14.12.2007 | 00:03
Afmæli, rafmagnsleysi og fjör.....
Hér er búið að vera fjör og ekki fjarri að það hafi skapast sérstök stemmning í afmælisveislu litla kúts. Varð hann allra 7 ára í dag og vildi halda veislu í fyrsta skiptið síðan hann var lítill. Í fyrra fannst honum afmælisveislur bara leiðinlegar og neitaði að halda slíka og faldi fyrir mömmu sinni boðskortin sem hann fékk þó, í afmæli vina og bekkjarfélaga.
Í haust skipti hann um skoðun. Bað svo fallega að fá að halda veislu og mætti í allavega tvö afmæli önnur sem honum var boðið í. Mér fannst svo mikið til koma að auðvitað kom ekki annað til greina en að halda upp á afmælið hans. Ég var bara fegin að sjá breytinguna á viðhorfinu hjá honum. Hann var búinn að úthugsa alla veisluna. Bjó til gestalista, með heimilisföngum og símanúmerum, einn og sjálfur, svo boðskortin, umslögin og allt. Mörgum sinnum. Hann var búinn að mála piparkökur í massavís fyrir afmælið og gera allar kúnstarinnar reglur til undirbúnings á veisluhöldunum. Mínum dreng hlakkaði mikið til.
Svo loksins rann dagurinn upp. Búið var að dekka borð, og undirbúa allt sem hægt var fyrir komuna hans heim úr skólanum seinnipartinn. Allt nema blöðrur, ég er með ofnæmi fyrir þeim og hann hefur skilning á því. En það var búið að fjárfesta í DVD mynd, og tölvuleik og ýmislegt fleira. Krakkarnir mættu öll á réttum tíma og veislan byrjaði vel. Hér var fjör!
Ég var að leggja lokahönd á tölvupóst sem ég nauðsynlega þurfti að senda fyrir kl. 18, til Englands, og akkúrat þegar ég var að setja inn undirskriftina og átti bara eftir að ýta á "send" fór rafmagnið!
Hér var kolniðamyrkur og enginn sá neitt. Engin vasaljós voru tiltæk og allir krakkarnir frusu. Þotið var með ljósið frá einum farsíma að rafmagnstöflunni en ekki vantaði að slá neinum takka inn aftur. Rafmagnið var farið af öllu hverfinu!
Lítil stúlka byrjaði að kjökra smá og ég heyrði í krökkunum reyna að færa sig án þess að sjá neitt. Ég fikraði mig áfram að kertaskúffunni og náði í eins mörg kerti og ég fann. Öll jólagjafakertin sem ég hef fengið í gegn um árin, ásamt fermingarkertum sonanna eldri og föndurkertið frá litla kút af leikskólanum, komu að góðum notum núna. Næsta hálftímann eyddi ég í að kveikja á kertum út um víðan völl í húsinu, ásamt því að panta pizzuveislu því ekki var hægt að elda neitt eða hita. Svo fór ég að sækja pizzurnar. Hér voru semsagt snæddar pizzur, kökur og gos við kertaljós. Engin tónlist, ekkert DVD, enginn tölvuleikur, ekkert af því sem búið var að undirbúa gat verið í boði. Krakkarnir gerðu gott úr hlutunum, þetta var sko "spooky" afmæli! Úúuúú, fjör í myrkrinu og upphófust draugaleikir og læti, þar til litlu stúlkunni var ekki lengur skemmt.
Nú voru góð ráð dýr og eins gott að vera með "plan B" ef afmælið ætti að endast til kl. 20 eins og gert hafði verið ráð fyrir. Sem betur fer átti ég fullt af hálfnotuðum túpum með lituðu glassúr og nóg af piparkökum. Litli kútur var duglegur að byrja á nýjum pökkum af þessu, í jóla og afmælisföndrinu sínu. Hér voru semsagt málaðar piparkökur í restina og fengu allir sínar kökur með sér heim, södd, sæl og reynslunni ríkari rafmagnsleysinu.
Þetta var góður dagur, þrátt fyrir allt og litli minn fór sæll að sofa áðan í von um að jólasveinninn fari ekki framhjá húsinu okkar án þess að sjá að hann væri heima, og sofandi Setti inn bréf til sveinka og bað um fullt af nammi! Stúfur varð að sjálfsögðu við þeirri bón og skrifaði honum hamingjuóskir til baka, á sinn hátt eins og honum er einum lagið.
Rafmagnið komst á núna bara fyrir 20 mínútum. Tölvupósturinn minn sem ég var lengi að semja, týndur og tröllum gefinn. Á morgun kemur nýr dagur
Góða nótt
Um bloggið
Bjarndís Helena Mitchell
Tenglar
Tenglar
- MPG-CAP, eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eykur hestöfl, dregur úr mengun og sparar bensín eða dísel á allar vélategundir!
- http://www.svartskeggs.com
- http://www.hrfi.is
- http://www.kennel-savali.info
- http://www.hundaspjall.is
- http://www.giant.bloggar.is
- http://www.mitchell.is
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 34035
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Æ hann duglegur afmælisbarnið þitt Flott að allt reddaðist þrátt fyrir smá breytingar af sökum rafmagnsleysis Ég er viss um að hann Stúfur gleymir ekki 7 ára afmælisguttanum
Katrín Ósk Adamsdóttir, 14.12.2007 kl. 00:07
Veistu ég held að þetta afmæli verði í minnum haft sem eitt það skemmtilegasta hjá viðstöddum...Til hamingju með guttann þinn.
Ragnheiður , 14.12.2007 kl. 00:08
Knús á afmælisbarnið, eftirminnilegur dagur fyrir ykur öll. Kær kveðja á þig og þína.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.12.2007 kl. 00:11
Til hamingju með prinsinn.....minn verður 9 ára þann 19 des
Guðrún, 14.12.2007 kl. 00:18
Elsku Baddý mín, til hamingju með litla sjálfstæðismanninn. Það er ekki að spyrja að þvi að hann er sjálfstæður, og öll færslan þín ber þess merki. Enda dugnaðarforkur drengurinn, á svosem ekki langt að sækja það.
Knús á ykkur öll, bið að heilsa afmælisbarninu. Segðu svo að fyrsta afmælisveislan sé ekki eftirminnileg.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 02:24
Takk allir, já ég held að hann gleymi seint þessum afmælisdegi. Kvöldið var líka ánægjulegt, því við fjölskyldan sátum saman við kertaljós og spjölluðum um heima og geyma. Það er alltof sjaldan sem við slökkvum á öllu og eigum samverstund og tölum saman. Ég er bara farin að hallast að því að stöku kvöld eytt í rafmagnsleysi sé bara af hinu góða.
Bjarndís Helena Mitchell, 14.12.2007 kl. 07:53
So true
Guðrún B. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:32
Til lukku með litla/stóra strák, þetta er afmælisveisla sem allir koma til með að muna eftir að hafa málað piparkökur og spúúúkí myrkur .
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 20:13
Kvitt,kvitt Góða nótt Baddý mín
Katrín Ósk Adamsdóttir, 16.12.2007 kl. 01:06
Æi svo krúttleg færsla. Tapaði mér í rafmagnsleysinu líka. Var að detta inn hér fyrst núna, er búin að vera svo tætingsleg eitthvað og bara farið tilviljanakennt inn á bloggvinina. Takk fyrir öll innlitin og tryggðina við mig mín kæra. Fylgist með þér áfram. Knús og klemm og takk aftur.
Jenný Anna Baldursdóttir, 19.12.2007 kl. 01:07
Til hamingju með kútinn. Hvað er þetta rafmagnsleysi smitandi og þá alltaf á afmælisdögum. Ég held að rafveitan þurfi að setja upp sterkara kerfi.
Ásta María H Jensen, 22.12.2007 kl. 02:42
Síðbúin afmæliskveðja!!
Gleðileg jól til þín og þinna Bjarndís og takk fyrir skemmtilega bloggvináttu
Huld S. Ringsted, 22.12.2007 kl. 21:33
Óska þér gleði og gæfuríkra jóla. Takk fyrir skemmtileg kynni í bloggheimum
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.