Heimkoma og minning....

Jæja, þá erum við komin heim aftur. Ferðin gekk ótrúlega vel, strákarnir höguðu sér mjög vel saman, sem kom á óvart þar sem ferðin í bílnum er um 6-7 tímar, hvor leið með stoppum. Við bjuggumst við rifrildum og jafnvel slagsmálum í bílnum á leiðinni eins og var yfirleitt hér áður, en nei, það var bara gaman, mikið hlegið og djókað og vináttan fékk að ráða ríkjum í þetta skiptið. 

Fyrsta kvöldið var líka gott, öll fjölskyldan samankomin, mikið spjallað saman og góður samhugur í minni litlu kjarnafjölskyldu. Ég var bara stolt mamma.

Útförin var virkilega falleg, og fór fram í kyrrþey. Mikið var hugsað til tengdó og allar hennar óskir virtar. Var ég búin að skrifa um hana nokkurskonar minningarorð, og fékk mikið hrós fyrir. Var þetta gert undir svolítilli pressu, fyrir prestinn og hans ræðu. Ætlaði hann að taka alla svona pistla með í reikninginn til að miða við í minningarræðu sinni um hana. Samt fór megnið af ræðunni í að tala um kenninguna "Líf eftir dauðann" vitnað í bækur og einhverjir heimspekingar nefndir á nafn. Ég get svarið það að það var farið að fjúka í mig í kirkjunni þar sem það ætlaði aldrei að koma að því að tala um gömlu konuna! En þetta var næstum eini skugginn yfir þessari athöfn og loksins talaði presturinn um hana alveg í restina. Samt var hún minnsta umræðuefnið í minningarorðunum og varð ég fyrir vonbrigðum með það.

Annar skuggi sem féll á þetta, er að prestinum láðist að tilkynna í kirkjunni að það yrði boðið upp á kaffi að jarðarförinni lokinni. Varð það til þess að nánustu vinir og sumir ættingjar vissu ekki og mættu ekki í kaffið, sem þó var bara það kaffi, gos og smávegis konfekt. Sú gamla vildi ekki eiginlega erfðadrykkju.

Síðasti skugginn var einfaldlega veðrið. Rok og rigning, sem var kannski alveg við hæfi við sorgina sem ríkti, en ekki við hæfi persónu og hressileika gömlu konunnar. En við fáum ekki að stjórna veðrinu frekar en fyrri daginn.

Hér koma minningarorðin sem ég skrifaði um hana, ég á eftir að laga aðeins og bæta og senda svo inn sem minningargrein:

Ninnu verður sárt saknað hér á þessu heimili. Þó að mestu samskiptin hafi verið í gegn um síma, þá var hún samt stór og mikilvægur hluti fjölskyldunnar. Ninna lagði línurnar, setti kröfur, veitti góð ráð og lagði uppbyggjandi dóm á það sem var að ske hverju sinni. Hún var alltaf til í að leggja orð í belg og reyna að hjálpa sem mest hún mátti. Hún var gædd nokkurskonar fjarstýringu í okkar lífi, ef svo má að orði komast. Þessa fjarstýringu notaði hún líka heima fyrir og stóð Hrólfur afi eins og klettur við hlið hennar og gerði allt það sem hún gat ekki sjálf, fyrir hana. En jafnt og þétt jókst fjöldi takkanna á fjarstýringunni, eftir því hvernig heilsu Ninnu  hrakaði. Því alltaf bættist við í safnið, þau verk sem Hrólfur þurfti að inna af hendi fyrir hana.
 
Þegar Hallgrímur og ég vorum að byrja saman átti hún það til að hringja í mig, nýju kærustuna, bara til að athuga hvað ég væri með í matinn þann daginn. Vildi hún fullvissa sig um að ég kynni að elda og að hann fengi nógu góðan mat. Seinna fóru símtölin að snúast um alla aðra hluti, og tók hún þátt í lífi okkar, þó í fjarlægð væri, og talaði við Halla sinn oftast í hverri viku. Henni var annt um strákana sína, barnabörnin og alla ættingja sína. Hún var ákveðin, með sterkar skoðanir og var ekkert að flíka þeim, sagði bara meiningu sína umbúðalaust og hispurslaust. Hún var með munninn fyrir neðan nefið og notaði hann. Stóð hún alltaf fyrir sanngirni og heiðarleika og gaf af sér eins mikið og hún átti til. Börnin mín sem ég átti fyrir, voru fyrir henni eins og barnabörnin hennar öll. Gaf hún þeim ekkert minna af sér, en til þeirra hinna. Öll börnin innan fjölskyldunnar voru hennar og allir fengu jafnt.
 
Ninna vissi sínu viti um svo margt, flóknustu hlutir voru einfaldir þegar hún fékk að leggja orð í belg. Var stundum gott að tala við hana og fá góð ráð úr reynslubrunni hennar. Kenndi hún öllum börnum og barnabörnum sínum að verja sig og standa með sér. Láta ekki vaða yfir sig eða traðka á neinn hátt, en það mátti alls ekki nota barefli eða ljótar aðferðir til þess. Alls ekki vera fyrstur til að berja frá sér, bara að verja sig og ekkert annað. Reglurnar voru skýrar og komu mínum börnum vel með hluti sem þau höfðu áður verið í vandræðum með í sinni lífsbaráttu í skólanum.
 
Ninna elskaði tónlist af lífi og sál. Smitaði hún börnin sín af þessu áhugamáli sínu og var afar stolt af tónlistarnámi og söng hjá sínu fólki. Fannst henni virkilega gaman að fá að hlusta á sitt fólk spreyta sig í tónlistinni og gat líka þanið raddbönd sín ef þannig lá á henni. Skein þá sönn gleði frá henni enda var fátt skemmtilegra en góð íslensk tónlist og söngur.
 
Var hún líka safnari mikill. Ekki var erfitt að finna gjafir handa Ninnu ef því væri að skipta. Var hún ávallt jafn glöð með eitthvað smálegt í safnið sitt eins henni hefði verið gefið gull og grænir skógar. Einstaka stálminnið hennar gerði það líka að verkum að alltaf mundi hún hver gaf henni hvað og hvaðan það kom. Minnti hún líka á hluti fyrir vini sína í þeirra söfn, því ef rekist væri á eitthvað sem hentaði þeim í leiðinni, væri það líka frábært. Hugsaði Ninna alltaf um aðra en sjálfa sig við hvert tækifæri. Sýndi það sig líka í veikindum hennar, því aldrei lét hún allan sannleikann í ljós. Hún lét vita ef henni leið illa, en kannski ekki alltaf alla söguna um hversu illa í raun henni leið. Þegar við töluðum við Ninnu, bara í vikunni áður en hún lést, bar ekki á því hversu illa farin hún var orðin. Leyndi hún því með hversu brött og hress hún var alltaf í símanum. Var það því áfall þegar fráfall hennar bar að. Við héldum að við fengjum meiri tíma, allavega ein jól í viðbót, en svo var ekki. Eftir á að hyggja, þegar við áttuðum okkur á hversu veikindin hennar höfðu ágerst mikið og hversu illa farin hún var orðin, skildum við að kannski væri betra fyrir hana að fá að fara, að Guð tæki hana til sín og varðveiti, heldur en að þjást mikið lengur með enga von um bata. Veikindin höfðu tekið sinn toll svo lengi, voru búin að taka frá henni sjónina, getuna til að labba og gera svo margt. Höfðu tekið burtu frá henni svo mikið að lífsgæðin hennar voru orðin engin. Það eina sem hún átti í raun eftir var getan til að tala og segja sína meiningu. Var það alls ekki nóg til að réttlæta það að halda í hana lengur. Við lifum í þeirri trú að hún fylgist grannt með okkur að ofan, sjái allt sem fram fer og stýri með fjarstýringunni sinni á einfaldan og umbúðalausan hátt eins og henni er einni lagið. Þó að við syrgjum Ninnu sárt, þá er samt huggun í því að þjáningu hennar er lokið.
Hvíl í friði Jónína Hallgrímsdóttir 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huld S. Ringsted

Velkomin heim bloggvinkona!!  

Falleg orð hjá þér um tengdamömmu þína.

Huld S. Ringsted, 2.9.2007 kl. 14:41

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst þetta sérdeilis lega vel skrifuð minningarorð. Segir manni svo mikið hvernig persóna hún hefur verið, ekki mærðarlegt, heldur segir frá hennar góða lífi.  Þú ert góður penni stelpa.  Kær kveðja til fjölskyldu þinnar.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 14:53

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Velkomin heim!
Virkilega falleg minningargrein

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.9.2007 kl. 15:20

4 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Takk, það er líka gott að vera komin heim.

Bjarndís Helena Mitchell, 2.9.2007 kl. 15:51

5 Smámynd: Ragnheiður

hæ ég skal senda þér þetta ef þú sendir mér mail á ragghh@simnet.is

Takk fyrir allan stuðninginn

Ragnheiður , 2.9.2007 kl. 18:44

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hæ Bjarndís mín. Mikið er þetta falleg minningargrein um tengdamömmu þína.

mig langar að þakka þér fyrir kommentið við færsluna mína um Þann Einhverfa. Mat það mikils

Jóna Á. Gísladóttir, 2.9.2007 kl. 23:32

7 identicon

velkomin heim ljúfust, falleg orð hjá þér um tengdó.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 08:37

8 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Falleg minningarorð.

Velkomin heim aftur

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 3.9.2007 kl. 08:45

9 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Takk fyrir kveðjuna

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 3.9.2007 kl. 08:46

10 identicon

Velkomin heimelsku Baddý mín. Fallega skrifuð orð. Það er ekki laust við að ég hafi fundið eins og nokkur tár, og ég minnti mig á að ég þarf að klára minningagreinina um ömmu. Get bara einhvernveginn ekki byrjað. 

Knús á þig elskan.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bjarndís Helena Mitchell

Höfundur

Bjarndís Helena Mitchell
Bjarndís Helena Mitchell
Hundadellukerling með meiru. Þetta meira er t.d. börnin mín og fjölskylda, vinnan, vinirnir og svo framvegis.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Gleðileg jól 2009
  • Gleðileg jól 2009
  • ...010_764018
  • ...030
  • ...024_764016

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.2.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 34053

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband