8.1.2008 | 09:41
Púst...............
Á meðan að ég bíð eftir kaffinu mínu, þá ákvað ég að blogga smá. Verð sennilega búin að drekka nokkra bolla áður en ég verð búin, en mig grunar að þessi færsla eigi eftir að vera svolítið löng. Í þetta sinn ætla ég að pústa svolítið út, fjalla um svolítið sem ég ætlaði mér aldrei upphaflega að setja inn á þetta blogg mitt. Ætlaði að geyma þennan hluta lífs míns aðskildum frá ykkur, því það er svo leiðinlegt að tala um verki og veikindi og enginn nennir að lesa um slíkt, eða er það ekki?
Málið er að ég lenti í ömurlegu bílslysi í ungdómi mínum. Bakið mitt brotnaði, eða 4 hryggjarliðir fóru í mask, og gjörbreytti þetta lífi mínu. Ég var, er og verð alltaf talin heppin samt, þar sem ég hreinlega lenti ekki í hjólastól, get labbað og það er ekki að sjá utan á mér að ég gangi ekki heil til skógar.
Ég ætla ekki að fara að útlista hér öllum verkjum, takmörkunum eða einkennum sem ég glími við vegna þessa samt. En það eina sem ég ætla að segja hér er að síðan þá hef ég glímt við heilsufarsvanda. Vanda sem fer víst stækkandi, eða hvernig segir maður, mér á aldrei eftir að batna?
Mitt lífsmottó er að velta mér helst ekki upp úr neikvæðum þáttunum í lífinu, heldur reyna sem mest að halda fókusnum á það jákvæða. Lítið bros, litlir sigrar og stórir og jákvæðir hlutir eru það sem halda mér mest gangandi. En lífið er samt alls ekki bara dans á rósum og gaman, ég kýs bara að einbeita mér að því sem er gott og jákvætt og láta hitt liggja á milli hluta. Mér líður allaveganna betur þannig og ef ég er jákvæð þá gengur allt hitt miklu betur.
Í gær fór ég til læknis. Hann sagði mér að ég væri með vefjagigt. Hann sagði að mér myndi aldrei batna ég myndi bara eiga betri daga og verri daga. Hann var ekkert að segja mér neitt sem olli mér neinu áfalli, þannig séð. Ég hef vitað í þó nokkur ár að ég myndi aldrei ná heilsu og lífið mitt hefur verið "betri dagar - verri dagar" í mörg ár, nú þegar. En þessi greining kom mér á óvart. Það var til nafn á mitt "human condition". Hann útlisti allt sem að mér er, bakið, vöðvabólgan og hreyfihömlunin og allir þeir verkir, sykursýkin, mígrenið og höfuðverkirnir, svefninn eða leysið (og sú staðreynd að ég get ekki legið útaf og sofið í rúmi), og síþreyta. Reyndar var síþreytan uppgötvun fyrir mig að tilheyra vefjagigt og að það sé einkenni, þar sem að ég hélt alltaf að það væri bara afleiðing af öllu hinu. Hann skoðaði mig og potaði í mínar vöðvafestur, og alltaf þegar ég ætlaði að segja "nei, ekki svo aum þarna" sigrihrósandi, þá færði hann puttana sína aðeins til, eða tók fastar á þannig að mín gat ekki annað en æmt og kippst til. Hann var svo viss í sinni sök, hitti undantekningarlaust á aumustu punktana mína, að ég varð eiginlega kjaftstopp!
Ég er að reyna að kyngja þessu, taka þessu með jafnaðargeði og reyna að finna jákvæðar lausnir. Googlaði aðeins í nótt um þetta og komst að því að þetta væri stundum svolítil "ruslakistugreining" á fullt af einkennum. En samt er gott að geta séð að það er til fullt um þetta, fullt af góðum ráðum til að hjálpa manni að vinna í því að líða sem best. En mikið er gott að sjá að "aumingjaástandið mitt" hefur nafn og er viðurkenndur sjúkdómur. Kannski verður þetta til þess að ég sætti mig við þetta human condition mitt, þó að ég ætli alls ekki að gefast upp. En ég hef hingað til átt afar erfitt með að sætta mig við að ég geti ekki allt sem ég vil, og hef barist í mörg ár við að finna hluti sem ég get gert. Reynt að gera eins mikið og ég get frekar en að gefast upp, leggjast í volæði og fókusa á það slæma og verkina.
Í dag er ég ekki frá því að ég er svolítið sorgmædd. En það líður hjá líka. Ég er staðráðin í því að ég ætla að halda áfram að fókusa á litlu sigrana, gleðjast yfir því sem gott er og jákvætt. Ég ætla ekki að láta þetta aftra mér, og ætla bara að halda ótrauð áfram. En sorgin er kannski mest yfir því að ég get ekki horft framhjá einkennunum lengur, aumingjahátturinn minn er búinn að fá nafn og er löggildur sjúkdómur. Sorgin er yfir því að kannski núna fer ég að gefa mér afslátt, afslátt á fyrirhöfn, afþví að ég er svona eins og ég er. En ég verð að viðurkenna líka að þó að ég vilji ekki meðaumkvun og afslætti, þá er bara miklu erfiðara að gera einföldustu hluti, fyrir mig, en marga aðra. Ég á bara erfitt með að kyngja því að ég verð einfaldlega að leyfa mér stundum þennan afslátt.
Ég fékk semsagt stimpil í gær, stimpill eins og tatoo sem hverfur ekki héðan af. Ég valdi ekki þennan stimpil, en það gerðu ekki allir hinir sem hafa fengið hann líka. Eða aðra verri sjúkdóma. Mér líður samt pínulítið eins og að ég hafi fengið dauðadóm, en hann tekur bara ekki gildi strax. Þangað til ætla ég að halda í jákvæðnina og halda áfram með allt sem ég megna.
Í dag ætla ég að fara með Afríku í sónar, reyna að fá staðfestingu á því að hún sé í raun hvolpafull. Ég mun sennilega blogga aftur í kvöld, til að færa þessa færslu neðar. Nenni ekki að flagga þessu pústi mínu lengi.
Hafið það sem best elskurnar í dag og munið að njóta augnabliksins og góðu stundanna í lífinu. Þeir eru það sem gefa lífinu gildi. Það er ferðalagið á þessari jörð sem skiptir máli, ekki áfangastaðurinn.
Svo ætla ég að hætta þessari væmni og voli og fara að gera eitthvað, knúsa hvolpa og umhverfisvenja og svona..........
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 34035
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er leitt að heyra. En viðhorfið þitt á eftir að fleyta þér ansi langt. Gangi þér sem allra best Bjarndís.
Jóna Á. Gísladóttir, 8.1.2008 kl. 09:48
Ég ætla byrja á því að segja: Þetta er góður pistill og hættu að skammast þín fyrir að tjá þig.
Þetta hljómar kannski skrýtið en til hamingju með það að hafa fengið nafn á kvillum þínum.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.1.2008 kl. 10:14
Baddý, common, þú hefur alltaf verið "fighter" þú ferð ekkert að breyta því núna af því að verkirnir og einkennin sem þú ert með bera nafn !! Þú ert alltaf Baddý, sem enn hefur bara ekki lært að þú þarft að hvíla þig inn á milli þess sem þú tekur æðiskast í vinnu og verkefnum. Þú ert með sjúkdóm, það er ekki endilega dauðadómur, þú þarft bara að læra að lifa með honum sem þú kannt í rauninni því þetta hefur verið til staðar síðustu árin.
Þú ert "fighter" .. haltu því til streitu, og láttu ekki deigann síga, það er ekki Baddý sem ég þekki !!
Koma svo stelpa, rétt eins og hinar fegurðardrottningarnar.. BROSTU Í GEGNUM TÁRIN :)
kNÚS Á ÞIG
Guðrún B. (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 18:05
Hæ Baddý.
Mjög leitt að heyra að þú sért með vefjagigt. Besta vinkonan mín er með vefjagigt og hefur verið í mörg ár og er búin að fræða mig um þennan sjúkdóm og hvernig hún hamlar henni í daglegu lífi. Meira að segja grunar lækninum mínum að ég sé komin með vefjagigt samkvæmt lýsingum frá mér en eins og venjulega þá dreg ég það í lengstu lög að fara og fá almennilega greiningu á því. Það sem hjálpar mér eins og er er þessi góða hreyfing sem ég fæ með að bera út Moggan og 24 Stundir í klukkutíma á hverjum morgni (nema Sunnud.) Því miður er enginn bati til en hægt er að gera ýmislegt til að hjálpa sér að líða betur þá stundina sem það virkar, hreyfa sig vel með að ganga rösklega en það skrýtna við það er að vellíðunin er á meðan gengið er en eftir á koma fram verkir og vanlíðan þegar slakað er á. Það virkar ágætlega að breyta mataræðinu, draga úr sykurneyslu og slíkt. En ég held að besta hjálpartækið er hugarfarið. Passa sig á því að hugsa ekki neikvætt því neikvæðar hugsanir skapa vanlíðun og það ýtir undir verkjum og líkamlegri vanlíðun.
Farðu mjög vel með þig Baddý mín og mér þætti vænt um að þú myndir senda mér á emailið mitt nafnið á lækninum þínum, ég þarf að láta kíkja á mig í náinni framtíð. Ertu til í að gera það?
Kær kveðja úr Grafarvoginum
Nína Margrét (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 19:13
Mér finnst það bara eðlilegt og af hinu góða að fólk sem lendir í þeirri stöðu sem þú ert í, að fá fréttir eins og þessar, noti þennan miðil til að tjá sig um það, og mér finnst þetta góður pistill. Ég veit um fólk sem hefur fengið vefjagigt þannig að ég held að ég viti eitthvað pínulítið um það hversu grimmur sá sjúkdómur er. Ég vona bara að hann herji ekki stöðugt á þig og þú fáir hvíld frá honum inn á milli. Líklega fer það eftir því hversu vel þú ferð með þig svo að ég segi bara eins og Nína Margrét: Farðu mjög vel með þig kæra bloggvinkona
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 20:38
Ég var einmitt að skrifa pistil um hvað bloggið væri frábært til að rausa um sýnar raunir! Því finnst mér þetta ekkert væl hjá þér Bjarndís mín um að gera að deila svona með okkur vinunum. Svo hlýtur líka að vera ákveðinn léttir að fá nafn á spurningamerkið, það er betra en óvissan og að telja sjálfan sig með aumingjaskap. Gangi þér vel og farðu vel með þig
Huld S. Ringsted, 8.1.2008 kl. 22:08
Knús
Fishandchips, 8.1.2008 kl. 23:51
Maður getur verið heppinn - að lenda ekki í hjólastól - en óheppinn að brjóta hryggjarliði - heppinn að vera ekki meira veikur - en óheppinn að vera veikur.... en hvar sem maður er í þessu, er nauðsynlegt að taka út tilfinningar, góðar og slæmar. Af mínum kynnum við þig, sé ég jákvæða persónu.... og það á eftir að gera gæfumuninn mín kæra.
Anna Einarsdóttir, 8.1.2008 kl. 23:52
Takk fyrir peppið, þið eruð yndisleg. Í dag er ég ekki frá því að hafa verið pínulítið meðvituð um þessa verki mína, aðallega út af hverju þeir stafa. Áður fyrr hékk ég lengi á því að þetta hlyti að vera "tilfallandi" og myndi batna. Sem það gerði, alveg þangað til næst Það er skrítið hvað sjúkdómsgreining skýrir margt, en verra að vita að þó að þetta batnar í bili þá er það ekki búið.
Jæja, best að fara að blogga næstu færslu....
Bjarndís Helena Mitchell, 9.1.2008 kl. 00:41
Þetta eru ekki góðar systur, síþreyta og vefjagigt. Þær hafa búið hjá mér síðustu 20 árin og geta stundum stjórnað heilu dögunum og nóttunum líka. Ég er á lyfi, búin að vera á því í 15 ár og það gerir það að verkum að ég næ að sofa djúpa svefninum og hvílast betur, það dregur stundum úr verkjunum, en semsagt ekki gaman. Vertu dugleg að bera þig upp við okkur og leyfa okkur að fylgjast með, við erum hér fyrir þig. Knús og kveðja frá verkjasystir
Ásdís Sigurðardóttir, 9.1.2008 kl. 01:14
Þetta er bara svona hjá manni, maður er sendur í lífið með poka af dóti sem maður á að kljást við. Svona endalausa verki þekki ég vel, þeir heita bara ekkert enn hjá mér. Ég skamma þá og kalla þá illum nöfnum. Það dugar ekkert enn.
Knús á þig mín kæra..
Ragnheiður , 9.1.2008 kl. 01:14
Einhvernvegin fór þessi færsla fram hjá mér, en þú með þitt hjartalag, ákveðni og bjartsýni kemur þér áfram. Ef þú ætlar þér eitthvað, þá gerast hlutirnir, það veit ég, ef maður gefst upp þá gerist ekkert. Það eru tveir kostir um að velja og veit ég að þú velur þann fyrri því þú ert þannig manneskja sem gefst ekki upp og leyfir einhverjum sjúkdómi að éta þig upp. Vertu samt fegin að vera búin að fá greiningu, það eru ekki allri sem fá hana, en gangi þér vel elsku dúlla. Smjúts á þig
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.