eitt af öðru alla getu til að njóta neins. Þegar heilablóðfall varð þess valdandi að sjónin hennar eyðilagðist, (hún sá allt tvöfalt og ekki hægt að laga það) var sárt að sjá að hún gat ekki lengur föndrað, saumað eða lesið sér til dægrastyttingar. Þetta er bara eitt dæmi, en smátt og smátt tók heilsuleysið frá henni allt sem við hin teljum sem sjálfsagðan hlut. Undanfarin ár hefur mamma mín ekki getað hreyft sig, staðið upprétt, ekki getað borðað án þess að líða kvalir, ekki kúkað á eðlilegan máta, og undanfarin ár ekki andað heldur eða farið neitt án aðstoðar, ekki einu sinni baðað sig sjálf án aðstoðar.  Lífið hennar gekk út á að taka lyf við hinu og þessu, lyf við aukaverkunum á lyfjunum, blóðmælingar og lyf til að hafa stjórn á líkamsstarfseminni, bara til að lifa þennan dag, einn dag í einu. Hún var með súrefni 24/7 og komst ekki neitt ein og óstudd. Þessi yndislega kona og fagra sál var föst í eymdinni, þó hún hafi alla tíð gert sitt besta og ekki viljað þurfa neitt frá neinum. 

Varð hún bráðkvödd um daginn, ein heima 62 ára gömul, og verður því jarðsungin í dag í kyrrþey. Hún hefði ekki viljað skyggja á jólin fyrir neinum sem henni þótti vænt um og ég veit að hún vilji að við njótum jólanna, eins og ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir allt þó að núna sé stórt skarð skilið eftir sem enginn getur fyllt. Ég er full sorgar og söknuðar í dag, og þessa dagana. Mamma var best og brosti í gegn um tárin og bar harm sinn í hljóði. En ég ætla að leyfa mér að horfa á björtu hliðarnar samt og ætla að halda yndisleg jól með fjölskyldu minni þrátt fyrir allt. Mamma vill hafa það þannig. Hún er núna laus úr viðjum þjáningarinnar, verkjalaus, getur hlaupið um frjáls, andað án nauðar og flogið eins og henni lystir. Núna getur hún verið glöð. Við ætlum að heiðra minningu hennar með því að halda ótrautt áfram, njóta lífsins og hlæja og vera góð við hvort annað. Þannig vill hún hafa það. Í sumar munum við svo leggja hana til hinstu hvílu, í leiðinu hjá ömmu og afa á heimaslóðum þeirra. Hún hvílir ekki annarsstaðar í friði, nema þar. Heart

Anda inn - anda út. Ég er núna búin að pústa smá. Já, ég er á lífi, er ekki farin endanlega, en hef haft mjög mikið að gera í haust og inn á milli í öllum kreppufréttunum hef ég verið andlaus að blogga. Eflaust mun ég taka upp þráðinn á ný núna, sé til. Ég ætla þó að taka það rólega yfir hátíðarnar og hugsa bara um fjölskylduna, hundana og hvolpana á heimilinu. Hér er aldrei logn, svo mikið er víst - nóg að gera. Hafið það gott elskurnar og gleðilega hátíð... Set inn myndir af hvolpunum og litla sjálfstæðismanninum mínum með Fríðu Feykirófu hér: 010.jpg006.jpg002.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Innilegar samúðarkveðjur mín kæra.

Ragnheiður , 24.12.2008 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband